Barnaklám

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:50:16 (4215)


[17:50]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Eins og fram kom í tilvitnuðum umræðum hv. fyrirspyrjanda þá hefur dómsmrn. fylgst með réttarþróun á þessu sviði, einkanlega á Norðurlöndunum. Enn þá liggur ekki fyrir endanleg greinargerð um þau efni en niðurstaða ráðuneytisins er eigi að síður sú í ljósi þeirra athugana sem gerðar hafa verið að ákveðið hefur verið að semja lagafrv. um þetta efni.
    Það eru, eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, fyrirliggjandi ályktanir frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, frá Evrópuráðinu og frá Norðurlandaráði þar sem skorað er á viðkomandi aðildarríki að gera vörslu á barnaklámi refsiverða.

    Á Norðurlöndunum hefur þessi réttarþróun verið að eiga sér stað. Norðmenn, eins og hér hefur komið fram, hafa þegar lögfest þetta í löggjöf sinni. Sænska þingið ákvað að gera það refsivert að hafa barnaklám með höndum. Það kemur til framkvæmda á árinu 1999 vegna þess að Svíar þurfa að gera breytingar á stjórnarskrá áður en það getur orðið refsiverður verknaður. Í Danmörku var lagt fram frv. í nóvemberbyrjun eins og fram kom hjá hv. þm. um þetta efni.
    Að öllu þessu athuguðu þótti ráðuneytinu það vera rétt að hefjast nú þegar handa við að láta semja frv. um þetta efni. Þar þarf vitaskulda að taka mið af þeirri reynslu sem fram hefur komið og ákveða þær skilgreiningar sem þurfa að gilda þegar mat verður lagt á refsiverðan verknað í þessu falli.
    En svarið við spurningunni er að þessi vinna er að hefjast og ákvörðun liggur fyrir þar um.