Ferðaþjónusta

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:17:06 (4228)


[18:17]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir var óánægð yfir því að samgrn. skyldi vinna með Flugleiðum að markaðsstarfi erlendis. Það er ekki tilfellið ef við horfum t.d. til þeirra samninga sem við höfum gert bæði við Grænlendinga og Færeyinga að þeir telji það af hinu illa að nýta sér þá miklu möguleika sem net Flugleiða opnar. Var m.a. sérstaklega beðið um það í för minni í Færeyjum nú á dögunum þegar við vorum að undirbúa sérstakan samning milli Íslendinga og Færeyinga um samvinnu á sviði ferðamála að Flugleiðir kæmu að því máli sem var talinn grundvöllur að því að sá samningur gæti nýst eins og báðar þjóðirnar vilja.
    Það hefur staðið öllum opið, hv. þm., að leggja fram fé á móti til markaðsöflunar erlendis. Það stóð öllum opið og stendur öllum opið. Hver og einn er velkominn sem kýs að gera það en það er rétt að Flugleiðir hafa talið það sína hagsmuni og hafa haft bolmagn til að leggja verulegt fé fram og það hafa þeir gert. Mér er mikil ánægja að fara yfir þau mál hér á hinu háa Alþingi hvernig þessum peningum var varið ef sérstaklega verður eftir því leitað í fyrirspurnatíma sem ekki er tilfellið nú því þessar fyrirspurnir vita að öðrum hlutum.
    Um áform ríkisstjórnarinnar til framtíðar vil ég aðeins segja að ég tel nauðsynlegt að við Íslendingar reynum að leita allra færa til þess að greiða fyrir sem mestu frelsi á sviði samgöngumála og ferðamála enda hefur reynslan sýnt að það ber ríkulegan ávöxt að vinna með þeim hætti.