Dragnótaveiðar

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:35:50 (4208)


[17:35]
     Petrína Baldursdóttir :
    Virðulegi forseti. Reglulega er vakin upp umræða um dragnótaveiðar og venjulega er umræðan neikvæð og um skaðsemi dragnótaveiða á lífríki sjávar. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Sturla Böðvarsson sem hér beinir fsp. til sjútvrh. vilji beita sér fyrir því að takmarka dragnótaveiðar í Faxaflóa.
    Staðreyndin í umræðu um dragnótaveiðar er sú að mjög erfitt hefur verið að rökstyðja þá fullyrðingu að t.d. dragnótin drepi smáfisk í miklum mæli. Svo framarlega sem menn nota veiðarfæri með lögbundinni möskvastærð gerist það ekki. Dragnótin er dregin mun hægar en t.d. botnvarpa og athuganir Hafrannsóknastofnunar hafa leitt í ljós að bolfiskur sleppur betur í gegnum möskva dragnótar en botnvörpu með sömu möskvastærð.
    Niðurstaða úr togararalli Hafrannsóknastofnunar frá maí sl. sýnir að Faxaflói kemur einna best út hvað ýsu varðar og það þrátt fyrir það að þar hafi verið stundaðar dragnótaveiðar sl. 15 ár.
    Að mínu mati liggja enn engin haldbær rök til þess að takmarka eða banna dragnótaveiðar í Faxaflóa eða á öðrum svæðum.