Umfjöllun allshn. um þáltill. um embættisfærslu umhverfisráðherra

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 13:50:04 (4057)


[13:50]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegur forseti. Í morgun tók ég þátt í fundi í tveimur þingnefndum. Í fyrri nefndinni, hv. iðnn., afgreiddum við tvö stjórnarfrv. til samþykktar í þessari virðulegu stofnun og afgreiddum að auki til frekari vinnumeðferðar þrjár þáltill. og tvö stjórnarfrv. Í hv. menntmn. var haldinn aukafundur í hádeginu í dag og formaður menntmn., hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, ámálgaði það að haldinn yrði enn einn aukafundur seinna í þessari viku.
    Við höfum verið að fjalla um fjölda mála í ágætu samkomulagi og samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu. Hv. 6. þm. Reykn. hefur látið etja sér á það forað af hálfu stjórnarliðsins að segja í sundur þennan faglega frið sem hefur ríkt við þingstörfin. Ég harma það að hann skuli beita sér með þessum hætti. Ég tel í rauninni að það sé mjög alvarlegur hlutur og ég hlýt í framhaldi af orðum hans hér áðan að óska eftir því sem þingmaður að formenn þingflokkanna og forsn. Alþingis fjalli um þessi sérstöku vinnubrögð. Vegna þess að ég spyr: Er ætlunin að halda þeim áfram á öðrum vettvangi? Er ætlast til þess af þingmönnum stjórnarandstöðunnar að þeir haldi málum fram með þessum hætti í öðrum nefndum eða hvað? Er ætlunin að innleiða hér á Alþingi Íslendinga kratavinnubrögðin úr bæjarstjórn Hafnarfjarðar sem voru svipuð vinnubrögðum íhaldsins í borgarstjórn Reykjavíkur sem voru reynd hér á Alþingi og brotin á bak aftur fyrir tveimur árum? Ég er sannfærður um að Alþingi Íslendinga kærir sig ekki um það að láta skammta sér vinnubrögð kratanna í Hafnarfirði eins og hér var gert í morgun. Þess vegna er óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að forusta þingsins sýni að í henni sé einhver manndómur og dugur og hún taki fram fyrir hendurnar á mönnum sem vinna með þeim hætti sem meiri hluti allshn. gerði í morgun.