Vegtenging milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:34:30 (4234)


[18:34]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Vegagerðin svarar þessu svo:
    ,,Síðla árs 1993 var gerð eftirfarandi samþykkt í bæjarstjórn Siglufjarðar:
    Bæjarstjórn Siglufjarðar beinir því til samgrh. og þingmanna Norðurl. v. og Norðurl. e. að skipaður verði vinnuhópur sem kanni möguleika á endurbyggingu vegarins yfir Lágheiði með það fyrir augum að hann verði heilsársvegur.
    Önnur sveitarfélög í nágrannabyggðum tóku undir þessa samþykkt og sendu sams konar ósk til samgrh. sem beitti sér í framhaldi af því fyrir fundi með þingmönnum svæðisins snemma á árinu 1994. Á þeim fundi var samþykkt að taka undir ósk sveitarfélaganna og fela Vegagerðinni að gangast fyrir myndun vinnuhóps og veita henni forstöðu.
    Þann 29. ágúst sl. skipaði vegamálastjóri síðan samráðshóp um endurbyggingu vegar um Lágheiði. Markmiðið með starfi hópsins er að mynda vettvang fyrir skoðanaskipti og samráð um lagningu vegar um Lágheiði og málefni sem tengjast því verkefni. Vegagerðinni er síðan ætlað að bera ábyrgð á endanlegum tillögum með venjubundnum hætti.``
    Eins og fram kemur er hér fyrst og fremst horft til endurbyggingar vegar um Lágheiði þannig að heilsárssambandi megi koma á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Í bréfi vegamálastjóra til allshn. Alþingis dags. 20. apríl 1990 kom fram að möguleikar á gerð jarðganga munu verða skoðaðir áður en endanleg ákvörðun um gerð vega verður tekin. Samanburður á þeim tveimur kostum sem nefndir eru í fyrirspurninni mun m.a. byggjast á athugunum sem ýmist eru hafnar eða eru fyrirhugaðar í náinni framtíð.
    Þannig hófust athuganir á snjóalögum á Lágheiði nú í haust með niðursetningu snjóstika sem lesið verður af reglulega nú í vetur og næstu vetur. Þá er hafinn undirbúningur að frumathugunum og jarðfræðilegum aðstæðum til jarðgangagerðar sem fram munu fara næsta sumar. Einnig er í undirbúningi að gera umferðarkannanir á svæðinu nú í sumar til að unnt verði að gera raunhæfa umferðarspá. Þegar hafa verið teiknuð grunnkort að vegsvæði frá Ólafsfirði um Lágheiði að Ketilási og fyrstu hugmyndir að veglínum settar á þau kort. Allt eru þetta atriði sem þarf að kanna til að unnt verði að bæta nauðsynlegar forsendur útreikninga við samanburð á vegtengingum milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar með jarðgöngum um Héðinsfjörð og gerð heilsársvegar um Lágheiði. Þessi vinna er hafin.
    Ég vil svo segja persónulega að mér er kunnugt um hinn mikla áhuga sem hv. þm. Sverrir Sveinsson hefur fyrir jarðgöngum milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Ég álít að þær hugmyndir séu mjög athyglisverðar vegna þeirrar þýðingar sem það hefur fyrir þéttbýliskjarnana við Eyjafjörð að hægt sé að draga sem mest úr fjarlægðum og helst gera allt þetta svæði að einu atvinnusvæði. Það getur skipt sköpum um framtíðaruppbyggingu Siglufjarðar að slík þróun geti orðið í sambandi við uppbyggingu atvinnufyrirtækja þar og í sambandi við samvinnu fiskvinnslufyrirtækja á Siglufirði og annars staðar við Eyjafjörð. Ég tel af þeim sökum að þetta mál sé eitthvert hið mikilverðasta í sambandi við byggðamál á Norðurlandi í heild sinni og vil eftir því sem í mínu valdi stendur flýta fyrir því að þessi athugun geti orðið og reyna að greiða fyrir því að gott vegasamband verði milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Það er talið ef ég man rétt að uppbygging vegar um Lágheiði kosti um 600 millj. kr. og skiptist nokkuð jafnt milli kjördæma en ég hef ekki í huga þær fjárhæðir sem verið er að tala um í sambandi við jarðgöng, gæti trúað að það væri einhvers staðar í kringum 1,5 milljarða eða svo, en hv. þm. man það kannski betur en ég.