Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 20:31:05 (4273)


[16:33]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég byrja á því að óska eftir því að hæstv. umhvrh. og frsm. nefndar verði viðstödd umræðuna meðan ég flyt mál mitt í þingsal og vil ekki hefja það fyrr en þau eru komin á vettvang.
    ( Forseti (VS) : Forseti hefur gert ráðstafanir þannig að það er vonandi að hæstv. umhvrh. og hv. þm. Petrína Baldursdóttir komi innan tíðar.)
    Virðulegur forseti. Ég doka við vegna þess að frsm. meiri hluta umhvn. er ekki viðstaddur. Það virðist lágmark að óska eftir því að ráðherra og frsm. meiri hluta nefndar séu

í sal og er furðulegt að það skuli þurfa að ganga eftir því (Gripið fram í.) --- ekki í þingsal. Ég óska eftir því að hann sé í þingsal. Ég vil, virðulegur forseti, til að þurfa ekki að vera að endurtaka slíkar óskir koma því hreint á framfæri við hæstv. ráðherra og frsm. meiri hlutans að það er ósk mín að þau verði í þingsal á meðan ég flyt mál mitt og trúi ekki öðru en ekki þurfi að ganga eftir því frekar.
    Það frv. sem við ræðum hér um breytingu á lögum um náttúruvernd á sér býsna langan aðdraganda og sögu sem nauðsynlegt er að fara aðeins yfir í upphafi vegna þess að hún er lærdómsrík en afar sérkennileg og ekki til fyrirmyndar. Það er líka rétt, virðulegur forseti, að víkja í inngangi að stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum sem bar heitið ,,Á leið til sjálfbærrar þróunar`` þegar hún var kynnt og var lýst sem stefnu og framkvæmdum ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. í umhverfismálum. Við skyldum ætla að þessi stefnumótun sé væntanlega grundvöllurinn undir það sem hæstv. ríkisstjórn tekur sér fyrir hendur í þessum málaflokki en því miður rímar ekki allt saman á milli þeirrar stefnu og þess sem borið er fram af hæstv. umhvrh. og raunar fleirum í þessum málaflokki. Það er ekki hægt, virðulegur forseti, að taka undir það sem sagt er í flokksmálgagni hæstv. umhvrh. þegar fjallað er um þetta frv. að hér sé á ferðinni róttæk uppstokkun á náttúruvernd, a.m.k. ekki í jákvæðum skilningi. En það var fyrirsögn og frásögn af þessu frv. 11. nóv. sl., daginn eftir að mælt var fyrir frv. sem liggur hér fyrir öðru sinni í þinginu. Þar standa þau tíðindi í undirfyrirsögn að vald Náttúruverndarráðs sé fært undir þingið. Það er skilningur Alþýðublaðsins á inntaki í þessum málaflokki að vald Náttúruverndarráðs sé fært undir ríkið eins og það hafi ekki verið háð ríkisvaldinu til þessa. Ekki er von að annað gangi eftir ef skilningurinn er ekki meiri en þetta á því sem hér er á ferðinni og hverju menn ætla að breyta í þessum málaflokki.
    Það hefur ekki skort á stór orð af hálfu hæstv. umhvrh. yfir eigin verkum. Hann hefur verið einkar duglegur við að halda þeim fram og þakka sér bæði það sem hann sjálfur telur sig hafa lagt til mála í þessum málaflokki sem heyra undir ráðuneytið en ekki síður að skreyta sig með fjöðrum sem eru fengnar að láni frá öðrum og þar sem aðrir hafa unnið að málum.
    Það frv. sem við ræðum í dag í 2. umr. sker sig ekki úr að því leyti miðað við þau frumvörp sem hæstv. umhvrh. hefur lagt fyrir þingið á undanförnum árum að það er afskaplega flausturslega og illa unnið mál eins og það kemur fyrir þingið. Það endurspeglast í breytingartillögum við þetta frv. sem er að finna á þskj. sem eru margar og snerta margar greinar þessa frv. ráðherrans. --- Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að ráðherrar haldi ekki uppi samtölum í þingsalnum, (Gripið fram í.) ráðherra og fyrrverandi ráðherrar. Já, það sakar ekki að geta þess því að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson vermir ekki ráðherrstól lengur. En það hefur verið markið á hverjum lagabálkinum af öðrum sem við höfum fengið frá ráðuneytinu á undanförnum árum að mikið hefur skort á að þau væru þannig unnin að þau væru í raun frambærileg fyrir Alþingi. Það er því góð nýbreytni sem er tekin upp í nefndaráliti meiri hlutans með þessu frv. að endurprenta væntanlega lagasetningu í heild sinni með þeim breytingum sem fram koma og hefði raunar þurft að gera það varðandi mörg önnur frumvörp sem umhvn. hefur fjallað um á liðnum árum og þurft að gera gífurlega miklar breytingar á þannig að í rauninni er um ný mál að ræða þegar þau koma fyrir þingið.
    Ég er að mæla þetta, virðulegi forseti, vegna þess að sú lagasetning sem hefur verið gerð á undanförnum árum á grundvelli þess sem frá umhvrn. hefur komið er í rauninni ný lagasetning ef borin eru saman þau frumvörp sem fyrir Alþingi hafa verið lögð og þær tillögur sem umhvn. hefur síðan lagt fyrir þingið og fengið samþykkt sem lög. Það nægir að nefna mál eins og um upplýsingaskyldu stjórnvalda, frv. um mat á umhverfisáhrifum, frv. um friðun, verndun og veiðar á villtum dýrum og frv. um dýravernd. Þessir stóru lagabálkar fengu mikla og vandaða umfjöllun í umhvn. og þar tókst um þau gott samkomulag að þau náðu fram að ganga að lokum á Alþingi. Ég held að ástæða hefði verið fyrir hæstv. umhvrh. að gefa gaum að þessari reynslu með það frv. sem hér um ræðir, að reyna að laða saman sjónarmið og fá samstöðu í þessum mjög svo mikilvæga málaflokki til þess að einhver von væri til þess að lög sem áformað er að setja eða breyting á lögum um náttúruvernd nái fram að ganga og fái staðist til einhverrar frambúðar. Þannig er ekki að verki staðið í þessu tilviki heldur þvert á móti. Það er lítið sem ekkert gert í því að hlýða á ábendingar sem komnar eru frá fjölmörgum umsagnaraðilum um þetta mál á tveimur þingum og hvað þá að tekið sé tillit til sjónarmiða og tillagna sem eru komin frá stjórnarandstöðuþingmönnum í umhvn. og raunar á undirbúningsstigi málsins sem búið er að vera á dagskrá frá því haustið 1993 í núverandi formi.
    Það kann ekki lukku að stýra þegar þannig er unnið þegar þetta er hugarfarið í málaflokki sem á ekki að þurfa að vera stórt pólitískt ágreiningsefni og a.m.k. að eðlilegt væri að reynt væri að laða saman sjónarmið og byggja á fenginni reynslu m.a. þeirra sem hafa lengi unnið að þessum málum. Það á að sjálfsögðu við um Náttúruverndarráð og þá sem unnið hafa að þeim málum fyrr og síðar og ég leyfi mér að nefna í því sambandi sem dæmi þá vönduðu umsögn sem er komin frá stjórn Ferðafélags íslands um þetta mál þar sem nú er forseti Páll Sigurðsson, lögfræðingur og prófessor í lögum við Háskóla Íslands og maður sem hefur setið í Náttúruverndarráði að mig minnir um 6 ára skeið. Hann hefur í umsögn sinni og málflutningi fyrir umhvn. Alþingis borið fram fjölmörg veigamikil rök fyrir því að frv. þurfi slíkra grundvallarbreytinga við að vart verði upp á það lappað á núverandi grunni. Þetta eru ekki orð forseta Ferðafélagsins sem ég hef hér yfir en efnislega mat ég að það væri inntakið í hans máli og umsögn stjórnar Ferðafélagsins talar fyrir sig. Svo er um ýmsa fleiri sem veitt hafa umsögn um frv.
    Hæstv. ráðherra hefur lagt á það mikla áherslu að knýja þetta mál hér fram í ósamkomulagi við minni hluta umhvn. og ég leyfi mér að fullyrða, með hangandi stuðningi ýmissa þeirra sem skrifa þó undir álit meiri hluta nefndarinnar. Þetta er mjög alvarlegt mál, það ber að harma vinnubrögð af þessum toga og það eru síst of veik orð sem um það eru höfð í áliti minni hluta nefndarinnar sem ég stend m.a. að.
    Það er mjög sérkennilegt að hæstv. umhvrh. skuli leggja það ofurkapp á að fá þetta frv. lögfest með ágreiningi og hafa valið úr verulega stóru safni mála, sem hafa verið á undirbúningsstigi og hefði þurft að þoka fram að mínu mati áður en þetta mál kom til afgreiðslu hér í þinginu og þar er ég m.a. að vísa til frv. til skipulags- og byggingarlaga sem flutt var á fyrri þingum. Ég man ekki, virðulegur forseti, hvort það var einu sinni eða tvisvar, ég vil þó halda að það hafi verið tvívegis á yfirstandandi kjörtímabili, en hæstv. umhvrh. sá ekki ástæðu til þess að leggja þessa þýðingarmiklu löggjöf fram til endurskoðunar í frumvarpsformi á liðnu hausti og kann ég engar skýringar á því hvað réði því vali. Í rauninni er með skipulagslöggjöfinni, þar sem sameinuð eru skipulags- og byggingarlög í þeim frv. sem fyrir þingið voru lögð á þessu kjörtímabili, að finna ákveðinn grundvöll sem gott væri að væri lagður áður en löggjöfin um náttúruvernd kæmi til endurskoðunar. Og ég tel að það sé í rauninni afar brýnt að fá fram endurskoðun í þeim lagabálki, m.a. með tilliti til þeirrar löggjafar sem sett var á síðasta þingi varðandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sem varða á margan hátt skipulagsmálin. Það ber því að mínu mati að harma að hæstv. ráðherra skuli hafa lagt þetta mat sem birtist í þeirri forgangsröð sem hann leggur með flutningi þessa máls öðru sinni og öðru atfylgi í sambandi við málið.
    Ég vil, virðulegur forseti, víkja nokkuð að málafylgju annars ráðherra Alþfl. sem fór með þessi mál á undan núv. hæstv. umhvrh., þ.e. af fyrrv. ráðherra, Eiði Guðnasyni, en hann tók við umhvrn. við myndun núv. ríkisstjórnar 1991. Hann hafði allt önnur málstök uppi í sambandi við undirbúning máls heldur en núv. hæstv. ráðherra. Hann setti fljótlega á laggirnar nefnd, mig minnir það vera í ársbyrjun 1992, til að endurskoða lög um náttúruvernd. Og eins og upphafinu í starfi þeirrar nefndar var háttað þá skildi ég það svo að hugmyndin væri að endurskoða náttúruverndarlöggjöfina í heild sinni. Og hvaða aðferð valdi þessi fyrrverandi ráðherra Alþfl. í þessu máli? Hann óskaði eftir því við þingflokka að þeir tilnefndu hver fyrir sig fulltrúa í þessa nefnd og skipaði jafnframt tvo menn, formann og varaformann, af hálfu ráðuneytis síns. Þessi nefnd, sem starfaði í rösklega eitt ár, á árunum 1992--1993, lagði sig fram um það að endurskoða og safna saman efni er varðaði endurskoðun laga um náttúruvernd. Ég átti sæti í þessari stjórnskipuðu nefnd af

hálfu þingflokks Alþb. Þar voru fulltrúar annarra þingflokka, ýmist þingmenn eða fólk utan þings, tilnefnt af sínum þingflokkum. Ég fullyrði að af hálfu okkar sem sátum í þessari stjórnskipuðu nefnd var ríkur vilji til að ná saman um endurskoðun á lögum um náttúruvernd. Það má eitt og annað finna að starfi nefndarinnar og forustu ráðuneytisins um störf hennar á þessu tímabili, en ég fullyrði að það skorti ekki vilja af hálfu þeirra sem þar voru starfandi og tilnefndir af þingflokkum til að vinna það verk vel og hraða því eftir því sem ráðuneytið óskaði og það var ekki á ábyrgð fulltrúa þingflokkanna að störf gengu ekki hraðar í þessari nefnd en raun bar vitni.
    Það hafði verið safnað miklu af gögnum á vegum þessarar nefndar. Það hafði verið rætt við fjölmarga aðila um endurskoðun laganna og menn höfðu borið sig saman og dregið að upplýsingar, m.a. erlendis frá. Mér sýnist hins vegar að um leið og núv. hæstv. umhvrh. lét það verða eitt sitt fyrsta verk að leggja þessa nefnd niður með ráðherrabréfi þá hafi lítið verið gert í því að nýta þær upplýsingar og þau sjónarmið sem lágu fyrir bókuð í gögnum þessarar stjórnskipuðu nefndar. Ég gerði athugasemd við málafylgju hæstv. núv. umhvrh. haustið 1993 eftir að borist hafði bréf varðandi málið frá ráðuneytinu og þessi mál voru þá rædd hér á Alþingi Íslendinga.
    Ég rifja þetta hér upp, virðulegur forseti, vegna þess að þetta sýnir ótrúlega skammsýni að mínu mati í sambandi við það hvernig á að nálgast málaflokk af þessu tagi því ráðherrann brá á það ráð þegar haldið var áfram vinnu og undirbúningi að því máli sem við ræðum hér að loka endurskoðun laganna inni í eigin ráðuneyti og fela það einvörðungu embættismönnum á vegum ráðuneytisins að sinna endurskoðun laganna. Það er einmitt þetta sem hefur leitt til þeirrar niðurstöðu sem blasir við í núv. frv. að það hefur ekki verið lögð rækt við það að hlusta á ráð og raddir utan úr samfélaginu í sambandi við endurskoðun laganna og að reyna að stilla saman strengi, m.a. frá stjórnmálaflokkunum sem eiga fulltrúa á Alþingi, í sambandi við væntanlega lagasetningu.
    Ég efast um, virðulegur forseti, að það frv. sem hér liggur fyrir leiði til lagasetningar hér á Alþingi eins og allt er í pottinn búið. Ég efast um það. Við í minni hluta nefndarinnar höfum eindregið lagt það til að máli þessu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Og verði okkar tillaga niðurstaðan hér á Alþingi þá vona ég sannarlega að þeir sem við taka við það nauðsynjaverk að endurskoða lög um náttúruvernd í heild sinni reyni að læra af þeirri dapurlegu reynslu sem hér liggur fyrir af málafylgju núv. hæstv. ráðherra.
    Ég ætla ekki að lesa upp úr gögnum sem varða starf þeirrar stjórnskipuðu nefndar sem ég átti sæti í, en þar liggur fyrir mikið efni sem er að sjálfsögðu aðgengilegt fyrir þá sem vilja kynna sér það og væntanlega getur það nýst við frekari athugun þessara mála þegar nýr aðili verður tekinn þar við forustu, sem væntanlega verður að kosningum loknum.
    Eftir að hæstv. ráðherra hafði tekið þetta mál, endurskoðun laga um náttúruvernd, úr höndum umræddrar nefndar þá hugðist hann hafa skjót handtök og reiða fram tillögur um endurskoðun laganna, sérstaklega að því er varðaði stjórnsýsluþáttinn. Það var glaður og reifur maður sem birtist á náttúruverndarþingi, hinu áttunda, í október 1993 og kynnti þar þingheimi hugmyndir sínar á sviði náttúruverndarmála, m.a. varðandi endurskoðun laga um náttúruvernd. Málafylgja hæstv. umhvrh. þá í byrjun ferils síns bar vissulega einkenni þess sem hefur verið markið á hans stjórnarathöfnum mjög mörgum, þó ég vilji engan veginn alhæfa í þeim efnum, að þar hefur gætt talsvert mikils fljótræðis og einkennt málafylgjuna að vilja koma sinni stefnu fram skjótt án þess að taka mikið tillit til þess hvað aðrir hafa að segja í þessum efnum.
    Í ræðu sinni á náttúruverndarþingi vék hæstv. ráðherra að þessum málum með svofelldum orðum, með leyfi forseta. Hann sagði m.a. þetta í ræðu sinni:
    ,,Breytt viðhorf til umhverfismála, stofnun umhvrn., aukið vægi þeirra stofnana sem starfa á sviði umhverfismála innan stjórnsýslunnar og ný löggjöf kalla á endurskoðun laganna um náttúruvernd frá 1971. Liður í slíkri endurskoðun er ný stefnumörkun í náttúruverndarmálum í ljósi breyttra viðhorfa. Hér fyrir þinginu liggur tillaga Náttúruverndarráðs að nýrri stefnu og fylgir henni ítarleg greinargerð. Greinargerðin fjallar um flest svið náttúruverndar og þar eru skilgreind þau vandamál sem við er að glíma og fram settar hugmyndir um aðgerðir til úrlausnar. Þetta er vel unnið verk sem ætti að auðvelda þinginu að móta stefnu í þessum málum. Ég er að flestu leyti sáttur við þá stefnumörkun sem þar er sett fram, en eins og ég mun koma að hér á eftir þá geri ég fyrirvara um nokkur mikilvæg atriði.``
    Þetta er dálítið merkilega að orði kveðið ef borin er saman sú stefna sem Náttúruverndarráð lagði fyrir þingið og er í þessari gulu bók hér sem heitir Stefna í náttúruvernd, gefin út í september 1993. Þar er að finna tillögur þess Náttúruverndarráðs sem var að skila af sér störfum á þessu áttunda náttúruverndarþingi haustið 1993 og þar er uppi allt annað en það sem ráðherrann hugðist knýja fram sem sinn vilja og fá samþykktan á þessu þingi, þó hann orði það svo í ræðu sinni að hann sé að flestu leyti sáttur við þá stefnumörkun þó hann gerði fyrirvara.
    Það væri þess virði, virðulegur forseti, að fara yfir stefnumörkun Náttúruverndarráðs eins og hún var lögð fyrir að því er snertir endurskoðun laganna. Ég vil ekki gera það í ítarlegu máli en vísa til þess sem er að finna í þessum tillögum, svo og ýmsar athugasemdir sem komu fram af minni hálfu skriflega við þessar hugmyndir og frá Hinu íslenska náttúruverndarfélagi, sem lagði fyrir þingið athugasemdir ásamt ýmsum fleiri aðilum.
    Í stefnumörkuninni er í tölul. 9. fjallað um skipan náttúruverndarmála og verksvið Náttúruverndarráðs. Ég leyfi mér tilvitnun, með leyfi forseta, í upphafið á þessum kafla:
    ,,Náttúruverndarráð starfar eftir lögum sem að stofni til eru frá 1971, en með tilkomu umhvrn. 1990 verður breyting sem gefur tilefni til að verksvið Náttúruverndarráðs og stefna í náttúruverndarmálum almennt sé endurskoðuð. Verkaskipting milli umhvrn. og Náttúruverndarráðs þarf að vera sem skýrust. Æskilegt er að Náttúruverndarráð fjalli einungis um náttúruverndarmál.`` Þar er talið upp: ,,Skráningu náttúruminja, skipulag vegna náttúruverndar, vernd landslags, vernd jarðmyndana, vernd lífverutegunda og lífríkis, vernd svæða, rekstur friðlýstra svæða, náttúruverndarstaðla, fræðslu, aðgang almennings að náttúru landsins. Mál sem ekki ættu að heyra undir Náttúruverndarráð eru t.d. almenn starfsleyfi og mengun. Almenn skipulagsmál í dreifbýli og óbyggðum verði skilin frá náttúruvernd. Gengið er út frá því að starfsemi umhvrn. felist einkum í því að hafa yfirumsjón með og samræma starfsemi stofnana þeirra er annast þjónustu, rannsóknir og eftirlit í umhverfismálum og úrskurða í vafamálum og ágreiningsmálum. Enn fremur að ráðuneytið samræmi umhverfisstefnu annarra ráðuneyta og opinberra aðila og hafi umsjón með alþjóðasamstarfi.``
    Þetta er upphafið á þessum tillögum sem fyrir náttúruverndarþingið voru lagðar. Þar er einnig að finna útfærðar tillögur varðandi náttúruverndarþing sem fela ekki í sér stórfelldar breytingar. Þar segir, með leyfi forseta, að verkefni náttúruverndarþings verði:
    Að vera fagleg ráðstefna um náttúruvernd og fjalla hverju sinni um afmörkuð svið náttúruverndarmála.
    Að koma ábendingum til Náttúruverndarráðs.
    Að álykta um náttúruverndarmál.
    Að tilnefna á fjögurra ára fresti tvo menn af fimm í fjórar fastanefndir Náttúruverndarráðs.
    Síðan eru tillögur Náttúruverndarráðs á þessum tíma um skipan ráðsins að þar var gert ráð fyrir því að náttúruverndarþing kysi sex ráðsmenn og sex varamenn óbundinni kosningu en ráðherra skipi formann og varaformann. Það eru færð rök fyrir þessari tillögu í nokkru máli. Þar segir m.a. um núverandi skipulag:     ,,Helstu kostir núverandi skipulags eru þessir: Áhugasamir náttúruverndarmenn geta boðið sig fram til starfa í Náttúruverndarráði. Heppilegt er að hafa sjálfstæða náttúruverndarstefnu vegna þess að náttúruvernd gengur oft þvert á hagsmuni sem stjórnmálamenn eru hlynntir. Ákvarðanaferillinn er alllangur og flókinn sem ætti að stuðla að betri ákvörðunum. Oftast er sæmilega auðvelt að ná samstöðu milli ólíkra sjónarmiða. Augljós ókostur er hins vegar að ekki er nægilega tryggt að sérfræðiþekking á ýmsum sviðum sé innan ráðsins.``
    Það var í ljósi þessa sem Náttúruverndarráð lagði til að ráðið yrði skipað af ráðherra til fjögurra ára og í því eigi sæti sjö menn þar af formenn fastanefnda ráðsins, tveir fulltrúar kosnir af náttúruverndarþingi og formaður skipaður án tilnefningar. Varamenn með hliðstæðum hætti. Þessar hugmyndir Náttúruverndarráðs voru meðal þess sem var til athugunar í þeirri stjórnskipuðu nefnd sem ráðherrann hafði afmunstrað nokkru fyrir þingið. Var það eitt fyrsta verkefni hans á hans valdaskeiði. Ég vil ekki fullyrða að þessar tillögur í óbreyttu formi væru þess eðlis að rétt væri að taka þær upp til lögfestingar, en eins og menn sjá af þessu er þarna ekki um neina stórfellda breytingu á núverandi skipan að ræða samkvæmt þessum hugmyndum að öðru leyti en því að hugmyndin var að laða inn í Náttúruverndarráð sem mest af faglegri þekkingu og tryggja þar faglega umfjöllun mála.
    Tillögur Náttúruverndarráðs, eins og þær birtust á þinginu, voru einnig í þá átt að skilja betur á milli ráðsins og skrifstofu þess þannig að það væru ljósari stjórnsýslumörk þar á milli, annars vegar ráðsins sem stefnumótandi aðila og ákvarðandi aðila í mörgum málum lögum samkvæmt, en hins vegar skrifstofunnar sem sæi um daglega vinnu og dagleg störf undir framkvæmdastjóra. Ég held að þær ábendingar hafi fyllilega átt rétt á sér og vísi einmitt til þess sem þyrfti að gera í þessum efnum í stað þeirra breytinga sem verið er að leggja til í þessu frv. með því að setja á fót nýja stofnun, nýja ríkisstofnun, og viðhalda Náttúruverndarráði í raun valdalausu og félitlu eins og gert er ráð fyrir samkvæmt tillögum frv.
    Nú bregður svo við, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra er farinn úr sal, kemur hér aftur, en framsögumaður meiri hluta umhvn. er á braut og verð ég nú að gera hlé á máli mínu á meðan úr rætist. Ég óska, virðulegur forseti, eftir því að framsögumaður nefndar, og ætti ekki að þurfa að ganga eftir því, sé viðstaddur umræðuna.
    ( Forseti (GunnS) : Forseti mun nú kanna hvernig aðstæðum framsögumanns hv. umhvn. er háttað.)
    Í máli sínu og tillögugerð á náttúruverndarþingi, þar sem hæstv. ráðherra kynnti sína stefnu, lagði hann fram hugmyndir sem að nokkru leyti ganga eftir í því frv. sem hér er til umræðu. Ég tel rétt að fá leyfi forseta til að vitna hér til máls ráðherrans á náttúruverndarþingi um þetta efni, en þar sagði hann m.a.:
    ,,Ég mun nú fjalla almennt um nokkur atriði í tillögu Náttúruverndarráðs um stefnu í náttúruverndarmálum og nefna dæmi sem sýna að ráðuneytið hefur nú þegar tekið á sumum þeim vandamálum sem upp eru talin og jafnframt mun ég nefna einstök mál sem ég hyggst beita mér sérstaklega fyrir á næstunni endist mér tími til þess í ráðherrastól.
    Ég er sammála því að ný lög um náttúruvernd eigi að byggjast á lögunum frá 1971 sem hafa að mörgu leyti reynst vel. Að minni hyggju er þó brýnast að endurskoða stjórnunarþátt laganna. Í umhvrn. er nú unnið að tillögum um breytt stjórnkerfi náttúruverndarmála. Tillögurnar eru ekki fullfrágengnar en ég mun eigi að síður leggja þær fyrir þetta þing til umfjöllunar og vonast til að fá hér faglega umræðu um þær.``
    Þetta er ræða sem er flutt í byrjun þingsins sem stóð í tvo daga að morgni og í lok þingsins reyndi ráðherra með aðstoð fulltrúa sinna á þinginu að knýja fram samþykkt á þeirri stefnu sem hann var að kynna þarna í fyrsta sinn á þessum vettvangi. Nú kemur aftur tilvitnun í ræðu ráðherrans, með leyfi forseta:
    ,,Markmið þessara tillagna eru: Í fyrsta lagi að laga stjórnun þessa málaflokks að stofnun umhvrn. Í öðru lagi að styrkja stefnumótun um friðlýsingar og framkvæmd friðlýsinga. Í þriðja lagi að skapa grundvöll fyrir sjálfstætt og virkt Náttúruverndarráð. Í fjórða lagi að skilja ríkisrekstur frá annarri starfsemi Náttúruverndarráðs, ekki síst til að tryggja sjálfstæði þess gagnvart Stjórnarráðinu. Í fimmta lagi að samræma verksvið ráðuneytis og stofnana þess. Í sjötta lagi að samræma lög um náttúruvernd nýjum lögum um umhverfismat, lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og löggjöf á sviði mengunarvarna.``
    Síðar í ræðu sinni vék ráðherrann að þessu með svofelldum hætti, með leyfi forseta:
    ,,Fyrr í ræðu minni minntist ég á endurskoðun stjórnunarþáttar náttúruverndarlaganna. Kjarninn í þeim tillögum sem nú eru til umræðu í ráðuneytinu`` --- takið eftir til umræðu í ráðuneytinu --- ,,hníga í þá átt að skipta þeim verkefnum ríkisins sem Náttúruverndarráð hefur nú með höndum á umhvrn. og stofnanir þess en skapa nýjan grundvöll fyrir sjálfstætt Náttúruverndarráð óháð valdboði umhvrh.`` --- Þetta valdboð umhvrh. er feitletrað í þeirri ræðu sem ráðherrann dreifði á þinginu og þannig lögð á það sérstaklega þung áhersla. Það er kannski vert, virðulegur forseti, að hafa það í huga ef hér kemst á dagskrá til umræðu 3. dagskrármál þessa fundar, um sérstaka athugun á embættisfærslu hæstv. ráðherra, því hann hefur greinilega haft vel bak við eyrað það sem lýtur að ráðherravaldinu. Nú er framhald á tilvitnun: ,, . . .  óháð valdboði umhvrh. sem á að geta veitt stjórnvöldum hiklaust og óvægið aðhald ef svo ber undir.`` Þ.e. Náttúruverndarráð. ,,Eftir stofnun umhvrn. er eðlilegt að það hafi sjálft yfirumsjón með stefnumótun í náttúruverndarmálum og taki við þeim stjórnvaldsaðgerðum sem Náttúruverndarráð hefur í dag. Reglugerðir, leyfisveitingar, undanþágur og ýmiss konar erindi eiga heima í umhvrn. sem er æðsta stjórnvald á sínu sviði. Á sínum tíma, löngu fyrir daga umhvrn., var Náttúruverndarráði falið að sinna vissu ráðuneytishlutverki, en ástæðan fyrir því er sögulegs eðlis. Þetta var á miklum umbrotatímum í kjölfar umhverfisráðstefnunnar sem haldin var í Stokkhólmi 1972 og á þeim tíma treysti náttúruverndarfólk ekki menntmrn. til að framfylgja nýjum hugmyndum. Nú eru breyttir tímar, sérstakt umhvrn. er orðið að veruleika og gildar ástæður til að endurskoða þetta fyrirkomulag sem þó var vissulega gott á sínum tíma.``
    Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að gera nokkrar athugasemdir varðandi þennan kafla úr ræðu hæstv. umhvrh. á náttúruverndarþingi. Ég spyr samt áður, virðulegur forseti, hvað dvelur framsögumann meiri hluta umhvn. sem flutti okkur mál sitt í þrjár til fjórar mínútur við upphaf þessarar umræðu og ætlar vafalítið að bæta um betur þótt síðar verði. Hvað dvelur framsögumann meiri hluta umhvn.?
    ( Forseti (GunnS) : Forseti vill upplýsa hv. þm. um að framsögumaður hv. umhvn. hefur dvalið ágætlega vel og lengi við þær ræður sem hér hafa verið fluttar af hv. þm. við þessa umræðu. Þannig háttar til að nú stendur yfir fundur í hv. menntmn. Alþingis hér í húsinu. Það er örstuttur fundur sem boðað var til skilst mér í samkomulagi allra aðila. Hún á sæti í þeirri hv. nefnd og ég vona að hv. þm. muni taka undir með forseta um að hún geti sinnt því starfi nokkur augnablik. Ef hv. þm. vildi kannski haga ræðu sinni þannig að taka tillit til þess en hún kemur strax og þeim fundi lýkur.)
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir upplýsingarnar. Mér finnst hins vegar dálítið sérkennilegt að það sé verið að boða til fundar með framsögumanni þingnefndar í máli sem er til umræðu. Ég skal, ef þetta verður stutt fjarvera, ekki gera alvarlegar athugasemdir við það og treysti því, virðulegur forseti, að úr þessu rætist þó hið eðlilega væri að gera hlé á fundinum á meðan þessi fundur stendur yfir svo sem þingsköp í raun mæla fyrir sem aðalreglu.
    En ég ætla að koma hér að fáeinum ábendingum varðandi þessa fyrstu kynningu hæstv. umhvrh. á hugmyndum sínum um breytingu á náttúruverndarlögum því þessar hugrenningar sem þarna birtust á náttúruverndarþingi endurspegla viss atriði sem hafa reynst mikið villuljós að mínu mati við endurskoðun málsins innan ráðuneytisins því innan ráðuneytisins hefur þetta verið unnið með litlu og lítið loftað út, eða lítið loftað inn kannski öllu heldur, frá samfélaginu í sambandi við meðferð málsins á undirbúningsstigi. Hér er verið að halda því fram að það liggi fyrir einhver stjórnsýsluleg nauðsyn að breyta löggjöfinni frá núverandi horfi vegna þess að til sé komið sérstakt umhvrn. Þessi hugsanavilla og rökleysa gengur víða í gegnum málflutning þeirra sem eru að bera fram þær tillögur sem í frv. er að finna um endurskoðun stjórnsýslunnar. Það er af ráðherra í Stjórnarráði Íslands verið að láta liggja að því í þessari ræðu hér fyrir náttúruverndarþingi að Náttúruverndarráð hafi gegnt einhvers konar ráðuneytishlutverki. Sagt með beinum hætti, ,, . . .  var Náttúruverndarráði falið að sinna vissu ráðuneytishlutverki``. Hvað er ráðherrann í rauninni að fara í þessum efnum? Er þá það Náttúruverndarráð sem nú starfar með einhvers konar ráðuneytishlutverk? Það var þegar við stofnun umhvrn. flutt undir það ráðuneyti og hélt áfram að starfa eftir þeim lögum sem nú gilda og ég tel að það sé í rauninni ekkert lagalega séð eða stjórnsýslulega séð sem krefst breytinga á þessu, enda hlyti það að sjálfsögðu að hafa verið gert þegar 1990 við stofnun ráðuneytisins og verkaskiptingu undir því, því að þá var verið að taka á ýmsum málum og er ég þar með ekki að segja að það útiloki breytingar á stjórnkerfinu út af fyrir sig. En hér er um mikið villuljós að ræða sem notað hefur verið af ýmsum þeim sem hafa verið að kasta steinum í núverandi stjórnskipan og með óréttmætum hætti, að mínu áliti, að gagnrýna núverandi Náttúruverndarráð og koma á það ómaklegu höggi. Það á ekki skylt við eðlilegan málflutning að mínu mati að fara að kenna Náttúruverndarráði um og ekkert í stjórnskipuninni eða stjórnsýslunni sem mælir fyrir um að þessu kerfi verði að breyta. Hér sagði ráðherrann að eftir stofnun umhvrn. sé eðlilegt að það hafi sjálft yfirumsjón með stefnumótun í náttúruverndarmálum. Var eitthvað sem bannaði menntmrn., sem fór með þennan málaflokk og hafði undir sér lög um náttúruvernd frá 1971 allt til 1990, og ráðherra menntamála sem fór með náttúruverndarmál að móta stefnu í náttúruverndarmálum? Ekki nokkur skapaður hlutur. Auðvitað hlaut sá ráðherra sem hefði ætlað sér það og gerðu ýmsir atrennur að því og hugðu þar gott til mála þó ekki hafi kannski verið stórt á tekið þá var auðvitað æskilegt nú sem fyrr að það verði gert í góðri samvinnu við Náttúruverndarráð og aðra þá aðila sem fóru með þessi mál. En þörf er á að vekja athygli á þessum þætti sérstaklega.
    Á öðrum degi náttúruverndarþingsins eftir að búið var að fara yfir stefnutillögu ráðherrans í starfshópum lagði fulltrúi ráðherrans á þinginu fram beina ályktunartillögu sem rétt er að lesa hér, virðulegur forseti, því að nokkuð var tekist á um þessa málafylgju á þinginu, með leyfi forseta:
    ,,Áttunda náttúruverndarþing, haldið í Reykjavík 29.--30. okt. 1993, ályktar að við endurskoðun laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, skuli eftirfarandi markmið höfð að leiðarljósi: Að laga stjórnun þessa málaflokks að stofnun umhvrn., að styrkja stefnumótun um friðlýsingar og framkvæmd friðlýsinga, að skapa grundvöll fyrir sjálfstætt og virkt Náttúruverndarráð, að skilja ríkisrekstur frá annarri starfsemi Náttúruverndarráðs sem miðar að því að tryggja sjálfstæði þess gagnvart Stjórnarráðinu, að samræma verksvið ráðuneytisins og stofnana þess til að tryggja markvisst náttúruverndarstarf, að samræma lög um náttúruvernd nýjum lögum um mat á umhverfisáhrifum lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur og löggjöf á sviði mengunarvarna. Jafnframt skal taka mið af stefnumörkun Náttúruverndarráðs og athugasemdum náttúruverndarþings við hana.`` Þetta var tillagan. Með þessum tillöguflutningi var reynt að fá náttúruverndarþingið til að stimpla með þessum hætti vilja hæstv. ráðherra, sem kynntur var deginum á undan, og síðan átti væntanlega að nota þetta sem keyri á Náttúruverndarráð sem á lögum samkvæmt að taka mið af stefnumarkandi ályktunum náttúruverndarþings og auðvitað svo gagnvart Alþingi Íslendinga til að auðvelda ráðherranum að koma fram vilja sínum í þessum málum. Þetta nefni ég hér, virðulegur forseti, vegna þess að þetta er því miður mjög einkennandi fyrir málafylgju hæstv. umhvrh. að því er þetta mál varðar sem við ræðum hér og átti eftir að endurtaka sig með ákveðnum hætti eins og ég kem hér að nokkru síðar.
    Ég vil hins vegar áður en ég skil alveg við málflutning hæstv. umhvrh. á þessu þingi víkja að einum þætti sem kom fram í máli hans og ástæða er til að vekja athygli á hér þegar við ræðum þetta mál nú sem tengist endurskoðun á ákvæðum um friðlýsingu lands og landsvæða. Ráðherrann, með leyfi forseta, mælti svo 29. okt. 1993:
    ,,Sem ráðherra hef ég lagt mikla áherslu á friðlýsingar og aðrar verndunaraðgerðir og umönnun friðlýstra svæða.`` Ráðherrann hafði setið frá því í júnímánuði sumarið áður því þarna var vetrarbyrjun. En hann talar eins og þarna sé verið að líta yfir stórt sögulegt tímabil.
    ,,Það má segja að þau mál séu einna efst á forgangslista þess ráðherra og að mínu mati hefur of lítið verið gert í þessum málum á undanförnum árum. Eitt fyrsta verk mitt í ráðuneytinu var að beita mér fyrir átaki á þessu sviði. Í skýrslu OECD um umhverfismál á Íslandi sem kom út í sumar eru Íslendingar hvattir til að setja sér það markmið að friðlýst og vernduð svæði verði um 15% af landinu í lok aldarinnar. Þetta er verðugt verkefni en til þess að það geti orðið að raunveruleika þurfum við að mynda trausta framtíðarstefnu í þessum efnum byggða á ítarlegum rannsóknum. Rannsóknir eru ein af meginstoðum náttúruverndar og í framtíðinni munu Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur gegna mun veigameira hlutverki við undirbúning friðlýsinga og annarra verndunaraðgerða en til þessa.
    Friðlýsingar kosta peninga. Á það hafa menn rekið sig í gegnum tíðina. Sjaldnast er nægilegt að auglýsa og staðfesta friðlýsingu, henni þarf í flestum tilfellum að fylgja eftir með skipulegri umönnun og eftirliti. Á þessu hefur orðið nokkur misbrestur á undanförnum árum. Ég hef því beitt mér fyrir því að aukin framlög verði veitt til reksturs friðlýstra svæða og stjórnun og rekstur þeirra verði endurskoðaður.``
    Síðan segir í ræðunni:
    ,,Að undanförnu hefur verið unnið að friðlýsingu fjölmargra svæða sem væntanlega koma til framkvæmda á næstu mánuðum. Ég get nefnt sem dæmi, Snæfell, vestur Öræfi og Hafrahvammagljúfur en friðhelgi þessa svæðis er á lokastigi. Sama er að segja um Kollengi og Tunguey sem er mjög fjölbreytilegt votlendissvæði. Einnig er unnið að stofnun friðlanda í Ölfusforum, Oddaflóði, Blautós og Innstavogsnesi og ármótum Hvítár og Brúarár. Ég get líka nefnt Grunnafjörð, Öskjusvæðið og Veiðivötn. Friðland við Hvanneyri vegna blesgæsar er langt á veg komið en tengt því að samkomulag fjögurra þjóða, Íra, Dana, Breta og Íslendinga um verndun blesgæsar sem væntanlega verður undirritað innan tíðar. Skylt því máli er milliríkjasamningur um verndun margæsa sem við eigum frumkvæði að. Ég á nú í viðræðum við starfsfélaga mína í Kanada og Írlandi um það mál og á von á að línur fari að skýrast. Jafnframt er unnið að stofnun griðlands fyrir margæs á Álftanesi, m.a. í landi Bessastaða, sem gæti fengi viðurkenningu sem verndarsvæði á alþjóðlegum mælikvarða.
    Áður en ég hætti þessari upptalningu á væntanlegum friðlöndum má ég til með að nefna Látrabjarg þar sem eru mestu fuglabjörg í Norður-Atlantshafi. Eins og fram hefur komið í fréttum keyptum við verulegan hluta þess fyrir skömmu, svokallað Bæjarbjarg þar sem er ríflega helmingur fuglanna. Markmiðið með þessum kaupum er að vernda þessi stórkostlegu fuglabjörg. Það er vert að þakka frumkvæði og árvekni Náttúruverndarráðs í því máli sem og velvilja heimamanna.`` Svo segir: ,,Ágreiningur er yfirleitt lítill um friðlýsingu náttúruvætta og tiltölulega einfalt að hrinda slíkum friðlýsingum í framkvæmd. Ég hef lagt á það áherslu við Náttúruverndarráð að átak verði gert í friðlýsingu náttúruvætta. Sem dæmi um æskilega friðlýsingu mætti nefna Hvítserk og Goðafoss og hella sem brýnt er að varðveita. Einnig mætti nefna hveri og önnur jarðhitasvæði, þau náttúruvætti sem lengst eru komin í friðlýsingarferlinu eru Hraunbollar við Ölfusá og Grýlupottar á Selfossi. Þá er sömuleiðis vert að nefna að senn verður hafinn undirbúningur að friðun allra steingervingalaga í landinu.`` Tilvitnun lýkur í þennan kafla úr inngönguerindi hæstv. ráðherra inn á sviðið því í rauninni var þetta inngönguerindi inn á sviðið á áttunda náttúruverndarþingi.
    Það er líka vert að hafa það í huga, virðulegur forseti, að skömmu áður, tveimur og hálfum mánuði áður hafði --- ég bið virðulega þingmenn og alveg sérstaklega úr stjórnarandstöðu trufla ekki málflutning sem þarf að ná eyrum hæstv. umhvrh. ( Gripið fram í: Ég bið afar mikið forláts.) --- Ég er að rifja það upp í tilefni af þessum friðlýsingarlestri úr inngönguerindi hæstv. umhvrh. á sviðið að röskum tveimur og hálfum mánuði fyrr hafði hann tekið svo um munaði í hnakkadrambið á framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs þannig að, ég veit ekki hvað segja skal, hæstv. forseti, það er kannski rétt að ræða það nánar undir öðru máli sem er hér á dagskránni, en að minnsta kosti þannig að allóvenjulegt verður að teljast. Aðfinnsluefnið sem hæstv. umhvrh. átti við framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs 6. ágúst 1993 var að hann hefði tíundað í blaðaviðtali í Morgunblaðinu hinn sama morgun áhugaefni og vinnu Náttúruverndarráðs í friðlýsingarmálum og farið um það nokkrum orðum. Bið ég nú einhvern velviljaðan þingmann að rétta mér málskjal sem liggur hér frammi en tengist öðru máli sem er álit minni hluta allshn. Alþingis sem varðar þó þetta mál með beinum hætti og það sem ég er hér að víkja að .
    Hæstv. umhvrh. átti það erindi við formann Náttúruverndarráðs og framkvæmdastjóra fyrri hluta dags held ég að það hafi verið eða um miðjan dag 6. ágúst 1993 að finna að því að framkvæmdastjóri Náttúruverndarráðs hefði leyft sér að hafa uppi í viðtali við Morgunblaðið nokkra frásögn af því sem Náttúruverndarráð væri að að vinna og hefði í

huga í sambandi við friðlýsingarmál. Ég sé ástæðu til þess að fá leyfi forseta til að vitna í umrædda grein sem varð til þess að hæstv. umhvrh. krafðist afsagnar framkvæmdastjóra ráðsins á stundinni fyrir að hafa leyft sér að eiga viðtal um þessi efni ( Umhvrh.: Það er nú bara lygi.) Það er bara lygi segir hæstv. umhvrh., það er bara lygi. Það er ágætt en það ætti að verða til þess að hæstv. umhvrh. greiði fyrir því og hefði átt að gera það fyrr að greiða fyrir því að mál nr. 3 á dagskránni kæmi til umræðu og það yrði samþykkt sem lagt er til í 3. dagskrármáli þessa fundar um kosningu sérstakrar nefndar til að athuga embættisfærslu hæstv. umhvrh. Þá væri það nú einmitt vettvangurinn til þess að flytja mál af þeim toga sem hæstv. ráðherra nefnir að hrekja það sem er í hámælum skulum við segja í þessum efnum því að einmitt margt af því á heima, ég viðurkenni það hæstv. forseti, það er tæpast að það sé yfir hafandi hér í þingsölum, á miklu betur heima með heimild sérstakrar þar til kjörinnar rannsóknarnefnar.
    Þá ætla ég að koma að þessu saknæma viðtali í Morgunblaðinu þennan morgun, með leyfi forseta:
    ,,Náttúruverndarráð vinnur nú frumkönnun á því hvort komi til greina að stækka einstök þjóðgarða eða einstök friðlönd. Þóroddur Þóroddsson, framkvæmdastjóri ráðsins, segir þessa hugmyndavinnu skammt á veg komna og bendir á að í ýmsum tilvikum séu ekki hafnar viðræður við landeigendur. Þóroddur nefndi hugmyndir um stækkun þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum en sú stækkun fæli í sér að austurbakki gljúfranna tilheyrði þjóðgarðinum. Einnig segir hann að rætt sé um að stækka þjóðgarðinn í Skaftafelli og að stofna friðlönd vestast á Snæfellsnesi, á miðhálendinu og að fjallabaki frá Heklu að Laka. ,,Með því að friðlýsa svæði gefst tækifæri til að setja ákveðnari reglur um umgengni, mannvirkjagerð og umferð um viðkomandi svæði. Við getum því haft aukin áhrif á það hversu langt megi ganga í framkvæmdum,`` sagði Þóroddur.
    Hann sagði að Náttúruverndarráð vinni nú fyrstu drög að hugmyndum um stækkun þjóðgarða eða friðlanda. ,,Það er áhugi á því að fjölga friðlýstum svæðum en síðustu ár höfum við ekki lagt í að friðlýsa fleiri svæði þar sem við eigum fullt í fangi með að sinna eftirliti á þeim svæðum sem þegar eru friðlýst.`` Hann sagði að því valdi tvennt. Annars vegar skorti fjármagn til starfseminnar og hins vegar felist starf ráðsins æ meira í ráðgjöf og umsögnum vegna mannvirkjagerðar. ,,Við höfum viljað breyta þessu og leggja ríkari áherslu á eftirlit, upplýsingasöfnun og aðgerðir sem nauðsynlegar eru til verndunar á hverju svæði.``
    Jökulsárgljúfur og Skaftafell.
    Þóroddur skýrði frá því að kynnt hefði verið sú stefna Náttúruverndarráðs að stækka þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum. ,,Okkar áhugi beinist helst að austurbakka Jökulsár á Fjöllum og ef af stækkun yrði bættist við garðinn landræma meðfram jökulánni.`` Hann segir að eðlilegt sé að fossarnir, Dettifoss og Selfoss, séu friðlýstir að öllu leyti en ekki aðeins vesturhlutinn og margar náttúruperlur séu nú austan árinnar svo sem Forvöðin.
    Einnig hefur lítillega verið rætt um að stækka þjóðgarðinn í Skaftafelli að sögn Þórodds. Sú stækkun fælist í því að hafa Öræfajökul og nágrenni hans inni í garðinum. Hann segir umferð á jöklinum mjög mikla og telur að ástæða sé til að kanna hvort hafa þurfi eftirlit með þeirri umferð.
    Friðlönd stækkuð.
    Þóroddur segir að umræða spinnist oft um stofnun friðlanda hér og þar á landinu. Dæmi um hugmyndir, sem nú séu ræddar, séu stofnun friðlands vestast á Snæfellsnesi og tengingu og stækkun friðlanda og náttúruminja á miðhálendinu og á svæðinu að fjallabaki. Hann leggur aftur á móti ríka áherslu á að þessi áform séu enn á hugmyndastigi og að eftir eigi að ræða málið við landeigendur.
    Á miðhálendinu kemur til greina að mati Þórodds að stofna friðland sem tengi saman náttúruminjar frá Hvítárvatni við Langjökul í vestri norður til Hveravalla og næði yfir Kerlingarfjöll, Þjórsárver allt að Tungnafellsjökli í austri. Á sama hátt mætti hugsa sér að stækka friðland að fjallabaki verulega og láta það jafnvel ná yfir Heklu, Þórsmörk, Kötlu og Eldgjá eða ganga enn lengra og hafa Lakagíga og Veiðivötn einnig innan þess. Hann

segir þó mörgum spurningum enn ósvarað, svo sem hvort stækkun sé hagkvæm frá verndunarsjónarmiði auk þess sem eftir eigi að ræða við landeigendur.
    Samstarf mikilvægt.
    Hann segir að Náttúruverndarráð muni setja kraft í að vinna að þessum hugmyndum í haust og næsta vetur. ,,Það er mjög mikilvægt,`` sagði Þóroddur, ,,að öll verndun og allt eftirlit með friðlýstum svæðum sé rækt í góðu samstarfi við íbúa og landeigendur viðkomandi svæða. Samstarfið er víða allt of lítið núna og fjarri því að vera nógu víðtækt,`` sagði hann. ,,Til dæmis þarf að fjölga heimsóknum á svæðin verulega og um þessar mundir er einn starfsmaður ráðsins á ferð um landið til þess að skoða svæðin, lagfæra merkingar og hitta landeigendur.``
    Þetta var þetta blaðaviðtal sem birtist í Morgunblaðinu 6. ágúst 1993 og að er vikið í nefndaráliti minni hluta allshn. með ákveðnum hætti en ég ætla ekki að fara út í það að öðru leyti en því að þar segir: ,,Mun íhlutun ráðherrans hafa leitt til þess að Þóroddur sagði starfi sínu lausu þá um haustið.`` Þ.e. sú yfirheyrsla eða sá yfirlestur sem hæstv. ráðherra hafði uppi við þáv. framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs út af þessu blaðaviðtali sem var tilefni þess að hæstv. ráðherra tók framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs til sérstakra bæna. Þetta er vert að hafa í huga þegar menn fara yfir boðskap ráðherrans á náttúruverndarþingi tveimur og hálfum mánuði síðar þar sem hann í rauninni var að gera lítið úr Náttúruverndarráði og starfi þess að friðlýsingum og það væri hann, það er ég sem ætla nú aldeilis að taka til hendinni í þessum málum, og boðaði þar stefnu sína. Það er einmitt þetta sem tengist þeim breytingum á lögum sem hæstv. ráðherra er að leggja fram í þessu frv. hér, það er að taka frumkvæði í friðlýsingarmálum frá stofnanalegri meðferð, hvort sem það er Landvarsla ríkisins eða Náttúruverndarráð, yfir á eigið borð.
    Það er vert fyrir menn að hafa í huga í ljósi þessarar sögu og í ljósi þeirra mála sem hæstv. ráðherra hefur verið að leggja fyrir þingið varðandi friðlýsingar og liggja fyrir yfirstandandi þingi að hluta til að þau hafa því miður ekki verið unnin á þann faglega hátt og af þeirri vandvirkni sem þörf er á að liggi til grundvallar undirbúningi að friðlýsingum og ætti að verða mönnum nokkurt víti til varnaðar í sambandi við meðferð þessara mála. Og það er ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að ég tengdi þetta inn í mitt mál að vara einmitt við þessum þankagangi sem þarna er á ferðinni.
    En hvað hefur svo gerst í öllum þessum friðlýsingarmálum sem mátti skilja á ráðherra haustið 1993 að væru á lokastigi og hann mundi aldeilis tryggja að hrist væri fram úr erminni á næstunni? Jú, það hafa farið fram á núverandi kjörtímabili fjórar friðlýsingar. Fjögur svæði hafa verið friðlýst. Það er niðurstaðan og það er rétt, virðulegur forseti, að nefna þessi svæði hér. Það er í fyrsta lagi fólkvangur í Böggvisstaðafjalli hjá Dalvík. Það er í öðru lagi lítið friðland í Pollengi, vissulega eitt af því sem ráðherrann nefndi haustið 1993. Það er í þriðja lagi Grunnafjörður sem friðland í Skilamannahreppi og Mela- og Leirársveit, ef ég man rétt, og það er í fjórða lagi friðland við svonefnd Oddaflóð á Rangárvöllum. Þetta eru friðlýsingarnar sem fram hafa farið á yfirstandandi tímabili eða frá 1991 og ég fæ ekki séð að þarna hafi orðið einhver stökkbreyting þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. umhvrh. Ég er út af fyrir sig ekki að væna hæstv. ráðherra um skort á vilja í þessum efnum, hvað þá Náttúruverndarráð sem hefur þó komið þessum friðlýsingum í framkvæmd, gert þær að veruleika með undirbúningi og eru með mörg önnur mál á undirbúningsstigi. En þessi mál eru bæði nokkuð seinfær hvað snertir undirbúning sem þarf að vera vandaður þar sem margir koma við sögu og kosta auk þess fjármagn og þó að það hafi verið aflað sérstaks fjár úr atvinnubótafjármagni árið 1993 til að sinna þessum málum á vettvangi Náttúruverndarráðs, það var góðra gjalda vert og kannski skilaði þessum friðlýsingum í höfn sem ég nefndi hér, þá er það svo að þessi mál taka ákveðinn tíma og ég tel að það sé ekki vegna skorts á lagabreytingu eða vöntun á að lögum hafi verið breytt sem ekki hefur gengið hraðar í þessum efnum heldur liggi þar aðrar ástæður til grundvallar. Ég vara því við þeim anda sem svífur yfir vötnum í því frv. sem við ræðum hér að því er varðar breytingar á undirbúningi friðlýsinga og að fara að taka það mál inn á borð sjálfs umhvrh. Það þarf hins vegar ekki að fela í sér að ráðherra hafi ekki allan rétt

og nokkuð sé við það að athuga að hann veki máls á slíku og geri tillögur um slíkt og hjálpi til að koma slíkum málum í höfn. Allt er þetta af hinu góða þar sem það á við en ég er ekki viss um að það hins vegar leiði til þeirrar vandvirkni í vinnubrögðum sem þörf er á að hafa uppi þegar um er að ræða friðlýsingu lands að náttúruverndarlögum.
    Ég ætla þá, virðulegi forseti, að hverfa frá náttúruverndarþinginu haustið 1993 og málafylgju hæstv. umhvrh. á því þingi en minni á að fyrir liggja fyrir framtíðina tillögur Náttúruverndarráðs á þessu þingi og athugasemdir við þær sem sá sem hér talar átti m.a. hlut að að setja saman. Má vera að eitthvað af því gagnist fyrir framtíðina og verði kannski endingarbetra heldur en sumt af því sem hér er verið að leggja til.
    Næsti þáttur í þessu máli var sá að innan umhvrn. var sett saman frv. til laga um náttúruvernd eða breytingar á lögum og því var skilað til Náttúruverndarráðs með bréfi 29. nóv. 1993. Í bréfi ráðuneytisins til Náttúruverndarráðs sagði, með leyfi forseta:
    ,,Á náttúruverndarþingi 29. nóv. sl. kynnti umhvrh. tillögur sínar um nýtt fyrirkomulag á stjórn náttúruverndarmála. Á grundvelli þessara hugmynda hafa nú verið unnin drög að frv. um breytingar á lögum um náttúruvernd, nr. 47/1971. Þessi frumvarpsdrög eru hér með send Náttúruverndarráði til umsagnar. Afar mikilvægt er að álit Náttúruverndarráðs liggi fyrir sem allra fyrst þar sem stefnt er að því að leggja frv. fram á Alþingi fyrir jól.``
    Svo að öllu sé til skila haldið, þá lauk bréfinu þannig: ,,Með frv. fylgir vinnuskjal þar sem breytingartillögurnar eru felldar inn í lögin eins og þau eru í dag. Þetta er einungis gert til að auðvelda ráðsmönnum að sjá áhrif breytinganna á lögin í heild sinni.`` Undir þetta bréf til Náttúruverndarráðs ritar Birgir Hermannsson.
    Einum eða líklega tveimur dögum síðar eftir dagsetningu þessa bréfs, rétt eftir mánaðamótin, kom Náttúruverndarráð saman til fundar og fjallaði um þetta erindi ráðherrans. Á það var lögð afar rík áhersla að Náttúruverndarráð lyki umsögn sinni um væntanlegt frv. á þessum fundi. Ráðsmönnum barst þetta í hendur annaðhvort stuttu fyrir fund eða á fundinum sjálfum. Fundir Náttúruverndarráðs eða fundalotur munu standa að jafnaði einn eða tvo daga þar sem reynt er að safna málum saman og margt er á dagskrá þannig að ráðrúmið til þess að fara yfir þetta frv. á þessu stigi var ekki ýkja mikið en það var samt reynt með svipuna á lofti hvað tíma snertir að knýja Náttúruverndarráð til að taka afstöðu til þessara hugmynda.
    Þarna var á ferðinni, virðulegur forseti, sama bráðræðið, sami þrýstingurinn af hálfu ráðuneytisins í sambandi við undirbúning málsins, endurtók sig sama sagan og gerðist á náttúruverndarþingi þar sem krafa ráðherrans var: Stimplið þið mínar tillögur hið allra fyrsta. Þið verðið að koma með ykkar álit. Ég er að fara að leggja málið fyrir Alþingi. Það gerðist svo ekki. Ráðherrann fékk umsögn Náttúruverndarráðs sem reyndi að verða við kröfu hans á þessum stutta tíma sem því var settur til þess að skila áliti en frv. leit ekki dagsins ljós á þessu ári, 1993.
    Það sem næst gerðist í þessu máli svo að vart yrði við út á við var það að Náttúruverndarráð boðaði til fundar, ég má segja að það hafi verið 19. febr. sem kvatt var til sérstakrar ráðstefnu sem ályktað hafði verið um á náttúruverndarþingi að haldin skyldi til þess að ræða um stefnumörkun í náttúruvernd. Fyrir þessa ráðstefnu hafði verið samin dagskrá og fengnir til ýmsir aðilar til þess að ræða um stefnumótun í náttúruvernd og var sá sem hér talar einn af mörgum sem settu fram hugmyndir á þessum fundi. Þar var ætlunin af hálfu náttúruverndarþings að fram kæmi með skýrari hætti heldur en áður hugmyndir m.a. varðandi breytingu á náttúruverndarlögum sem og ýmis önnur atriði. En hæstv. ráðherra mátti ekki vera að því að bíða eftir þessari ráðstefnu því að hann lagði fyrir hana það sem túlkað var sem nánast fullbúin drög að frv. til endurskoðunar laga um náttúruvernd og þessi drög voru kynnt mönnum í upphafi ráðstefnunnar þann 19. febr. 1994 í þingskjalaformi og málið kynnt þar á ráðstefnunni af hálfu talsmanna ráðherra sem og ef ég man rétt í máli hæstv. ráðherra sjálfs sem kom til fundarins.
    Enn endurtóku sig sömu vinnubrögðin og höfðu gerst á náttúruverndarþingi og höfðu gerst gagnvart Náttúruverndarráði um mánaðamótin nóvember/desember. Það er komið á

elleftu stundu með fullbúin drög að frv. sem átti að leggja fram á Alþingi og til kynningar. Og það er eins og gengur þegar margt er á dagskrá á þessari ráðstefnu að auðvitað var ekkert einfalt fyrir þátttakendur þar að setja sig í einstökum atriðum inn í hugmyndir ráðherrans varðandi lagafrv. þó að það væri vissulega gagnlegt að fá það þó til umfjöllunar þarna, en það bar við á þessum fundi m.a. að ýmsir fulltrúar í Náttúruverndarráði kvörtuðu yfir því og greindu frá því með hvaða hætti ráðið hafði fengið málið til umsagnar nokkrum vikum eða tveimur og hálfum mánuði eða svo fyrr og haft lítið ráðrúm til þess að fara yfir það og komu þar fjölmargar ábendingar til viðbótar af hálfu Náttúruverndarráðs í sambandi við þessi efni.
    Sá sem hér talar flutti á þessu þingi nokkrar ábendingar varðandi þetta frv. sem ég hafði þó ekki haft mikið ráðrúm til þess að skoða og setti fram margháttaða gagnrýni á þær hugmyndir sem þar voru uppi. Ég ætla ekki hér að fara að rifja það upp, enda mun það koma fram í mínu máli síðar þegar ég fjalla um einstaka þætti frv.
    Kemur nú að því, virðulegur forseti, sem næst er í þessu máli að víkja að framlagningu málsins eins og það kom fram í marsbyrjun á 117. löggjafarþingi, í marsbyrjun 1994. Þá birtist okkur það frv. sem ráðherrann hafði kynnt á umræddri ráðstefnu og þar var fyrir því mælt. Þetta var fyrri útgáfan, við erum hér að ræða hina síðari. Þetta frv., þessi útgáfa var rædd á Alþingi Íslendinga ef ég man rétt 10. mars, vil þó ekki alveg fullyrða dagsetninguna, en var vísað til umhvn. Og umhvn. tók sig til og sendi þetta mál þá þegar til fjölmargra aðila til umsagnar. Ég hef ekki alveg tölu á því en það voru mjög margir sem fengu frv. í þeim búningi sem það lá þá fyrir og bárust umsagnir frá fjölmörgum aðilum en það fór hins vegar svo að þær voru ekki að öllu leyti til gagns þegar kom fram á yfirstandandi þing og önnur útgáfa málsins mjög breytt í mörgum mjög þýðingarmiklum atriðum kom fram á þinginu en umhvn. því miður hafði ekki fyrir því að senda málið á nýjan leik til umsagnar þeirra aðila sem um það höfðu fjallað á fyrra þingi og var það gert samkvæmt sérstökum tilmælum af hálfu ráðuneytisins að sá háttur var á hafður. Sá sem hér talar var þá ekki inni á þingi þegar um þetta var fjallað og núverandi útgáfa frumvarpsins var komin til nefndarinnar, en hafði komið því á framfæri með öðrum hætti að ég hefði talið rétt að málið færi á nýjan leik til umsagnar allra þeirra sem fengu hið fyrra mál vegna þess að um breytingu væri að ræða. Ég tel að þetta hafi verið mikil mistök hjá umhvn. að halda þannig á máli en þarna var í rauninni enn verið að bregðast við þrýstingi af hálfu ráðuneytisins vegna þess að það lá svo lifandis ósköp á að þeirra mati.
    Það hefur einkennt þetta mál frá byrjun og málafylgju hæstv. ráðherra að hann hefur alltaf verið í spreng með málið. Hann hefur þurft að reiða umsagnir fram með skjótum hætti eða það er ekki tími til að óska eftir umsögnum og það var sú röksemdafærsla sem umhvn. tók á móti frá ráðherranum í nóvembermánuði sl. varðandi 2. útgáfu.
    Þær fjölmörgu athugasemdir sem bárust varðandi fyrri útgáfuna eru því ekki að öllu leyti gildar og vantar raunar nokkuð á gagnvart þeirri útgáfu sem nú liggur fyrir og hér er rædd þannig að þeim aðilum sem þarna unnu gott verk, reyndu að setja sig inn í mál og koma á framfæri við Alþingi sínum athugasemdum, var ekki gert kleift að fylgja því eftir eins og málið nú liggur fyrir.
    Frá Náttúruverndarráði barst umsögn við hina fyrri útgáfu, dags. 6. apríl 1994, þar sem segir í fylgibréfi frá formanni ráðsins, með leyfi forseta:
    ,,Náttúruverndarráð hefur á fundum sínum þann 17., 24. og 28. mars og 5. apríl fjallað um erindi umhvn. dags. 8. mars sem ráðinu barst þann 16. sama mánaðar um frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 47/1971, með síðari breytingum. Meðfylgjandi er umsögn Náttúruverndarráðs. Umsögn Náttúruverndarráðs um frv. eins og það þá leit út er á mörgum blaðsíðum og tekur til fjölmargra atriða í því frv. sem þá lá fyrir. Ég ætla hins vegar ekki hér, tel ekki rétt að fara yfir þessa gildu umsögn sem lá fyrir frá ráðinu á þeim tíma, en víkja hins vegar að þeirri umsögn sem barst um núverandi frv. sem tekið hafði verulegum breytingum og nauðsynlegt er að hafa til hliðsjónar við umræðu um þetta mál. Ég kem að því síðar.

    Ég vil hins vegar og tel mér það í raun skylt að koma hér að ýmsum atriðum sem koma fram í athugasemdum við frv. eins og það lá fyrir á fyrra þingi frá aðilum sem ekki gátu borið hönd fyrir höfuð sér ef svo má segja gagnvart þeirri útgáfu sem hér er rædd og því frv. sem hér er til umræðu þar sem þeir fengu það ekki til umsagnar á nýjan leik. Umsagnirnar eru vissulega blandaðar hvað snertir afstöðu til frv. Það finnast aðilar sem eru ánægðir með frv. eða gera tiltölulega fáar athugasemdir við það, það er skylt að taka fram. Hins vegar eru þeir margir og í meiri hluta sem gera mjög veigamiklar athugasemdir við frv. eins og það þá lá fyrir, efnislegar og málefnalegar athugasemdir og sumar eru mjög harðorðar þannig að ég get tekið undir í rauninni þau orð sem komu fram hjá frsm. minni hluta nefndarinnar fyrr í dag að þeir eru ekki mjög margir sem hafa lýst ánægju með það mál sem hér liggur fyrir til umræðu. Ég gríp hér niður, virðulegi forseti, í umsögn frá sjálfboðaliðasamtökum um náttúruvernd frá síðasta þingi sem segja m.a. í umsögn sinni eftirfarandi. Komudagur hennar er 5. apríl 1994 inn í málasafn umhvn., með leyfi forseta:
  ,,1. Það er full ástæða til þess að endurskoða lög um náttúruvernd, enda eru þau orðin 20 ára gömul og umræður og áherslur í umhverfismálum breytast hratt. Því fögnum við frv. og þeim umræðum sem framlagning þess leiðir af sér.
    2. Eðlilegt er að í upphafi séu gerðar úrbætur á þeim hluta sem fjallar um skilgreiningar á náttúruvernd, hvað er átt við með því hugtaki og að hverju er stefnt og framkvæmdin svo miðuð út frá því. Í þessu frv. er að okkar mati byrjað á röngum enda þar sem aðeins framkvæmdahliðin er endurskoðuð en þröngar og úreltar skilgreiningar um hvað sé náttúruvernd látnar halda sér. Í þær skilgreiningar vantar alfarið mengunarvarnir, hvort sem er á sjó, í landi eða í lofti, eyðingu ósonlagsins, gróðurhúsaáhrif, verndun lífríkis á hafsbotni svo að eitthvað sé nefnt.
    3. Við þessa endurskoðun er framkvæmdarvald fært frá Náttúruverndarráði en það verður ráðgjafaraðili. Eðlilegt er að um leið sé valdsvið þess til ráðgjafar aukið þannig að öll almenn náttúruvernd sé innan þess verksviðs en ekki aðeins þurrlendið. Hafið, strendurnar og loftið eru umhverfi sem ættu einnig að falla undir vettvang þess og það því að vera umsagnaraðili við framkvæmdir sem að þeim snúa.``
    Þetta er brot af umsögn frá sjálfboðaliðasamtökum um náttúruvernd. Í umsögn frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands sem barst 28. mars 1994 segir m.a., með leyfi forseta, þar sem vikið er að náttúruverndarnefndum, 9. gr.:
    ,,Hér er sú breyting gerð að í hverju kjördæmi skuli vera ein náttúruverndarnefnd skipuð 7 mönnum í stað tveggja nefnda eða fleiri eins og nú er víða. Stjórn Naust er andvíg þessari breytingu hvað varðar Austurlandskjördæmi. Til þessa hafa þar verið þrjár nefndir, í sinni sýslu hver, skipuð 3--5 mönnum. Sýnilegt er að með fyrirhugaðri breytingu er tilkostnaður meiri og hætta á minni skilvirkni.``
    Frá Félagi ísl. landslagsarkitekta barst umsögn þar sem segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Félagið vill leggja sérstaka áherslu á nauðsyn þess að skapa betri tengsl á milli opinberra aðila sem fjalla um náttúruverndarmál og þeirra sem búa í hinum dreifðu byggðum landsins. Á þessu hefur því miður verið misbrestur sem eflaust er að miklu leyti afleiðing úreltrar löggjafar. Uppstokkun og ákveðnari verkaskipti milli ráðherra, ráðuneytis og stofnana þess á höfuðborgarsvæðinu eins og frv. gerir ráð fyrir er góðra gjalda verð en er marklaus ef ekki kemur samtímis til valddreifing út á landsbyggðina. Það virðist liggja beint við að starfsemi (útibú á vegum stofnana sem heyra undir umhvrn.) verði komið fyrir í hverjum landshluta. Hér er átt við að eftirlit með verklegum framkvæmdum, byggingar- og skipulagsmál, heilbrigðiseftirlit, mengunarvarnir, umsjón og eftirlit með friðlýstum svæðum og fleira myndi umhverfismálakjarna í landshlutum.``
    Í umsögn frá Einari E. Sæmundsen er að finna sérstaka ábendingu að því er varðar útilíf og almannarétt og lögð áhersla á nauðsyn þess að taka upp skilvísari og almennari leiðbeiningar varðandi umgengni við landið og því nauðsynlegt að það byggi á skýrum lagabókstaf og þar er vikið að nokkrum ályktunum sem samþykktar voru á náttúruverndarþingi í október 1993.

    Stjórn Jarðfræðifélags Íslands veitti umsögn sem er dagsett 24. mars 1994 og barst í skjaladeild umhvn. degi síðar. Ég leyfi mér að vitna til nokkurra atriða úr þessari umsögn varðandi frv. eins og það þá leit út, en það varðar að hluta einnig núverandi útgáfu málsins, með leyfi forseta:
    ,,Megingagnrýni Jarðfræðifélags Íslands lýtur að skorti á stefnumótandi þáttum um náttúruvernd í frv.`` --- Nú sakna ég, virðulegur forseti, frsm. meiri hluta nefndarinnar sem enn á ný er farinn úr þingsal og er vonandi ekki kominn á nefndarfund.
    ( Forseti (KE) : Forseti skal gera þingmanninum viðvart um að hans sé óskað.)
    ,,Þá telur félagið mjög vegið að nauðsynlegu frumkvæði og valdi Náttúruverndarráðs í þessum málaflokki, m.a. vegna óljósra skilgreininga á hlutverki þess og óvissri fjárhagsstöðu. Að mati félagsins ætti umsjón náttúruverndarmála að vera óháð pólitískri stjórn og ætti því að hætta við ráðherraskipun formanns og varaformanns Náttúruverndarráðs. Stjórn félagsins lítur á stofnun Landvörslu ríkisins sem jákvætt skref svo framarlega sem séð verði til þess að sú stofnun hafi ekki lamandi áhrif á starfsemi Náttúruverndarráðs varðandi fjárhagslegan styrk til að sinna hlutverki sínu. Sala á þjónustu innan friðlýstra svæða er þó varhugaverð leið til að fjármagna umsjón þeirra.
    Hver á að ráða? Í fyrsta lagi gerum við athugasemd við þá meginstefnu frv. að færa umsjón náttúruverndarmála að miklu leyti undir pólitíska yfirstjórn. Við teljum á engan hátt óhjákvæmilegt að umhvrn. taki á svo afgerandi hátt við því hlutverki sem Náttúruverndarráð hefur haft. Þetta álit byggir ekki á ókunnugleika á stjórnsýslu ríkisins. Þvert á móti vitum við að ráðuneytið getur falið öðrum aðilum stjórn ýmissa mála eins og raunar kemur fram í þessu frv. Við teljum að með styrkingu Náttúruverndarráðs sem skipað væri áhugafólki um náttúruvernd mundi umhvrn. gefa gott fordæmi um dreifingu valds til aðila sem væru óháðir pólitísku umhverfi hvers tíma.
    Um Landvörslu ríkisins. Við teljum stofnun nýrrar ríkisstofnunar undir nafninu Landvarsla ríkisins í sjálfu sér ágæta hugmynd. Framkvæmd hennar hlýtur þó að vera ótímabær þar sem starfsemi hennar er ætlaður fjárhagur ásamt starfsemi Náttúruverndarráðs innan ramma núverandi fjárveitinga eins og tekið er fram í fskj. fjmrn. með frv. Þó verksvið það sem Landvörslunni er ætlað sé nokkru þrengra en verksvið Náttúruverndarráðs er nú hlyti sérhver alvarleg tilraun þessarar nýju stofnunar til að sinna hlutverki sínu að lama starfsemi skrifstofu Náttúruverndarráðs og augljóst er einnig að geri Náttúruverndarráð ekkert nema halda uppi svipuðum lágmarksrekstri og verið hefur er stofnun Landvörslu ríkisins orðin tóm.
    Um Náttúruverndarráð. Í frv. er mikið rætt um óháð og sjálfstætt Náttúruverndarráð. Þó virðist, ef grannt er skoðað, að með lögum þessum sé starfsemi þess svo takmörkuð og þröngar skorður settar að í raun sé verið að slá það af. Eins og þeir gerst vita sem fást við stjórn landsins er ekkert sjálfstæði án fjárhagslegs styrks. Eins og fyrr segir er ekki gert ráð fyrir öruggri fjárhagsstöðu Náttúruverndarráðs í frv. þessu og raunar reiknað með skerðingu fjárveitinga frá því sem nú er. Hlutverk Náttúruverndarráðs er mjög óljóst skilgreint í frv. Hinir ýmsu aðilar skulu leita álits þess en frumkvæðið er frá því tekið og ekkert vald er því falið. Skipan manna í Náttúruverndarráð stefnir ekki heldur að því að gera það ,,sjálfstætt`` og ,,óháð``. Enn skal ráðherra skipa formann og varaformann en að auki kveður frv. á um skipan fulltrúa tveggja hagsmunaaðila í ráðið, þ.e. Ferðamálaráðs og Sambands ísl. náttúruverndarfélaga.`` --- Þessu atriði er breytt í núverandi útgáfu frv. þannig að það á ekki lengur við. En umsagnaraðilar leggja til að á þessu verði breyting.
    Fleira er um margt athyglisvert sem fram kemur í áliti stjórnar Jarðfræðifélags Íslands, sem segir í lok umsagnar sinnar, með leyfi forseta:
    ,,Við gerum athugasemdir við þær miklu breytingar sem frv. gerir ráð fyrir á 29. gr. gildandi laga. Við álítum að þeir tveir málaflokkar sem þar eru teknir undan umsjá Náttúruverndarráðs, mengunarmál og hönnun stórra mannvirkja, séu þau mál þar sem mest þörf er á eftirliti óháðra aðila sem hafa ekki hagsmunatengsl við viðkomandi framkvæmdir, hafa enga hugsjón nema lífið eins og skáldið sagði.``
    Undir þetta ritar Guðrún Sverrisdóttir fyrir hönd stjórnar Jarðfræðifélags Íslands.

    Frá Vík í Mýrdal, áhugamannahópi um umhverfisvernd og náttúruvernd Vestur-Skaftafellssýslu, barst ítarleg umsögn um frv. á þessum tíma. Í þá umsögn hefur verið vitnað, ef ég tók rétt eftir, virðulegur forseti, í máli hv. þm. Jóns Helgasonar og ég ætla ekki að endurtaka það hér tímans vegna.
    Félag ísl. náttúrufræðinga sendi umhvn. umsögn, sem er dags. 24. mars, og segir m.a. í henni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Áður en frv. til laga um breytingar á náttúruverndarlögum, nr. 47/1971, verður lagt fram telur nefndin nauðsynlegt að skilgreina nánar hvað felst í hugtakinu náttúruvernd þannig að skýrt komi fram að náttúruvernd er hluti af umhverfisvernd. Skilgreining hugtaksins er einnig forsenda þess að unnt sé að samræma lög og reglugerðir þeirra sviða sem falla undir umhverfisvernd, sbr. reglugerð um mat á umhverfisáhrifum og lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    Í 5. gr. segir: ,,Landvarsla ríkisins getur með samningum falið öðrum aðilum umsjón náttúruminja og friðlýstra svæða að þjóðgörðum undanskildum, t.d. sveitarfélögum og einstaklingum.`` Og í 6. gr. segir: ,,Á vegum Landvörslunnar starfa landverðir sem sjá m.a. um eftirlit og fræðslu á svæðum í umsjón stofnunarinnar.``     Umhverfisnefnd Félags ísl. náttúrufræðinga telur eðlilegt að tryggð verði hæfi þeirra starfsmanna sem koma til með að vinna á náttúruverndarsvæðum. Þetta gildi einnig fyrir náttúruverndar- og skógræktarsvæði sem eru í umsjón annarra ráðuneyta en umhvrn. Brýnt er að góð samvinna ráðuneyta verði tryggð.``
    Í lok umsagnarinnar segir: ,,Umhvn. Félags ísl. náttúrufræðinga leggur áherslu á að það lagafrv. sem hér er til umfjöllunar felur einungis í sér takmarkaða endurskoðun á lögum um náttúruvernd, nr. 47/1971. Í ljósi fenginnar reynslu og aukinnar umhverfisvitundar meðal þjóðarinnar er nauðsynlegt að lögin í heild verði sem fyrst tekin til rækilegrar endurskoðunar.``
    Frá mörgum öðrum aðilum bárust umsagnir um þetta frv. og má þar nefna Búnaðarfélag Íslands, Samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu um Eyþing, sem gagnrýndu frv. út frá sínu sjónarhorni, og frá náttúruverndarnefnd Borgarfjarðarsýslu barst einnig umsögn og frá Æðarræktarfélagi Íslands. Allir þessir aðilar bera fram gagnrýni á frv. og finna m.a. til foráttu miðstýringu sem þar sé að finna sem gangi til muna of langt í sambandi við málaflokkinn. Náttúrufræðistofa Kópavogs skilaði gildri umsögn um frv. og Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður hennar, undirritar umsögnina, sem er mjög ítarleg og lofsvert framtak að fara svo rækilega yfir þingmál eins og þar kemur fram. Umhvn. fjallaði um margar af þessum athugasemdum og eitthvað af þeim mun hafa skilað sér inn í þær brtt. sem fyrir liggja þó það sé nú ekki verulegt.
    Sú umsögn sem er einna athyglisverðust varðandi þetta mál á síðasta þingi og það gildir einnig um umsögn varðandi frv. á þessu þingi, kom frá stjórn Ferðafélags Íslands. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna til upphafsins á þeirri umsögn sem hljóðar þannig:
    ,,Stjórn Ferðafélags Íslands leggur mikla áherslu á að þjóðin búi við haldgóða náttúruverndarlöggjöf, enda beiti félagið sér m.a. fyrir umhverfisvernd. Af þeirri ástæðu fagnar stjórnin rökstuddum tillögum sem eru til þess fallnar að skapa umræðu um framtíðarskipan náttúruverndarmála hér á landi, þar með talið um stjórnunarþátt þeirra mála. Frv. það sem hér liggur fyrir er tvímælalaust virðingarvert framlag til þeirrar umræðu, enda horfa sumar þær breytingar sem þar er gert ráð fyrir vafalaust til bóta.
    Engu að síður verður að telja að athugasemdir megi gera við ýmsa þætti frv. sem og um endurskoðun náttúruverndarlaga almennt sem vissulega er þarft og brýnt verkefni.``
    Virðulegur forseti. Enn sakna ég frsm. meiri hluta umhvn. sem hefst lítið við í þingsalnum og bið forseta um að gera viðvart ef frsm. er í þinghúsi.
    ( Forseti (KE) : Forseti hefur nú þegar látið hv. þm. vita að hans sé óskað í þingsalinn og getur því miður ekki meira að gert.)
    Ég var þar kominn að vitna í umsögn stjórnar Ferðafélags Íslands.
    ,,Engu að síður verður að telja að athugasemdir megi gera við ýmsa þætti frv. sem og um endurskoðun náttúruverndarlaga almennt sem vissulega er þarft og brýnt verkefni.

Verður þá heldur ekki komist hjá því að benda á að í frv. þessu er að sjálfsögðu einungis stungið upp á einum kosti af fleirum sem vissulega koma sterklega til álita þegar ákvarða skal um framtíðarskipan þessara mála og vill félagsstjórnin í því sambandi leyfa sér að bera, til samanburðar og hliðsjónar, fram heildstæðar tillögur til nýrrar náttúruverndarlöggjafar þar sem haft er mið af þörfum tímans, sbr. nánar síðar.
    Áður en vikið verður að einstökum atriðum frv. skal tekið fram að eigi verður betur séð en að Náttúruverndarráð hafi á liðnum árum valdið hlutverki sínu með ágætum miðað við þær rýru fjárveitingar sem það hefur fengið til að sinna lögboðnum verkefnum sínum. Þau vandamál, sem ráðið hefur þurft að etja við, hafa eigi stafað af skorti á fullnægjandi innra stjórnunarskipulagi þess, heldur fyrst og fremst af fjárskorti til að ráða nægan mannafla til að sinna öllum þeim verkefnum sem að hafa kallað. Ekki verður séð að frv. það, sem hér er til umfjöllunar, geri ráð fyrir neinum úrbótum á fjárhagsvanda ráðsins.
    Þá er rétt að benda á, m.a. með hliðsjón af því sem var síðast sagt, að ekki er víst að svo brýna nauðsyn beri til að endurskoða þurfi stjórnunarþátt náttúruverndarmálanna að eigi megi jafnframt, þ.e. í sömu verklotu, vinna að almennri endurskoðun náttúruverndarlaganna, enda má benda á ýmsa þætti þeirra laga, aðra en stjórnunarþáttinn, sem þarfnast mjög endurbóta hið fyrsta, sbr. m.a. ákvæði laganna um aðgang almennings að náttúru landsins og varðandi umgengni manna um landið. Virðist því ýmislegt mæla með að náttúruverndarlögin verði nú þegar tekin til endurskoðunar í heild og þá m.a. hugað rækilega að stjórnunarþætti þeirra. Er mikilvægt að rökstudd afstaða verði m.a. tekin til þessa atriðis áður en ráðist verður í að breyta stjórnunarþætti laganna einum saman.
    Frv. gerir ráð fyrir því að stjórnunarsvið umhvrn. verði mun víðtækara en verið hefur til þessa sem mun m.a. leiða til stóraukinna daglegra afskipta ráðuneytisins af ýmiss konar ágreiningsefnum sem ætíð hljóta að rísa í samskiptum manna við stjórnvöld á þessu sviði, en um leið skapast hætta á því að gagnsemi ráðuneytisins sem áfrýjunarstjórnvalds skerðist frá því sem nú er (og almennt hefur verið um Stjórnarráð Íslands).
    Ýmislegt getur mælt með því að daglegur rekstur, svo sem eftirlit á friðlýstum svæðum, rekstur þjóðgarða og því um líkt, verði aðskilinn betur en nú er frá hinum eiginlegu stjórnunarstörfum Náttúruverndarráðs sjálfs eins og oft hafa komið fram hugmyndir um, m.a. frá ráðinu sjálfu, en af þeirri ástæðu ber þó ekki nauðsyn til þess að kljúfa núverandi starfsemi algerlega í tvennt og gera af tvær ríkisstofnanir. Þar verður m.a. alltaf hætt við ýmiss konar skörun verkefna milli þessara stofnana sem annars væri óþörf og síst af öllu horfir þessi nýbreytni til sparnaðar. Verði Landvörslu ríkisins komið á fót virðist margt mæla með því að hún verði undir stjórn Náttúruverndarráðs.``
    Virðulegur forseti, ég vek sérstaka athygli á þessu sem hér kemur fram frá stjórn Ferðafélags Íslands en núverandi forseti þess átti um sex ára skeið eða svo sæti í Náttúruverndarráði. Enn fremur segir:
    ,,Við nákvæma athugun einstakra ákvæða frumvarpsins kemur í ljós að mjög margar athugasemdir mætti gera við allar greinar þess og yrðu þá að sjálfsögðu ýmsar þeirra jákvæðar.
    Hér verður þó látið nægja að benda á eftirtalin atriði að sinni en almennt áréttað að mikilvægt er að frumvarpið fái nákvæma og ítarlega umfjöllun á Alþingi áður en það verður tekið til endanlegrar afgreiðslu þar.``
    Þetta læt ég nægja að tíunda hér úr þessu mjög svo gilda áliti frá stjórn Ferðafélags Íslands sem lætur fylgja heildstæða endurskoðun af sinni hálfu á frv. til laga um náttúruvernd. Er það alveg sérstaklega lofsvert framtak sem gæti gagnast þeim sem opnum huga vildu fara yfir þessi efni og endurskoða lögin og hlusta þá í leiðinni á tillögur sem koma frá öðrum aðilum.
    Landvernd veitti á síðasta þingi umsögn um það frv. sem þá lá fyrir á þremur þéttrituðum blaðsíðum. Landvernd og fulltrúar þeirra áhugasamtaka komu á fund umhvn. og gáfu jafnframt skriflega umsögn við núverandi frv. og liggur hún fyrir. Það er mjög gagnrýnin umsögn sem ég mun koma að lítillega síðar og er hér aðeins gripið niður í örfáar af fjölmörgum þeim umsögnum sem bárust á síðasta þingi. Má t.d. nefna athugasemdir frá

Landavarðafélagi Íslands við frv. sem eru mjög ítarlegar og gagnlegar en eiga eins og fleiri ekki nema að hluta við það frv. sem hér liggur fyrir.
    Sama er að segja um Samband ísl. sveitarfélaga sem gáfu ítarlega umsögn um frv. á síðasta þingi en veittu einnig umsögn um núverandi frv. sem liggur fyrir og er að finna sem fskj. með áliti minni hluti umhvn.
    Verkfræðingafélag Íslands gaf umsögn 11. apríl sl. við frv. og margt af því sem þar kemur fram er í fullu gildi varðandi það mál sem við ræðum. Ég leyfi mér því að grípa hér niður í umsögn Verkfræðingafélags Íslands sem undirrituð er af þremur fulltrúum, Sigurði Þórðarsyni, Guðrúnu Ólafsdóttur og Gísla Júlíussyni, ef ég man rétt, allt saman fólk sem hefur látið sig náttúruverndarmál varða og sumpart verið fulltrúar á náttúruverndarþingum enda sýnist mér að margt sé af hyggindum mælt í þessari umsögn sem ég gríp niður í, með leyfi forseta:
    ,,Með nýju lögunum er Náttúruverndarráði ætlað að vera óháður aðili en að okkar mati verður það ekki þar sem fjárráð þess eru mjög takmörkuð og algjörlega háð ríkisvaldinu. Leitað skal álits Náttúruverndarráðs um fjölmarga hluti án þess að fullkomlega sé tryggt að ráðið hafi fjárhagslegt bolmagn til þess. Ljóst er að einn starfsmaður sem er á launum hjá Náttúruverndarráði samkvæmt lögunum`` --- þetta á væntanlega að vera samkvæmt frv. --- ,,getur engan veginn annað þeirri umsagnarkvöð sem ráðið hefur. Við teljum að með nýju lögunum sé verið að veikja stöðu og starfsemi Náttúruverndarráðs en betra hefði verið að styrkja ráðið frekar frá því sem nú er. Stofnun nýrrar ríkisstofnunar og nýs Náttúruverndarráðs, eins og hér er lagt til, virðist ekki styrkja starfsemina eins og þörf er á. Víða í frumvarpinu eru reglugerðarákvæði sem gera lögin óljós meðan reglugerð liggur ekki fyrir og setur auk þess óeðlilega mikið vald til framkvæmdarvaldsins þar sem frekar ættu að vera skýr ákvæði í lögunum.``
    Síðar segir: ,,Í frumvarpinu er listi um þá aðila sem sæti skulu hafa á náttúruverndarþingi. Með samanburði við lista í núverandi lögum hafa ýmis félög og samtök, sem fulltrúa eiga nú á þinginu verið felld út.`` Þessi upptalning er felld niður í núverandi útgáfu og á því þessi ábending ekki beint við.
    Í lok umsagnar frá Verkfræðingafélagi Íslands segir: ,,Við teljum að betra hefði verið að láta fara fram heildarendurskoðun laganna en ekki eins og hér er gert með innskotsbreytingu á eldri lögum. Við endurskoðun er nauðsynleg nákvæm samræming við t.d. lög um mat á umhverfisáhrifum og sömuleiðis lög um mengun og mengunarvarnir. Slík samræming virðist ekki hafa verið gerð hér nema að nokkru leyti. Má þar t.d. nefna að ekki er talað beint um mengun í frumvarpinu en ljóst er að náttúruvernd og mengunarvarnir fara óhjákvæmilega saman. Einnig teljum við nauðsynlegt að Náttúruverndarráði sé skapaður betri fjárhagslegur grundvöllur til að starfa en gert er í frumvarpinu.``
    Frá náttúruverndarnefnd Eyjafjarðarsýslu barst umsögn 6. apríl 1994 og aðeins stutt tilvitnun í hana, með leyfi forseta: ,,Við teljum frumskilyrði að auka valddreifingu í náttúruvernd svo sem í öðrum þjóðfélagsmálum. Því erum við algjörlega mótfallnir þeim mikla tilflutningi á völdum sem felst í því að víða kemur orðið umhverfisráðherra í stað Náttúruverndarráðs. Í stað þess að auka völd ráðuneytisins á að auka virkni og völd þeirra sem eru næst vettvangi.``
    Þetta, virðulegur forseti, ætla ég að láta nægja sem fáein atriði sem gagnrýna frv. eins og það lá fyrir á síðasta þingi. Því miður gafst þeim aðilum sem ég var að vitna til mörgum hverjum ekki tækifæri til að fjalla um frv. í núverandi búningi og er það vissulega mjög miður.
    Ég mun þá, virðulegur forseti, víkja í framhaldinu að því frv. sem barst inn í þingið í byrjun nóvember á þessu þingi, þ.e. frv. sem við ræðum hér og sem er veruleg breyting frá frv. sem lá fyrir þingi síðast. Við þetta frv. hafa komið ýmsar umsagnir frá þeim þó fáu aðilum sem fengu kost á því að veita umsögn um frv. Ég vil fyrst af öllu, virðulegur forseti, vitna til umsagnar frá Náttúruverndarráði sem nú öðru sinni fjallaði um þetta mál og gagnrýnir í fylgibréfi þá málsmeðferð, sem ég hef oft vikið að að uppi var höfð af umhvn., að senda frv. aðeins takmörkuðum hópi. Í bréfi ráðsins sem undirritað er af Aðalheiði Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra og dags. 2. des. 1994, segir svo í fylgibréfi með áliti ráðsins, með leyfi forseta:
    ,,Vísað er til bréfs umhvn. dags. 24. nóv. sl. sem barst Náttúruverndarráði 1. des.
    Eins og fram kemur í bréfi umhvn. telur nefndin ekki ástæðu til að senda málið út til umsagnar að nýju þar sem frv. sé lítils háttar breytt frá fyrra frv. Náttúruverndarráð telur hins vegar að full ástæða hafi verið til þess að senda frv. til sérstakrar umsagnar Náttúruverndarráðs og annarra umsagnaraðila enda hafa verið gerðar grundvallarbreytingar á frv. Náttúruverndarráð lýsir jafnframt undrun sinni á vinnubrögðum umhvn. vegna máls þessa.``
    Eins og ég gat um hafði ég ekki aðstöðu til þess að hafa áhrif á þessa málsmeðferð þar sem ég sat ekki á þingi á þessum tíma. En ég hafði reynt að hafa áhrif á það óbeint að önnur meðferð yrði á höfð en ráðuneytið lagði áherslu á til að flýta málsmeðferð að senda málið aðeins völdum aðilum og kalla aðra í staðinn fyrir nefndina. En ráðrúm gafst ekki til þess nema að takmörkuðu leyti vegna þeirrar málsmeðferðar sem uppi var höfð í nefndinni undir lokin. En ég ætla að leyfa mér, virðulegur forseti, að vitna í nokkurn þátt í umsögn Náttúruverndarráðs, sem fjallaði um þetta mál á fundi sínum 1. des. og segir svo í upphafi:
    ,,Náttúruverndarráð hefur á fundi sínum 1. des. sl. fjallað um frv. til breytinga á lögum nr. 47/1971. Á bls. 9 í athugasemdum við lagafrv. kemur fram að frv. sé ,,endurflutt með nokkrum breytingum``. Eftir skoðun Náttúruverndarráðs verður ekki fallist á þetta því grundvallarbreytingar hafa verið gerðar á frv. því sem nú er lagt fyrir Alþingi miðað við frv. það sem lagt var fyrir 117. löggjafarþing.
    Æskilegt hefði verið að endurskoða alla löggjöf um umhverfismál, þar með talið lagareglur sem varða náttúruvernd, í heild sinni og taka mið af því sem nágrannaþjóðir Íslendinga hafa gert í þessum efnum. Auk þessa hefði þurft að endurskoða uppbyggingu allra þeirra stofnana sem með einum eða öðrum hætti fjalla um umhverfismál. Í stað þessa hefur verið valin sú leið að leggja til breytingar á löggjöf sem hentaði ágætlega á þeim tíma sem hún var sett. Jafnframt hefði verið ástæða til þess að endurskoða hlutverk þeirra stofnana sem heyra undir umhvrn.
    Náttúruverndarráð telur mikilvægt að nálgast náttúruverndarmál á jákvæðari hátt en gert er í frv. Meðal annars þykir nafnið Landvarsla ríkisins vera neikvætt og ekki til þess fallið að almenningur líti jákvæðum augum á stofnunina eða hlutverk hennar. Lagt er til að stofnuninni verði valið annað nafn og er stungið upp á eftirfarandi:
    1. Friðlönd ríkisins,
    2. Náttúruminjar Íslands og
    3. Þjóðgarðar Íslands.
    Í umfjöllun þeirri sem fer hér á eftir verður nafnið Þjóðgarðar Íslands notað.
    Í frv. virðist skorta nokkuð á skilning á margþættum tilgangi friðlýsinga og megináhersla lögð á þann þátt sem snertir ferðamenn og ferðamennsku. Tilgangur friðlýsinga er fyrst og fremst sá að vernda náttúrulegt umhverfi, vistkerfi og tegundir. Jafnframt eru friðlýst svæði mikilvæg til að tryggja almenningi aðgang að fjölbreyttri og fagurri náttúru. Það er ekki sjálfgefið að svæði sem mikilvægt er að friðlýsa sé áhugavert fyrir ferðamenn. Hagsmunir ferðamennsku og náttúruverndar fara ekki alltaf saman. Enn fremur er á það að líta að sum friðuð svæði og svæði sem ástæða kann að vera til að friða eru það viðkvæm að nauðsynlegt er að takmarka að einhverju leyti eða öllu aðgang að þeim, samanber reglur þær sem um Surtsey gilda. Einnig má benda á að ekki er með öllu ljóst hvaða stofnun á að gæta þess að svokallaður almannaréttur sé virtur en mikilvægt er að það sé tryggt.
    Verði frv. óbreytt að lögum verður hlutverk Náttúruverndarráðs sambærilegt við stöðu ýmissa frjálsra félagasamtaka sem um náttúruvernd fjalla. Þó verður sá munur á að félögunum verður mismunað því Náttúruverndarráði er ætlað fast fjárframlag úr ríkissjóði sem önnur frjáls félagasamtök á þessum vettvangi njóta ekki.``
    Síðan kemur upptalning á hlutverki Náttúruverndarráðs. Segir þar: ,,Samkvæmt gildandi lögum er hlutverk Náttúruverndarráðs í stórum dráttum að:

    1. móta stefnu og forgangsraða verkefnum (náttúruverndarþing),
    2. stuðla að almennri náttúruvernd í landinu,
    3. eiga frumkvæði að friðlýsingu náttúruminja og landsvæða,
    4. undirbúa friðlýsingu,
    5. sjá um framkvæmdir á friðlýstum svæðum,
    6. eftirlit með friðlýstum svæðum,
    7. veita leyfi vegna framkvæmda á friðlýstum svæðum,
    8. veita umsagnir vegna hönnunar stærri mannvirkja og vegna mats á umhverfisáhrifum,
    9. hafa eftirlit með mannvirkjagerð,
  10. veita fræðslu um náttúruverndarmál,
  11. vinna að gróðurvernd og eftirliti með ástandi gróðurs og
  12. undirbúa og gefa út náttúruminjaskrá.
    Ef frv. sem lagt var fram á 117. löggjafarþingi og það sem nú liggur fyrir Alþingi eru borin saman má sjá að verulegar breytingar hafa verið gerðar á hlutverki Náttúruverndarráðs. Samkvæmt frumvarpinu sem lagt var fyrir 117. löggjafarþing var hlutverk ráðsins í stórum dráttum að
    1. fjalla um stefnu stjórnvalda í náttúruverndarmálum og stefnu Náttúruverndarráðs (náttúruverndarþing),
    2. stuðla að almennri náttúruvernd í landinu og vera stjórnvöldum til ráðgjafar,
    3. gefa umsagnir um lagafrv. á sviði náttúruverndar,
    4. fjalla um lögbundið mat á umhverfisáhrifum,
    5. gera tillögur um friðlýsingar,
    6. fjalla um náttúruminjaskrá,
    7. hafa eftirlit með því að náttúru landsins sé ekki spillt og
    8. hafa eftirlit með mannvirkjagerð.
    Hlutverk Landvörslu ríkisins samkvæmt frumvarpinu sem lagt var fyrir 117. löggjafarþing var einkum að:
    1. undirbúa friðlýsingarmál (frumkvæði hjá umhvrn.),
    2. sjá um framkvæmdir á friðlýstum svæðum,
    3. sjá um rekstur friðlýstra svæða,
    4. veita leyfi vegna framkvæmda á friðlýstum svæðum og
    5. veita fræðslu um náttúruverndarmál.
    Samkvæmt frumvarpinu sem lagt hefur verið fram á 118. löggjafarþingi er nánast ekkert eftir af Náttúruverndarráði og er hlutverk þess að:
    1. stuðla að almennri náttúruvernd,
    2. fjalla um náttúruvernd og vera vettvangur frjálsra félagasamtaka, stofnana og fræðimanna (náttúruverndarþing),
    3. vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og m.a. gefa umsagnir um stjórnarfrv.,
    4. fjalla um náttúruminjaskrá (umhvrn. gefur skrána út)    og
    5. gera tillögur að friðlýsingu (heimild).
    Hlutverk Landvörslu ríkisins er samkvæmt frumvarpinu að:
    1. fylgjast með því að náttúru landsins sé ekki spillt,
    2. undirbúa friðlýsingarmál (frumkvæði er hjá umhvrn.)
    3. sjá um framkvæmdir á friðlýstum svæðum,
    4. sjá um rekstur friðlýstra svæða,
    5. veita leyfi vegna framkvæmda á friðlýstum svæðum,
    6. veita fræðslu um náttúruverndarmál í samráði við umhvrn. og
    7. hafa eftirlit með framkvæmdum.
    Ef miðað er við núgildandi lög hafa eftirfarandi þættir fallið niður:
    1. umsagnir vegna mats á umhverfisáhrifum,
    2. samráð við hönnun mannvirkja og
    3. samráðsvettvangur Náttúruverndarráðs við aðrar opinberar stofnanir (NASL og

SINO).
    Umhvrn. tekur samkvæmt frumvarpinu við:
    1. stefnumótun um náttúruvernd, framkvæmdir og fræðslu,
    2. gróðurverndarmálum,
    3. frumkvæði að friðlýsingum og
    4. útgáfu náttúruminjaskrár.
    Verði það niðurstaða umhvn. Alþingis að styðjast við frv. það til breytinga á lögum nr. 47/1971 sem nú hefur verið lagt fram gerir Náttúruverndarráð eftirfarandi athugasemdir við frv. Ef hins vegar umhvn. ákveður að endurskoða lög um umverfismál sem nú gilda á Íslandi, þar með talin náttúruverndarmál, þá vísar Náttúruverndarráð á afgreiðslur ráðsins frá síðasta náttúruverndarþingi.``
    Síðan eru taldar upp lið fyrir lið athugasemdir Náttúruverndarráðs á fjölmörgum blaðsíðum þar sem ráðið leggur til veigamiklar breytingar á frv. frá því sem fyrir liggur og í raun kveður þar nú við allt annan tón og liggur fyrir allt annað, víðtækara og gagnrýnna mat en Náttúruverndarráði gafst ráðrúm til að veita undir þrýstingi frá hæstv. ráðherra í byrjun desember 1993 varðandi það frv. sem lá fyrir á fyrra þingi. Fyrir utan það voru ýmsar veigamiklar breytingar gerðar sem ráðinu líst síður en svo á í sambandi við frv. Er skemmst frá að segja, af því að ég vil ekki vera að taka allt of mikinn tíma í að fara yfir þessar umsagnir og umsögnin frá Náttúruverndarráði fylgir áliti minni hluta umhvn. fyrir þá sem vilja kynna sér hana, virðulegur forseti, að þær tillögur sem liggja fyrir frá Náttúruverndarráði mundu breyta frv. í mörgum veigamiklum atriðum en meiri hluti umhvn. tekur ekki nema lítið af þeim tillögum í sínar brtt. sem liggja fyrir.
    Það ber vissulega að harma, virðulegur forseti, og er satt að segja með ólíkindum að umhvrh. skuli telja að viðhorf sem fæðst hafa innan veggja hans ráðuneytis séu gildari en viðhorf þeirra sem hafa verið að fást við þessi mál árum saman og helgað sig vinnu að þeim bæði sem áhugamenn og sem kjörnir fulltrúar í Náttúruverndarráði.
    Eins og ég sagði ætla ég ekki að fara í að fara yfir einstakar umsagnir í smáatriðum en ég tel mjög verðmætt að Náttúruverndarráð hefur lagt þessa miklu vinnu í að meta frv. og bera saman hvað er ætlað að falli undir hinar ýmsu stofnanir sem hér er verið að leggja til, hina nýju ríkisstofnun Landvörslu ríkisins, hvað eftir standi hjá Náttúruverndarráði og hvað það er sem ráðið tekur við.
    Vil ég þá víkja, virðulegur forseti, að öðrum atriðum sem komu fram við frv. Það bárust skriflegar athugasemdir frá nokkrum aðilum en ég ætla aðeins að víkja frekar að því sem fram kom í máli Páls Sigurðssonar sem kom tvívegis á fund nefndarinnar og lagði þar fram á nýjan leik þá umsögn sem Ferðafélag Íslands hafði komið á framfæri en bætti við ýmsum atriðum sem ég tel svo þýðingarmikil að nauðsynlegt sé að víkja að þeim hér sérstaklega. Á fundi nefndarinnar flutti forseti Ferðafélags Íslands með mjög skýrum hætti veigamikil rök fyrir því að ýmis ákvæði í frv. stönguðust beinlínis á við eðlilega stjórnsýslu. Hann sagði, m.a. samkvæmt minnispunktum sem ég skráði eftir honum og aðra skildi hann eftir skriflega, að varðandi meginstefnuna í frv. teldi hann ekki rétt staðið að málum, þ.e. að taka stjórnunarþáttinn einan út úr en láta önnur atriði standa óhreyfð. Þvert á móti hefði verið ástæða til að taka öll náttúruverndarlögin til heildarendurskoðunar. Hann benti á þá tillögu sem stjórn Ferðafélagsins gerir að nýjum lögum til þess að sýna að unnt sé að vinna að þessum málum öðruvísi og í það hafði stjórn Ferðafélagsins lagt mikla vinnu eins sú tillaga að frv. ber vott um sem stjórn félagsins vísaði til.
    Varðandi stjórnunina sérstaklega þá taldi forseti Ferðafélagsins að hæpið væri að draga undir ráðuneytið margvísleg stjórnunaratriði sem ættu að vera í stofnun á vegum ráðuneytisins. Með þessu væri verið að koma í veg fyrir hlutverk ráðuneytisins sem áfrýjunaraðila og þetta gengi í raun þvert á ákvæði stjórnsýslulaga. Af þessu er ástæða til að hafa áhyggjur.
    Forseti Ferðafélagsins lagði á það áherslu að hann teldi að það væri ekkert sem kallaði sérstaklega á það að fara að slá Náttúruverndarráð af í núverandi horfi og lagði áherslu á það að Ferðafélag Íslands hefði gott samstarf við ráðið á heildina litið og að ráðið hefði

almennt séð staðið sig mjög vel í sínu starfi og það væri síst af öllu brýn ástæða til að breyta stöðu þess en láta ýmislegt annað ógert í sambandi við endurskoðun á lögunum.
    Í skriflegri ábendingu sem barst umhvn. 16. des. frá Páli Sigurðssyni gefur hann síðan ábendingar um hvar sé að finna þau atriði sem hann hafi sérstakar áhyggjur af að því er stjórnsýsluþáttinn varðar, hvernig með óheppilegum og vafasömum hætti sé gert ráð fyrir ákvarðanatöku umhvrn. á frumstigi sem um leið skaðar í reynd möguleika á stjórnlegri kæru til ráðuneytisins. Það er ástæða til að minna aftur á það, virðulegur forseti, að hér talar prófessor í lögum við Háskóla Íslands sem gagnrýnir þetta frv. með þessum hætti.
    Í umsögn í áliti minni hluta umhvn. er að finna tilvísun í álit stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga sem er mjög harðorð í garð frv., sérstaklega að því er varðar náttúruverndarnefndir. Það ætti að vera dálítið umhugsunarefni fyrir meiri hlutann sem ber ábyrgð á þeim brtt. sem hér liggja fyrir að stjórn sem mælir fyrir heilt stjórnsýslustig, þ.e. sveitarstjórnir í landinu, skuli bregðast við með þessum hætti. En það nægði ekki til að hreyfa við þeim sem meiri hlutann mynda, ekkert var gert með þetta sjónarmið stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.
    Ég ætla þá, virðulegur forseti, að koma að nokkrum atriðum sem snúa að frv. almennt þó að þar mætti fara yfir margt lið fyrir lið og væri svo sem ástæða til þess. En ég vil benda á nokkra efnisþætti og í fyrsta lagi taka undir þau sjónarmið sem fram koma í mörgum af umsögnunum um frv., bæði frá umsagnaraðilum og þeim sem komu á fund nefnarinnar, hversu hæpið það er að vera að ráðast í endurskoðun á aðeins hluta af gildandi löggjöf og ætla að skilja mjög þýðingarmikla þætti eftir óendurskoðaða.
    Síðan vil ég nefna það sem er kannski uppistaðan í frv. hvað snertir stjórnsýsluþáttinn en það er sú stefna að leggja til að setja á fót nýja ríkisstofnun, Landvörslu ríkisins, og rímar það lítið saman við það sem uppi var haft af hálfu hæstv. umhvrh. á náttúruverndarþingi sem ég vitnaði til áður en á þeim tíma var ekki komin fram þessi snjalla lausn um Landvörslu ríkisins. Þá var meginatriðið að fella þessi mál undir ráðuneytið en það varð ekki niðurstaðan þegar tillögur komu síðan fram um endurskoðun á lögunum heldur það að setja á fót nýja ríkisstofnun sem tæki í raun við flestum verkefnum af Náttúruverndarráði.
    Ef litið er til aðstöðu þessarar ríkisstofnunar og þeirra sem eiga að stýra henni þá er svigrúmið til þess að fjalla um það í einhverri fjarlægð frá valdboði ráðuneytisins ekki ýkja mikið. Eins og menn sjá af frv. og tillögum meiri hlutans er sett yfir Landvörslu ríkisins þriggja manna stjórn og er formaður hennar sérstaklega skipaður af umhvrh. og raunar stjórnin öll og jafnmargir til vara og skipunartími á að fylgja skipunartíma ráðherra. Við það ákvæði að láta skipunartíma stjórnar fylgja starfstíma ráðherra geri ég út af fyrir sig ekki athugasemd og hef ég þá sérstaklega í huga formenn slíkra stjórna sem eru hugsaðir sem tengiliðir við viðkomandi ráðherra. En hér er gengið miklu lengra en algengt er í sambandi við yfirstjórn stofnana. Í stað þess að leita eftir tilnefningaraðilum þá ætlar ráðherra sér allan hlut í því máli að skipa stjórnina í heild og enn frekar að setja í reglugerð, eins og kveðið er á um í 4. gr. væntanlegra laga: ,,Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um hlutverk og starfsskyldur framkvæmdastjóra og stjórnar.`` Ráðherra sem ber þessa tillögu fram ætlar sér í rauninni allan hlut gagnvart þessari ríkisstofnun með mjög óvenjulegum hætti og færa undir þessa nýju ríkisstofnun, sem verður undir hans forsjá með þeim hætti sem kveðið er á um í frv., flest af verkefnum núverandi Náttúruverndarráðs.
    Það er kveðið á um verkefnin lið fyrir lið í sambandi við Landvörslu ríkisins og má gera margar athugasemdir við hvernig þar er haldið á máli. Þó að um sumt sé fyrst og fremst um að ræða endurtekningu á því sem er í gildandi lögum og fellur undir ráðuneytið þá er einnig aukið við nýjum atriðum. Það segir t.d. um Landvörslu ríkisins, með leyfi forseta:
    ,,Landvarsla ríkisins skal hafa forgöngu um fræðslu á svæðum í umsjón hennar, m.a. útgáfu á fræðsluefni um náttúrufar.
    Landvörslu ríkisins er heimilt að setja á stofn og reka gestastofur í þjóðgörðum og á öðrum náttúruverndarsvæðum eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Í gestastofu skal veita fræðslu um náttúru staðarins, jarðmyndanir og lífríki, fornleifar og aðrar þjóðminjar, reglur sem gilda um svæðið, náttúruvernd og sögu byggðar og landnýtingar. Heimilt er að taka gjald fyrir fræðsluefni og veitta þjónustu í gestastofu.``
    Hér er verið að innleiða, virðulegur forseti, heimild til gjaldtöku fyrir þjónustu í gestastofu og er margt talið upp í þessu. Hins vegar vantar í rauninni skilgreiningu á því hvað átt er við með ,,veitta þjónustu`` sem á að vera gjaldtökuhæf og er eitt af því sem er mjög óskýrt í þessum texta.
    Við hljótum líka að vekja athygli á því að um leið og Landvörslu ríkisins er ætlað að hafa forgöngu um fræðslu á svæðum í umsjón hennar, útgáfu á fræðsluefni og öðru þess háttar þá er þessu öllu ætlað að falla undir núverandi fjárlagaramma eins og sjá má af umsögn með frv. og með vísan í ræður hæstv. ráðherra þegar hann mælti fyrir frv. þá á þetta ekki að verða til neins teljandi kostnaðarauka heldur á starfsemin samkvæmt þessum lögum, bæði það sem varðar Náttúruverndarráð og Landvörsluna, að falla fjárhagslega undir þann kostnaðarramma sem Náttúruverndarráði er nú sniðinn.
    Varðandi Landvörsluna sérstaklega ætla ég að víkja, virðulegur forseti, að því sem snýr að náttúruverndarnefndunum sem er annar þáttur þessa máls. Þó er rétt, virðulegur forseti, að ég víki aðeins áður að væntanlegri 9. gr. frv. sem snýr að Landvörslunni. Þar segir:
    ,,Að fengnu áliti Landvörslu ríkisins getur umhvrh. með samningum falið öðrum umsjón náttúruminja og friðlýstra svæða, að þjóðgörðum undanskildum, t.d. sveitarfélögum, ferðafélögum, áhugasamtökum um náttúruvernd og einstaklingum. Í samningum skal kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila hvað varðar umsjón með svæði, mannvirkjagerð þar og aðrar framkvæmdir, landvörslu og menntun starfsmanna, móttöku ferðamanna og fræðslu og þjónustugjöld. Um ráðstöfun þjónustugjalda fer skv. 3. mgr. 17. gr.
    Eftirlit með framkvæmd slíkra samninga er á hendi Landvörslu ríkisins.``
    Hér er verið að gera ráð fyrir mjög víðtækri heimild til þess að fela öðrum umsjón náttúruminja og friðlýstra svæða. Manni býður í grun að þetta sé eitt af því sem hæstv. ráðherra ætlar til sparnaðar í sambandi við meðferð þessara mála. Nú getur það vissulega komið til greina og hefur verið tíðkað að leita sér samninga við aðila um eftirlit með svæðum og umsjá svæða og vissulega getur það komið til greina. Hins vegar skiptir afar miklu máli að þar sé samræmis gætt og að sá aðili sem á að hafa eftirlit með höndum geti rækt það eftirlit þannig að ekki rekist þar hvað á annars horn í málsmeðferð. Ég hef af því nokkrar áhyggjur hvernig á þessu máli verði haldið. Óskað var eftir því í umhvn. að fá frá umhvrn. sérstaka greinargerð um það efni hvernig ráðuneytið hygðist standa að þessum málum, en hún barst ekki þrátt fyrir óskir þar að lútandi og verður að telja það miður að svo var ekki. Ráðuneytið var hins vegar að koma með brtt. alltaf öðru hvoru inn í nefndina og setja fram sjónarmið og um viss atriði fékk nefndin ábendingar á síðasta stigi frá umhvrn. sem ég mun koma að nokkru síðar.
    En þá að náttúruverndarnefndunum skv. 10. gr. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Á vegum hvers sveitarfélags eða héraðsnefndar skal starfa þriggja til sjö manna náttúruverndarnefnd. Sveitarstjórnir og héraðsnefndir ákveða fjölda nefndarmanna og kjósa þá til fjögurra ára í senn og ákveða formann. Varamenn skulu kosnir jafnmargir til sama tíma.
    Náttúruverndarnefndir hafa það hlutverk að stuðla að náttúruvernd hver á sínu svæði, m.a. með ábendingum og tillögugerð til sveitarstjórna, umhvrn., Landvörslu ríkisins og Náttúruverndarráðs.``
    Má segja að hér sé kannski ekki að formi til stórfelld breyting á því sem verið hefur að öðru leyti en því að ekki er kveðið á um hlutverk nefndanna með útfærðum hætti og látið nægja að vísa til þess að hlutverk þeirra sé að stuðla að náttúruvernd hver á sínu svæði með ábendingum til þar til nefndra aðila. Ég held að þetta sé einn af stóru veikleikunum í frv., að ganga ekki öðruvísi frá málum. Að því er vikið í áliti minni hluta nefndarinnar og svo ég segi mína skoðun á þessu þá hefði ég talið að það ætti að skilgreina sem skýrast umdæmið fyrir náttúruverndarnefndir, t.d. að miða umdæmi þeirra við

kjördæmi. Þá er ég að sjálfsögðu ekki að tala um náttúruverndarnefndir sem nú starfa á vegum sveitarfélaga eða héraðsnefnda heldur að kjósa sérstaklega náttúruverndarnefndir í vel skilgreindum umdæmum sem gjarnan mættu falla að starfssvæðum náttúrustofa sem nú hafa byrjað starfsemi sína og að þær fengju ákveðin hlutverk og meiri en hér er að stefnt. Í því sambandi vísa ég til þeirra mörgu ábendinga og gagnrýnisradda sem finna má í umsögnum um frv., að gert sé of lítið af því að fela aðilum heima fyrir, sem tengjast svæðunum, skilgreind verkefni samkvæmt lögunum.
    Það eru mistök að mínu mati að vera að blanda umhverfisnefndum sveitarfélaga í þessa löggjöf. Ég tel að það eigi að vera verkefni sveitarfélaganna að ákvarða um slíkt og kjósa slíkar nefndir að sjálfsögðu, en ég tel að það væri mun betur fallið að hafa umdæmi náttúruverndarnefnda sem störfuðu samkvæmt löggjöf um náttúruvernd stærri og vel skilgreind og hlutverkin skýrt afmörkuð. Það væri vissulega vel til fundið að á þeim svæðum sem náttúruverndarnefndir starfa, t.d. í kjördæmum landsins, væri kvatt til þinga árlega eða með einhverju tilteknu millibili til þess að fara yfir náttúruverndarmál á viðkomandi svæði og efla þar með frumkvæði og hlut heimamanna í þessum málum.
    Í þessu sambandi er vert að minna á það að samkvæmt gildandi lögum er ríkinu ætlað að standa straum af kostnaði við framkvæmd laganna þar á meðal við störf náttúruverndarnefnda. Nú kann að vera að í reynd hafi ekki mikið reynt á þau ákvæði en þarna er hins vegar verið að létta af ríkinu þessari kvöð að því er náttúruverndarnefndirnar varðar og gert ráð fyrir því að kostnaður af störfum þeirra sé borinn uppi af sveitarstjórnum, hverri fyrir sig eða þeim sem kjósa náttúruverndarnefnd á vegum héraðsnefnda ef þær sameinast um slíkt. Enn má minna á það að fjárveitingaramminn sem ráðherra og ríkisstjórn hafa markað um þessa lagabreytingu er hinn sami og verið hefur þannig að ekki er gert ráð fyrir kostnaðarauka.
    Ég ætla hér, virðulegur forseti, ekki að víkja að mörgum fleiri atriðum sem snerta náttúruverndarnefndir en tel óhjákvæmilegt að koma inn á verkefni og valdsvið Náttúruverndarráðs sem eftir situr samkvæmt þeim tillögum sem hér eru mótaðar og liggja fyrir við 2. umr. málsins. Það er gert ráð fyrir því að náttúruverndarþing sem komi saman annað hvert ár, kjósi Náttúruverndarráð sem skipað skal sjö mönnum og jafnmörgum varamönnum. Eins og fram kemur í væntanlegri 12. gr. laga undir k-lið í yfirliti með nál. meiri hluta umhvn. þá segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Náttúruverndarráð hefur skrifstofu og ræður framkvæmdastjóra til að veita henni forstöðu og aðra starfsmenn eftir því sem þurfa þykir.
    Ríkissjóður greiðir laun framkvæmdastjóra og veitir enn fremur framlag til reksturs skrifstofu eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Ríkissjóður greiðir einnig fasta þóknun til ráðsmanna fyrir setu í Náttúruverndarráði.``
    Þó að þessi ákvæði geti út af fyrir sig heimilað fjárveitingavaldinu að skammta rúmar en þarna er vikið að varðandi tiltekin verkefni sjá það allir sem þekkja til, ekki síst með tilliti til þess sem segir í umsögn um frv. frá fjmrn., að hér er ekki gert ráð fyrir miklum umsvifum að því er snertir Náttúruverndarráð. Hlutverk ráðsins er líka, eins og fram er dregið í umsögn Náttúruverndarráðs við frv., orðið harla léttvægt og kallar kannski ekki á mikið fjármagn. Þó dreg ég mjög í efa að það fjármagn sem þó er gert ráð fyrir samkvæmt tillögunum að gangi til Náttúruverndarráðs nægi til þess að standa undir eðlilegri starfsemi miðað við þann ramma sem dreginn er um starfsemi ráðsins.
     (Forseti (SalÞ) : Forseti vill aðeins skjóta hér inn orði og spyrja hv. þm. hvort hann eigi eftir mikið af ræðu sinni þar sem gert hafði verið ráð fyrir að gera hlé milli sjö og hálfníu í kvöld. Óskar hann eftir að ljúka henni eða fresta henni?)
    Virðulegur forseti. Ég er staddur í yfirferð yfir frv. og á eftir allverulegan þátt sem snýr að frv. þannig að ég mundi kjósa að gera hlé á máli mínu og taka þráðinn upp þegar fundi er fram haldið. --- Vill forseti að ég geri hlé núna? Það skal gert, virðulegur forseti.
[Fundarhlé. --- 19:01]
    Virðulegur forseti. Ég var þar kominn í máli mínu við að fjalla um frv. sem hér er

til umræðu þar sem fjallað er um hlutverk Náttúruverndarráðs, væntanlegri 13. gr. frv. Í athugasemdum mínum styðst ég við fskj. II með nál. frá meiri hluta umhvn. þar sem lögin um náttúruvernd með breytingu samkvæmt frv. og brtt. meiri hluta umhvn. eru prentuð og breytingar eru skáletraðar. Þetta segi ég til skýringar, virðulegi forseti, þannig að ekki fari milli mála við hvaða texta ég styðst. Ég hef áður talað um að það sé jákvætt að fá þannig heildaryfirlit yfir tillögurnar eins og þær liggja fyrir og mætti verða til eftirbreytni í málum þar sem svo mikið er um brtt.
    Í 13. gr. er fjallað um hlutverk Náttúruverndarráðs og það sýnist vera heldur rýrt þannig að ýmsir hafa varpað fram spurningu um hvort ástæða sé til að viðhalda þessu kerfi og viðhalda Náttúruverndarráði ef það yrði ofan á að setja á fót aðra ríkisstofnun, Landvörslu ríkisins eins og hún er kölluð í þessu frv. Eitt af því sem lagt er á Náttúruverndarráð samkvæmt tillögum meiri hlutans er að veita umsögn um öll stjfrv. á sviði náttúruverndar áður en þau eru lögð fram á Alþingi svo og umsögn við setningu reglugerðar um náttúruvernd. Þó að ég hafi ekki á móti því að þannig sé haldið á máli að leitað sé eftir áliti Náttúruverndarráðs þá vekur það óneitanlega nokkra athygli að það skuli vera lögboðið með þessum hætti sem leggur þá ríkisstjórnum á herðar að leita eftir áliti ráðsins á öllum stjfrv. á sviði náttúruverndar áður en þau eru lögð fram á Alþingi. Mér sýnist þetta vísa til þess að Náttúruverndarráð fái þarna umsagnarrétt um stjfrv. væntanlega eftir að þingflokkar hafa um þau fjallað og áður en frv. er fullbúið lagt fyrir þingið án þess að ég vilji taka ómakið af þeim sem eiga að útfæra þetta mál. En þetta getur vissulega haft nokkur áhrif og væntanlega til bóta þannig að efnislega hef ég ekki á móti þessu en vek aðeins athygli á að þetta er nýstárlegt fyrirmæli og jafngott að við það verði staðið í reynd en upp kunna auðvitað að koma ýmis markamál um það hvað eru stjfrv. á sviði náttúruverndar. Eins og við vitum þá teygir sig náttúruvernd, ég tala ekki um ef um umhverfisvernd er að ræða, býsna víða og væri þá ástæða til að túlka þetta ákvæði rúmt ef að lögum verður.
    Í lok 13. gr. er ákvæði sem mér finnst vera dálítið sérstætt að ætla að lögbjóða ráði undir stjórn umhvrn. þar sem segir orðrétt í lok 13. gr.:
    ,,Náttúruverndarráð og umhvrh. hafa fund með sér tvisvar á ári eða oftar ef þurfa þykir um stefnu og ákvarðanir stjórnvalda er varða náttúruvernd.``
    Hér er fast að kveðið í þessum efnum um að ráðherra skuli eiga fund með Náttúruverndarráði tvívegis á ári eða oftar. Þetta er einnig allnýstárlegt í löggjöf að kveða svo á um en þykir kannski ástæða til. Ég er ekki að segja að þetta sé neitt til að andæfa á móti sérstaklega en manni finnst það kannski vera sjálfsagðir hlutir að það ætti að mega koma svona starfsháttum við án þess að kveðið sé á um það í lögum.
    Þetta minnir hins vegar á það, virðulegi forseti, að hér er afskaplega fátæklegt í þingsal af þeim sem bera þetta mál fram sem hér er rætt. Hvorki hæstv. ráðherra né frsm. meiri hluta nefndarinnar hafa sýnt sig enn sem komið er. Ég óska eftir því eindregið, virðulegur forseti, að þeir komi í þingsalinn svo að ég sé ekki að tala hér yfir tómum bekkjum fyrir utan hv. . . .


    ( Forseti (SalÞ) : Báðir tilgreindir aðilar eru í húsi og hér birtist nú hv. 11. þm. Reykn. og hæstv. umhvrh. er einnig í húsinu svo væntanlega kemur hann fljótlega.)
    Mætti ég biðja um, virðulegi forseti, að það verði gerð boð eftir ráðherranum, að óskað sé eftir nærveru hans í þingsal? En ég ætla síður en svo að vanmeta það að á mál mitt hefur hlýtt frá því að ég hóf það á nýjan leik hv. 15. þm. Reykv. og er að því verulegur stuðningur fyrir utan nærveru hæstv. forseta.
    Þetta voru þessi tvö atriði í 13. gr. sem mér fannst vera nokkuð sérstök og ég vildi vekja athygli á.
    Í 14. gr. er kveðið á um að Náttúruverndarráð skuli annast vörslu friðlýsingarsjóðs og raunar að tilnefna formann þriggja manna stjórnar þar sem einn á að vera frá Náttúruverndarráði, einn frá Landvörslu ríkisins tilnefndur og sá þriðji tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, allir þrír skipaðir af umhvrh. til tveggja ára að loknu náttúruverndarþingi. Það er kannski það gildasta sem Náttúruverndarráð er sett yfir fyrir utan að mega gera tillögur og veita umsagnir um eitt og annað að forvalta þennan friðlýsingarsjóð. Það getur verið ágætt að ráðið hafi þar ítök með þessum hætti og hér hefur orðið sú bót á ráði frá því sem áður var, sýnist mér, að vísað er til skipulagsskrár þjóðhátíðarsjóðs en ekki er hins vegar að því vikið í tillögunum hver fari með þessar skipulagsskrár, þ.e. hver breyti henni. Mér er það ekki í minni hvort það er tekið fram í skránni sjálfri en samkvæmt greininni er hæstv. ráðherra ætlað að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsemi friðlýsingarsjóðs. E.t.v. á að skilja það svo að gert sé ráð fyrir að ráðherrann geti breytt skipulagsskránni en þetta finnst mér svolítið óljóst eftir uppsetningunni og vek athygli frsm. meiri hluta umhvn. á þessu atriði.
    Í 15. gr. frv. eins og það er sett upp til glöggvunar í fskj. II er vikið að gróðurvernd. Þar hafa svo sem ekki önnur tíðindi orðið en þau að umhvrn. skal ásamt Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins sinna þessum þáttum. Þar segir, virðulegi forseti, það er kannski rétt samhengis vegna að ég lesi ákvæði greinarinnar, með leyfi forseta:
    ,,Umhvrn. skal ásamt Landgræðslu ríkisins vinna að gróðurvernd og hafa eftirlit með ástandi gróðurs. Getur ráðuneytið falið gróðurverndarnefndum slíkt eftirlit.
    Umhvrn. skal ásamt Skógrækt ríkisins vinna að verndun og eftirliti með náttúrulegum birkiskógum og skógum til útivistar.
    Umhvrh. getur í samráði við landbrh. ákveðið friðunar- og uppgræðsluaðgerðir á sviði gróður- og skógverndar skv. 1. og 2. mgr.``
    Hér er sem sagt umhvrn. sett inn í staðinn fyrir Náttúruverndarráð en þegar umhvrn. var sett á stofn 1990 var gerð breyting á lögunum um náttúruvernd og þessi veiki vísir að íhlutunarrétti umhvrn. um gróðurverndarmál settur inn. Hann hefur að engu leyti styrkst við þessa breytingu sem hér er lögð til. Það er í rauninni allt að öðru leyti óbreytt og hefur nánast næsta lítið orðið úr því sem núv. hæstv. umhvrh., ef ég man rétt, ætlaði sér þegar hann tók við starfi að færa út áhrif ráðuneytisins á þessu sviði sérstaklega og bjó sig undir reipdrátt við hæstv. landbrh. um þessi mál. Svo virðist sem hæstv. umhvrh. hafi orðið nokkuð léttur á toginu og ekki halað neitt inn til umhvrn. að þessu leyti en ég vil taka það fram að ég hefði stutt hæstv. ráðherra ef míns liðsinnis hefði verið óskað eða ég getað lagt því eitthvert lið því að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að almennt eftirlit með gróðurríki, með gróðri landsins sem auðlind eigi að falla undir umhvrn. og umhvrh. en síðan verði byggt á landnotaskipulagi um það hvernig háttað er nýtingu gróðursins sem auðlindar, m.a. með skipulagsákvörðun um það hvar skuli vera landbúnaðarsvæði með beitarréttindum fyrir þá sem standa fyrir beit, þ.e. bændur, en almenna eftirlitið sé í höndum umhvrn.
    Þetta er því miður ekki tilfellið samkvæmt þessum tillögum og hér sú undarlega staða uppi, að mér finnst, að ráðuneytið er sett í jafnstöðu við stofnanir undir landbrn. en ekki að það sé landbrn. sem umhvrn. eigi samstarf við, sé hinn formlegi aðili, heldur er beinlínis vísað til stofnana á vegum landbrn. Það finnst mér skjóta mjög skökku við og hefur vissulega verið vakin athygli á þessu af fleirum en mér. M.a. minnir mig að að þessu sé vikið í ábendingum frá Páli Sigurðssyni lögmanni og fleiri hafa að þessu vikið og þetta kom til umræðu í nefndinni án þess að á þvíhafi verið gerðar breytingar. Hér er sú sérkennilega skipan, sem er óbreytt að ég hygg frá gildandi lögum, þar sem segir: ,,Getur ráðuneytið falið gróðurverndarnefndum slíkt eftirlit.``
    Nú er það svo að gróðurverndarnefndir eru starfandi samkvæmt lögum um landgræðslu frá 1965 og þau lög heyra undir landbrn. Lögin um landgræðslu og gróðurverndarnefndirnar heyra undir landgræðsluna og í útvíkkuðu formi undir yfirstjórn landbrn. svo að mér finnst þetta vera nokkuð kynleg lagasetning sem raunar á rætur í lögunum um breytingu á Stjórnarráðinu og þeim breytingum sem voru gerðar með stofnun umhvrn. 1990. Á þessu vek ég athygli, virðulegur forseti, og ég hefði ekki viljað standa að þessu svona og væri ekkert á móti því að ábyrgðaraðilar þessa máls skýrðu það hvernig þeim dettur í hug að gera slíkar tillögur eins og þessa. Er ég þá ekki að tala um stóra málið, sem sagt

að setja gróðurverndarþáttinn í mun ríkara mæli undir umhvrn. eins og ástæða væri til.
    Athugasemd mín sem snýr að stofnuninni Landgræðsla ríkisins á jafnframt við um Skógrækt ríkisins sem er gerð þarna að jafnstöðuaðila við umhvrn. Síðan segir í síðustu málsgreininni að umhvrh. geti í samráði við landbrh. ákveðið friðunar- og uppgræðsluaðgerðir á sviði gróður- og skógverndar. Þetta er líka bastarður frá 1990 að ég held og ekki átta ég mig á því hvort umhvrh. getur í rauninni boðið þetta og ákvæðið í samráði við sé aðeins hægt að túlka sem formsatriði. Trúlega er það á hinn veginn að þetta þurfi að vera samþykki beggja án þess að ég viti um hvernig á þessu máli hefur verið haldið en mér er næst að halda að það hafi afskaplega lítið gerst í krafti þessara ákvæða hér umfram það sem í gangi var þegar umhvrn. var stofnað, þ.e. þetta nefndakerfi sem kallað er NASL og er samstarfsnefnd Náttúruverndarráðs, Landgræðslu, Skógræktar og líklega, ég man ekki hvort Rannsóknastofnun landbúnaðarins fylgdi þar með en það er önnur saga.
    Það er áhyggjuefni að ekki hefur gengið betur í þessu máli en raun ber vitni og ég minnist þess að um það leyti sem núv. hæstv. umhvrh. var að taka við ráðuneytinu hafði hann uppi talsvert ákveðin orð um það að hann mundi leggja í þá glímu við landbrn. að ná þarna einhverjum áhrifum og við sjáum hver er niðurstaðan ef marka má þær tillögur sem hér liggja fyrir.
    Virðulegi forseti. Þá er kaflinn um greiðslu kostnaðar af framkvæmd laganna eftir því sem fé er til þess veitt á fjárlögum. Það er ríkissjóður sem á að annast það. Nú var það svo að í gildandi löggjöf er þetta svipað en þar mátti túlka það svo að kostnaður við starfsemi náttúruverndarnefnda féll á ríkið en ég sé ekki að tekið sé á því máli í 10. gr. um náttúruverndarnefndirnar. Það virðist því standa opið þó að ég hafi heyrt hina túlkunina, að kostnaðurinn við náttúruverndarnefndirnar eigi að greiðast af viðkomandi sveitarfélögum. Ég vek athygli á þessu. Það kann að vera að mér hafi missýnst og þessu sé einhvers staðar fyrir komið þannig að tryggt sé. En öryggisins vegna, samkvæmt varúðarreglu, kem ég þessu á framfæri.
    Þá kemur 17. gr. sem hefur að geyma allþýðingarmikil ákvæði en skv. 2. mgr. hennar er umhvrh. heimilt að fenginni tillögu Landvörslunnar að ákveða tímabundið gjald fyrir aðgang að náttúruverndarsvæðum. Heimild þessi nær þó aðeins til svæða þar sem spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum. Þetta er nýmæli í löggjöf að ætla með þessum hætti að lögbjóða slíka heimild um gjaldtöku eins og hér er gert ráð fyrir.
    Ég er, virðulegi forseti, að líta á skýringar í upphaflegu frv. varðandi þetta efni og leyfi mér að vísa til þess sem stendur á bls. 14 í grg. með frv. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í nýrri 16. gr. verður umhvrh. heimilt, að fengnum tillögum Landvörslu ríkisins, að ákveða gjald fyrir veitta þjónustu í þjóðgörðum og friðlöndum. Heimild þessi er þó bundin því skilyrði að vel sé skilgreint hverju sinni hvað verið er að greiða fyrir. Jafnframt verður ráðherra heimilt skv. 1. mgr. nýrrar 16. gr. að ákveða tímabundið gjald fyrir aðgang að náttúruverndarsvæðum, að fenginni umsögn Landvörslu ríkisins, ef spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna á slíku svæði eða hætta er á spjöllum. Skv. 3. mgr. skal sú almenna regla gilda að tekjum skuli varið til eftirlits eða framkvæmda á sama svæði og þeirra er aflað.``
    Svo segir áfram í skýringunni og er um mjög mikilvægt atriði að ræða, tel ég vera, virðulegi forseti:
    ,,Ferðamenn þurfa nú víða að greiða fyrir veitta þjónustu á friðlýstum svæðum og nægir þar að nefna greiðslu fyrir tjaldstæði og aðgang að hreinlætisaðstöðu. Slík gjöld eru t.d. innheimt í þjóðgörðunum, sem eru ríkisreknir, og á svæðum þar sem ferðafélög hafa komið upp aðstöðu fyrir ferðamenn. Gjaldtaka þessi er ekki nema að litlu leyti samræmd og í sumum tilfellum hafa gjöld verið hærri en nauðsyn krafði til að standa straum af kostnaði.``
    Þetta er dálítið sérkennilegt orðalag í þessari skýringu og erfitt að vita hvað við er átt. Það hefði verið betra að tala skýrt í þessum efnum þar sem verið er að vísa til þessa.

Síðan segir í skýringunni:
    ,,Eðlilegt er að tekjum sé varið til framkvæmda og rekstrar á sama svæði og þær eru innheimtar en fyrir því er engin trygging nú. Áhöld hafa einnig verið um hvort heimild er fyrir þeirri gjaldtöku sem tíðkast hefur. Í ljósi þessa þykir rétt að setja í lög skýr ákvæði um gjaldtöku í þjóðgörðum, friðlöndum og á öðrum náttúruverndarsvæðum. Rétt þykir að heimila sérstaka gjaldtöku á svæðum þar sem spjöll hafa orðið eða hætta er á spjöllum. Tilgangur slíkrar gjaldtöku er að draga úr aðsókn, sérstaklega stórra hópa ferðamanna og til að afla fjár til forvarna.``
    Þetta er dálítið merkileg samsetning, virðulegur forseti, og dálítið erfitt að átta sig á því hvernig eigi að útfæra þetta og í rauninni hvert sé markmiðið með þessu. Í lagatextanum sjálfum segi í lok 2. mgr.: ,,Heimild þessi nær þó aðeins til svæða þar sem spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum.``
    Hér koma upp mörg túlkunaratriði og mörg matsatriðin og ég óskaði eftir því í umhvn. að fá um það skýringar hvernig á þessu yrði haldið og hvernig ráðuneytið túlkaði þessi ákvæði. Við því fengust engin svör áður en málinu var svipt út úr nefndinni af meiri hluta. Er það mjög miður því ef svo fer að þetta frv. verði að lögum hefði verið betra fyrir þann sem á að taka við þessum samsetningi --- fyrirgefið orðbragðið, taka við þessari afurð að hafa hugmynd um hvaða hugsun liggur þarna að baki eitthvað skýrar en er að finna í grg. sjálfri og með þessu opna orðalagi sjálfs lagatextans. Það væri ekkert úr vegi að hæstv. umhvrh. og e.t.v. hinn orðvari og orðfái frsm. meiri hluta umhvn. veitti þingheimi þá úrlausn og rausn að segja eitthvað um þetta efni sem gæti orðið til skýringar á þessum allþokukenndu ákvæðum að því er varðar gjaldtöku.
    Hér er verið að innleiða í rauninni alveg nýja siði með þessu, þ.e. með því að fara að selja aðgang. Fyrir þjónustu hafa menn tekið gjöld og að því er vikið að þörf geti verið á því að afla til þess skýrari lagaheimildar en verið hefur. Ekki ætla ég að hafa á móti því og engar athugasemdir geri ég við það að heimild sé til gjaldtöku fyrir skilgreinda þjónustu sem veitt er og eðlilegt getur talist að taka fyrir gjald, svo sem vegna dvalar á tjaldsvæði og er það kannski fyrst og fremst það sem hefur verið í reynd. Ég tel að það beri að fara mjög varlega samt með þessa þætti varðandi gjaldtöku af þjónustu þó geta þar legið fyrir eðlileg atriði og eitt af því er t.d. sala á rituðu máli í einhverju umfangi umfram almennar upplýsingar sem er ekki rétt að fara að selja sem eru til að fyrirbyggja náttúruspjöll og greiða götu ferðamanna á náttúruverndarsvæðum. Ef um er að ræða einhver gildari ritverk þá er ekkert óeðlilegt að þau séu seld eins og hverjar aðrar bókmenntir.
    En þetta með aðganginn að náttúruverndarsvæðunum og gjaldtöku þar. Í fyrsta lagi tel ég að það verði ekki mikill gróðavegur, ef það er hugsunin að einhverju leyti, að fara að selja aðgang að náttúruverndarsvæðum. Ef maður reynir að átta sig á hvernig á verði haldið, hver hugmyndin sé í þessu efni þá hlýtur það að verða með þeim hætti, svo ég taki nú eitt það svæði sem ég þekki hvað best sem er þjóðgarðurinn í Skaftafelli, ég sé ekki að þeir séu undanþegnir gjaldtöku, að væntanlega verði á þjóðgarðsmörkum, þar sem nú er hlið eða merki, sett upp innheimta á aðgangi að þjóðgarðinum, því það er það sem verið er að tala um, og öllum gert að kaupa sig þar inn. Þetta er alveg nýtt hérlendis. Ég hef orðið var við slíkan aðgangseyri erlendis. Ég man bæði eftir því vestan hafs og í þjóðgarði í Afríku að verða fyrir því að þurfa að greiða smáupphæð í aðgangseyri þannig að málið er ekki óþekkt erlendis frá en varðandi náttúruverndarsvæði þar sem ekki er mikil aðsókn þá held ég að gjaldtakan verði mjög kostnaðarsöm í raun og frekar útgjaldaefni en tekjuliður vegna kostnaðar við innheimtuna. Álitaefnin eru því mörg í sambandi við þetta.
    Síðan er það þetta stóra matsatriði sem varðar stjórnun, þ.e. aðgangseyri sem fyrirbyggjandi aðgerð, einhvers konar náttúruverndaraðgerð sem gert er ráð fyrir sbr. orðalagið ,,nær þó aðeins til svæða þar sem spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum.`` Það er það. Hætta á að ferðamenn valdi spjöllum. Þetta er afskaplega stórt grátt svæði, eins og stundum er sagt, óljóst hvernig með skuli farið.
    Það er til orðið jarðvöðull, virðulegur forseti, í íslensku máli ef ég man rétt, jarðvöðull, þessi og hinn sé jarðvöðull. Þá eru það væntanlega slíkir jarðvöðlar sem þarf að

girða fyrir að mæti þarna. En þó hygg ég nú að . . .  ( Gripið fram í: Látinn borga.) Látinn borga mikið. En þó hygg ég nú svona í fullri alvöru mælt að þarna hafi menn í huga slit á landi almennt séð, slit á gangstígum sem lagðir eru o.s.frv. og hugsi sér að fara að setja upp aðgangseyri til að draga úr aðsókn eins og segir í skýringunni því að það er beinlínis vikið að því að tilgangur slíkrar gjaldtöku --- þar sem spjöll hafa orðið eða hætta er á spjöllum --- tilgangur slíkrar gjaldtöku sé að draga úr aðsókn, sérstaklega stórra hópa ferðamanna og til að afla fjár til forvarna. Það er hvort tveggja samkvæmt því. Þá fer þetta nú að verða talsvert gjald áreiðanlega ef þetta á að virka þannig að þetta dragi úr aðsókn, talsverð upphæð grunar mig eða a.m.k. eitthvað sem viðkomandi telur sig muna um að greiða og þá er farið svona að. Þá kemur álitaefnið að því er varðar mismunun miðað við gjaldþol hjá fólki.
    Síðan er í 3. mgr. 17. gr. atriði sem var talsvert umræðuefni í umhvn. og ég sé mig tilknúinn til að víkja að hér sem er sú almenna regla að tekjunum skuli varið til eftirlits, lagfæringar eða uppbyggingar á sama svæði og þeirra er aflað. Þetta var t.d. forseta Ferðafélags Íslands tilefni til mikillar brýningar á fundi umhvn. en þangað kom forseti Ferðafélagsins á fund 15. des. sl. og hafði af þessu miklar áhyggjur vegna þess hvernig Ferðafélag Íslands hefur hagað sinni gjaldtöku en þeir eru með rekstur sem kunnugt er inni á náttúruverndarsvæðum allvíða, uppbygging sem varð hér fyrr á öldinni þegar menn höfðu ekki sýn til þess að varast það sem má teljast eðlilegt, varast það að setja niður dvalaraðstöðu á viðkvæmum náttúruminjum inni á verndarsvæðunum sjálfum. Forseti Ferðafélagsins orðaði það eitthvað á þá leið í nefndinni að frá fyrsta degi muni það valda miklum ágreiningi, þetta snúi mjög að Ferðafélagi Íslands og deildum þess en Ferðafélagið rekur 30--40 skála í óbyggðum og tekur fyrir gistigjald og gjald fyrir svefnpokapláss og kostar mikið fé að sögn forseta Ferðafélagsins að halda við þessum skálum. Þessu tengist net gönguleiða og gönguskála sem komið hefur verið upp sem mjög er notað og er vinsælt og Páll Sigurðsson sagði fyrir nefndinni, ég held að ég hafi það nokkurn veginn orðrétt: ,,Fari aðrir að ráðskast með þessa gjaldtöku er hætt við tjóni fyrir Ferðafélag Íslands og deildir þess.`` Hann vísaði til þess að Ferðafélag Akureyrar hefur sent nefndinni erindi um þetta og hann tók eindregið undir sjónarmið Akureyringanna og taldi að það yrði að skýra þetta í tengslum við b-lið 2. gr. frv. ef ég hef náð að skrá það rétt niður sem er breyting á 16. gr. náttúruverndarlaga og þetta snýr auðvitað sérstaklega að skálum innan friðlanda Náttúruverndarráðs, þar sem Ferðafélagið rekur skála innan friðlanda Náttúruverndarráðs. Forseti Ferðafélagsins taldi að þarna væri verið að vinna í þágu almennings í rekstri félagsins og þeir hafa ekki viljað í Ferðafélaginu lúta ákvörðun annarra varðandi þessa gjaldtöku og ekki miða sinn rekstur við hagnaðarsjónarmið eins og hann komst að orði, held ég.
    Ég tel nauðsynlegt að koma þessum aðvörunarorðum og ábendingum á framfæri við þingið hvað þetta snertir og það er þá fyrst og fremst þetta sem snýr að tekjum á sama svæði og þeirra er aflað og ég hafði haldið að það væri í huga meiri hluta umhvn. eða nefndarinnar í heild því að um skeið var það svo að við væntum þess að geta staðið sameiginlega að brtt. um þetta frv. áður en fór í verra og hljóp í baklásinn hjá meiri hlutanum og varaformaður nefndarinnar fór að sýna tilþrif öllum að óvörum og svipti málinu út úr nefndinni, gerði hana ómynduga að því er varðaði frekari málafylgju um þetta mál. Það má segja að varaformaðurinn hafi bara tekið upp vöndinn, sópað þessu öllu út úr nefnd hér inn í þingsali án þess að reynt væri að ná samkomulagi um nokkurn hlut. Á það reyndi ekki neitt. Ég held að það hafi ekki verið farsælt skref. Þó að það geti verið gott að hafa góða vendi og taka til eftir sig öðru hvoru þá er ekki sama hvernig þeim er beitt.
    Nú erum við búnir að missa hæstv. ráðherra, virðulegur forseti, sem ber talsverða ábyrgð á málafylgju frsm. og varaformanns umhvn. að ég held. Það þykir mér heldur lakara og vona að það standi ekki lengi.
    Umrædd umsögn Ferðafélags Akureyrar sem ég nefndi hér tekur einmitt á þessu efni sem varðar 17. gr. og ég leyfi mér að vitna til þessarar umsagnar sem er frá 11. des. 1994, þ.e. við frv. það sem lagt var fram í haust. Þar segir, með leyfi forseta, í framhaldi af því

að sagt er að stjórn Ferðafélags Akureyrar hefur fjallað um frv. og vill í því sambandi beina eftirfarandi til hv. umhvn. Alþingis:
    ,,Í 5. gr. frv. segir m.a. að Landvarsla ríkisins geti falið öðrum aðilum umsjón náttúruminja og friðlýstra svæða. Þar segir enn fremur að í samningum skuli kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila hvað varðar umsjón með viðkomandi svæði, mannvirkjagerð þar og aðrar framkvæmdir, móttöku ferðamanna og fræðslu og ráðstöfun tekna af gjaldtöku ef hún er leyfð og ákveðin samkvæmt 18. gr. laganna. Í 18. gr. frv. er fjallað um gjald fyrir veitta þjónustu í þjóðgörðum og friðlöndum. Segir þar m.a. að um ráðstöfun tekna sem aflað er skuli gilda sú almenna regla að tekjunum skuli varið til eftirlits, lagfæringar eða uppbyggingar á sama svæði og þeirra er aflað.`` Síðan segir: ,,Í athugasemdum við frv. er fjallað nánar um einstakar greinar þess. Þar segir m.a. um 5. gr. frv. að gert sé ráð fyrir að Landvarsla ríkisins feli öðrum, svo sem sveitarfélögum, ferðafélögum, einstaklingum og fleiri í ríkum mæli að annast framkvæmdir og rekstur á svæðum í umsjón Landvörslu ríkisins, t.d. á friðlýstum svæðum. Í athugasemdum við 18. gr. frv. er síðan fullyrt að gjaldtaka fyrir veitta þjónustu á friðlýstum svæðum sé ekki nema að litlu leyti samræmd og í sumum tilfellum hafa gjöld verið hærri en nauðsyn hefur verið til að standa straum af kostnaði.``
    Þetta er ákvæði, það er innskot mitt, sem ég vék að og er að finna þarna á bls. 14 í frv. sjálfu og skýringum við það. Síðan segir í umsögn Akureyringa:
    ,,Þeir sem samið hafa athugasemdirnar við frv. rökstyðja ofangreinda ásökun ekkert nánar.`` --- Ég vek athygli á orðalaginu, ,,ásökun``, þeir taka þetta beint til sín sem þarna er. ---,,Ferðafélag Akureyrar hefur hins vegar ástæðu til að ætla að hér sé átt við gjöld fyrir þjónustu eins og gistingu í skála (skálagjöld eða tjaldgjöld) og viðdvöl að degi til með afnotum af salerni og eldhúsi eða daggjöld á friðlýstum svæðum eins og í Herðubreiðarfriðlandi. Ferðafélag Akureyrar afneitar því með öllu að skálagjöld, tjaldgjöld og daggjöld hafi verið ónauðsynlega há í Herðubreiðarlindum. Ferðafélag Akureyrar hefur í samvinnu við Náttúruverndarráð séð um landvörslu og þjónustu við ferðafólk í Herðubreiðarfriðlandi allt frá 1973. Allan þann tíma hefur verið fullkomlega útilokað að láta reksturinn standa undir sér. Á þessu hefur og verið fullur skilningur til skamms tíma hjá Náttúruverndarráði sem hefur í öll þessi ár greitt verulegan hluta kostnaðar við landvörsluna í Herðubreiðarfriðlandi.
    Þegar sjálfboðavinna félaga Ferðafélags Akureyrar er reiknuð með eðlilegu verði kemur í ljós að Ferðafélag Akureyrar hefur tapað frá kr. 150 þús. til 600 þús. á ári nú undanfarið vegna rekstrar Herðubreiðarlinda. Sjálfboðavinna hefur hins vegar stundum gert Ferðafélagi Akureyrar kleift að nota tekjuafgang úr Herðubreiðarlindum til að byggja upp aðstöðu fyrir ferðafólk víðar á Ódáðahraunssvæðinu. Nægir hér að nefna byggingu skála við Bræðrafell 1977 og í Dyngjufjalladal 1993. Þessi uppbygging þjónar m.a því hlutverki að dreifa umferð fólks á Ódáðahraunssvæðinu frá viðkvæmum stöðum eins og Herðubreiðarlindum. Þannig hefur Ferðafélag Akureyrar notað fé úr Herðubreiðarfriðlandi til að vernda friðlandið sjálft með uppbyggingu þjónustu utan marka friðlandsins.``
    Í lok umsagnarinnar segir, með leyfi forseta, og sér nú lítið til hæstv. ráðherra: ,,Stjórn Ferðafélags Akureyrar varar eindregið við þeirri hugsun sem fram virðist koma í 18. gr. þessa frv. og athugasemdum við hana að landvarsla og rekstur friðlýstra hálendissvæða sé gróðavænleg atvinnugrein sem ferðafélögin hafi hagnast óeðlilega á undanfarin ár. Þvert á móti vonast Ferðafélag Akureyrar eftir farsælu samstarfi við Landvörslu ríkisins ef af stofnun hennar verður líkt og verið hefur um samstarf Ferðafélags Akureyrar og Náttúruverndarráðs í Herðubreiðarfriðlandi undanfarna áratugi. Með vinsemd og virðingu, fyrir hönd Ferðafélags Akureyrar, Sigurður Jónsson formaður.``
    Þetta er atriði sem mér finnst að hafi ekki fengið eðlilega umfjöllun og hefði ekki verið úr vegi að frsm. meiri hluta umhvn. hefði af náð sinni og lítillæti sagt þingheimi eitthvað um skilning meiri hluta nefndarinnar á þessari grein í heild sinni, en því miður, sjálfsagt af einhverjum gildum en fyrir mig lítt skiljanlegum ástæðum sá frsm. meiri hluta nefndarinnar ekki ástæðu til að yrða á þingheim nema í 3--4 mínútur ef ég hef talið rétt

í framsöguerindi fyrir þessu ágæta dagskrármáli. Það ber að harma en verður væntanlega úr bætt síðar í þessari umræðu skulum við ætla því annað væri auðvitað algert hirðuleysi og gáleysi vegna þess gildis sem framsaga hefur fyrir nefndarálitum gagnvart túlkun laga.
    Ég ætla þá, virðulegur forseti, þó að ástæða væri til að dvelja lengur við þessa grein, að víkja að öðrum atriðum og kem þá að kafla sem varðar aðgang almennings að náttúru landsins og umgengni. Þar er ekki um stórbreytingar að ræða en hefur þó verið gripið inn í nokkrar greinar og þá fyrst og fremst í þá veru sem síðar er að setja inn umhvrh. fyrir Náttúruverndarráð og Landvörslu ríkisins í stað Náttúruverndarráðs eða til viðbótar við Náttúruverndarráð því að mjög víða í lögunum kemur upp þetta að í stað þess að við höfum haft eina ríkisstofnun, þ.e. Náttúruverndarráð, þá eru búnar til tvær. Það sem átti að einfalda hefur farið eins og í ævintýrinu um tréð fyrir utan kóngshöllina og þið munið eftir, karlssoninn sem fór að reyna að ná verðlaununum frá kóngi sem hét því að ef einhver megnaði að höggva tré sem tók af birtuna í höllinni þá fengi hann kóngsdótturina og ekkert minna og jafnvel ríkið líka. Gott ef þetta er ekki í ævintýrinu um Tuma þumal án þess að ég þori að sverja fyrir það án heimilda, virðulegi forseti. En eins og menn muna þá spreyttu sig margir á þessu áður en Tumi þumall kom að verki og það fór á þá leið að fyrir hverja eina grein sem höggvin var spruttu tvær. Þannig hefur farið fyrir hæstv. umhvrh. við þennan gjörning og aðstoðarmenn hans í meiri hluta umhvn. ( Gripið fram í: Og er hann þó enginn Tumi þumall.) Er hann þó enginn Tumi þumall, segir utan úr sal. Það hafa sprottið tvær ríkislimar á þennan meið og því er síðan fylgt eftir með viðauka í frv. í fjölmörgum greinum þar sem þau hlaupa hvor á eftir annarri, Landvarsla ríkisins og Náttúruverndarráð.
    Það sem er fyrir utan þetta --- þykir mér miður, virðulegur forseti, ef við erum búin að tapa alveg af hæstv. umhvrh. og hefði óskað eftir því, virðulegur forseti, að það yrði borin fram vinsamleg ósk við hann að koma í þingsal. Þetta er mál sem hann hefur nokkuð um vélað og þó ég líti svo til að frsm. og meiri hluti sem ber fram frv. við 2. umr. sé ábyrgðaraðili þess þá er það nú svo að ráðherrar vilja oft gera sig nokkuð gildandi um meðferð mála sem þeir hafa lagt fyrir þingið. Því undrast ég það nokkuð að hæstv. ráðherra er jafnkvikur og raun ber vitni á þessum degi og hefst varla við í þingsalnum. Er þess ekki að vænta, virðulegur forseti, að ráðherra komi í sal?
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti telur að hæstv. ráðherra sé hér til hliðar til að fylgjast með umræðunum.)
    Hæstv. ráðherra hefur ekki sést í hliðarherbergjum, ekki svo ég hafi numið. Ber hann þá fyrir á hægri hönd.
    Í 20. gr. er hins vegar að finna brtt. frá gildandi lögum varðandi akstur utan vega. Þetta ákvæði er svohljóðandi:
    ,,Umhvrh. skal setja reglugerð um akstur utan vega, umferð hesta, umgengni í óbyggðum, merkingu bílslóða og vega og leyfilegan öxulþunga vélknúinna ökutækja sem fara um óbyggð svæði. Þar sem hætta er á náttúruspjöllum er akstur utan vega og merktra slóða óheimill.``
    Hljóp hér aldeilis á snærið fyrir umhvrn. ef þessi ákvæði verða lögleidd þegar umhvrh. stendur í því, því að hann er sérstaklega tilgreindur en engin stofnun á vegum ráðuneytisins, að setja reglugerð um það sem þarna er kveðið á. Umferð hesta og umgengni í óbyggðum er út af fyrir sig eðlilegt verkefni en merking bílslóða og vega er almennt og óskilgreint. Er þetta þá greinilega tekið úr höndum þeirra sem um hafa vélað fram að þessu. En þetta mun hafa verið á vegum dómsmrn. að einhverju leyti í sambandi við umferðarlög að ég held og Vegagerðar ríkisins að einhverjum hluta að því er varðar merkingar. En hér er þetta sett undir umhvrh. Og leyfilegur öxulþungi vélknúinna ökutækja sem fara um óbyggð svæði. Vaknar þá spurningin bæði um það hversu víðtækt ákvæðið er, hvort þetta sé allt frá kerrum sem um er að ræða, vafalaust eru þarna traktorar, og hvað séu óbyggð svæði í skilningi þessa texta. Er það allt utan túns t.d., svo maður hafi þetta frekar velviljaða túlkun því að þegar út fyrir túnið er komið í dreifbýli er komið á óbyggð svæði. Er hér allnokkuð til umhugsunar fyrir frsm. meiri hluta umhvn. og verkefni að skýra

fyrir þingheimi hvernig með skuli farið því að ég er ekki alveg viss um að þetta hafi komið fyrir í texta og framsögu frsm. meiri hluta nefndarinnar í dag sem fór fram milli kl. 14.03 til kl.14.07 eða svo, rúmt talið.
    Hæstv. ráðherra kann e.t.v. eitthvað að skýra þennan texta og þessi splunkunýju verkefni sem þarna eru komin á hendur ráðuneytisins.
    Að öðru leyti er ekki mikið nýtt í þessum greinum og t.d. er alveg fram hjá því hlaupið sem hefði kannski verið verkefni og ég er síður en svo að gera lítið úr 20. gr. varðandi aksturinn. Það er auðvitað mjög verðugt mál við að fást en hefði mátt hönduglegar til takast og sérstaklega hefði það verið ánægjulegt með tilliti til þess að fyrir daga hæstv. umhvrh. í Alþfl., áður en hann smeygði sér þar inn um þrönga rifu, kom flokkurinn að þessu máli og tók að sér nefndarskipun á grundvelli ályktunar Alþingis frá líklega 1987 sem vísað var til dómsmrh. Var ályktun um það að tekið skyldi nú á og skýrð ákvæði og hert varðandi akstur utan vega. Þá setti þáv. dómsmrh. Jón Sigurðsson, nú bankastjóri í Helskini, á laggirnar í nefnd og fól þáv. alþm. Árna Gunnarssyni að leiða nefndina sem tók að sér þetta verkefni. Hún vann af krafti í hálfan mánuð en þá var botninn dottinn úr formanninum. Síðan fylgdu, virðulegur forseti, fyrirspurnir á Alþingi bornar fram af öðrum en mér í tvígang a.m.k. til að spyrja um örlög þessarar nefndar. Jafnoft voru höfð uppi fyrirheit um að að hún mundi vasklega skila af sér að fáum vikum liðnum frá því að fyrirspurn var fram borin en ekki gekk rófan og aldrei kom neitt út úr nefndinni. Þessi viðleitni af minni hálfu til þess að fá þetta mál skýrt varð að engu og tel ég þetta mál vera mjög á ábyrgð Alþfl. sem skipaði nefndina og átti formann nefndarinnar sem var þingmaður á þeim tíma. Satt að segja er hörmulegt til að vita þegar farið er þannig með vilja þingsins eins og þarna sannaðist og hér hefur ekki tekist enn, finnst mér, sem skyldi að reka slyðruorðið af Alþfl. eftir þessa málsmeðferð sem ég nefni hér að gefnu tilefni. ( PBald: Þú hefur væntanlega ekki áhyggjur af því.) Það var eitthvað annað, virðulegur forseti. Það eru einmitt áhyggjur sem ég hef verið að rekja því að ég er að mæla hér í mikilli alvöru um þetta efni og er þá sama hver það er sem hleypur undan merkjum að því er varðar að framfylgja vilja Alþingis.
    Önnur er sú grein sem ekki er breytt efnislega nema við er aukið orðinu ,,Landvörslu ríkisins`` á eftir Náttúruverndarráði til samræmis við það að tvennt skuli vera ætíð tíundað í staðinn fyrir eitt áður og það er 24. gr. um malarnám, sandnám, grjótnám, gjallnám og vikurnám. Man ég þó ekki betur en hæstv. umhvrh. hafi stundum brýnt raustina í þeim efnum og heitið miklum tilþrifum til þess að koma við lagabótum í þessu máli en þeirra sér ekki stað í þessum tillögum, því miður. Þau þröngu ákvæði og rúmu fyrir landeigendur og eigendur malarnáms sem lögleidd voru 1971 eftir óhæfilegan þrýsting, að mínu mati, hagsmunaaðila á þingheim 1971 og hef ég þá fyrir því frásögn ekki ómerkari manns en Eysteins heitins Jónssonar sem stóð fyrir þeirri löggjöf sem formaður í menntmn. þingsins á þeim tíma og undirbjó grunn þeirra laga sem hér er verið að breyta og hafa reynst endingargóð. En í upphaflegum tillögum menntmn. á þeim tíma voru ákvæðin mun strangari frá sjónarhóli náttúruverndar og hefði sannarlega verið þörf á að koma þar við breytingum í því efni.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að reyna að spá í það sem ekki hefur verið gerð tilraun til. Það er sýnilegt að það hefur ekki verið áhugi á því að glíma við það verk í tengslum við þetta en þetta er eitt af því sem varðar þá meinbugi að vera að grauta í þessum lögum án þess að taka þau til endurskoðunar í heild svo sem betur hefði orðið eins og lagt var upp með af Eiði Guðnasyni eftir því sem ég skildi hans skipunarbréf í þeirri nefnd sem sett var í að endurskoða þessa löggjöf snemma árs 1992 ef ég man rétt.
    Þá vík ég, virðulegur forseti, að kafla sem miklu varðar sem er kaflinn um friðlýsingu náttúruminja og stofnun útivistarsvæða. Ég kom nokkuð að þessu efni þegar ég var að fjalla um málflutning hæstv. umhvrh. á náttúruverndarþingi haustið 1993 en þá hafði hæstv. ráðherra uppi mikil frýjunarorð í því efni og hafði mikið undir um áætlanir varðandi friðlýsingar. Mátti af því lesa harða gagnrýni á þá sem áður gengu um garða í þessum málum og þá ekki síst Náttúruverndarráð en svo liggur það nú fyrir að uppskeran eftir starfstíma hæstv. ráðherra er ekki ýkja mikil og verður tæpast á hans kontor skrifaðar til tekna þær fjóru friðlýsingar sem fram hafa gengið á hans starfstíma og Náttúruverndarráð hefur undirbúið.
    En það var ekki það efni sem ég ætla að ræða hér heldur efni þeirra brtt. sem hér eru fram bornar og þá það sem endurspeglast hér grein eftir grein eftir grein í þessum kafla að umhvrh. er settur í það hlutverk sem Náttúruverndarráð var í áður: að gerast frumkvæðisaðili varðandi friðlýsingar. Eins og menn vita er það verkefni samkvæmt gildandi lögum á hendi Náttúruverndarráðs en ráðuneytinu ætlað að ganga frá friðlýsingu með formlegum hætti og auðvitað bannar enginn umhvrh. að gildandi lögum fremur en öðrum að hafa forgöngu um og hvetja til friðlýsinga en hér er um mikla stefnubreytingu að ræða í lagatexa sem endurspeglast í þessu.
    Ég hef þegar getið þess og endurtek það, virðulegi forseti, að ég tel þetta óvænlega stefnu og óttast það að með því að gera stofnanir ráðuneytisins sem eiga að fjalla um framkvæmd mála á þessu sviði og eftirlitið að einhverju leyti nánast ómyndugar og setja þær í hlutverk umsagnaraðila, því lítið lengra gengur það, jú og rekstraraðila að vísu þar sem Landvarslan er þegar kemur að rekstri svæðanna, sé ekki líklegt til þess að skila þeim árangri sem að er stefnt. Við höfum fengið sýnishorn af þessu bæði í hugmyndum hæstv. ráðherra og eins í fram bornum þingmálum sem hafa verið skelfilega hroðvirknislega unnin sum hver og hef ég þá m.a. í huga hugmyndirnar um friðlýsingu Breiðafjarðar sem efnislega eru góðra gjalda verðar en er mjög kastað til hendi og virðist sem sá sem þar hefur um vélað hafi ekki hugmynd um að til sé stofnun sem heitir Skipulag ríkisins og löggjöf sem kveður á um skipulagsmál.
    Þetta er ekki farsælt. Þessu getur einnig fylgt, sem ekkert er ólíklegt, að metnaðarfullir umhvrh. rjúki upp til handa og fóta í byrjun starfsferils síns og taki til við að safna í afrekaskrána, hvetja til friðlýsingar hér og friðlýsingar þar. Allt getur það verið af góðum hug, ekki ætla ég að draga úr því. En ég er ekki viss um að það sé farsælt að ganga þannig til verka því að það þarf að fara bæði af vandvirkni, varfærni og gætni til þess að ná árangri í þessum málum og samkomulagi við þá fjölmörgu sem í hlut eiga. Það þjónar litlum tilgangi að vera með tillögugerð í formi fyrirsagna ef ekki er gætt að undirbúningi og að plægja akurinn eins og þarf til þess að ná árangri í þessum efnum.
    Það er þetta sem ég hef í huga þegar ég vara við þessari stefnu í löggjöf. Það gerði ég einnig við 1. umr. þessa máls, bæði í ár og í fyrra ef ég man rétt. Ég held að þetta sé óvenjulega að staðið miðað við löggjöf nágrannalandanna. Án þess að ég hafi farið djúpt ofan í þá hluti held ég að ekki sé mikið um þetta. Að vísu má í norskri löggjöf víða sjá að kóngurinn gerir þetta og hitt en það er almennt þak á aðgerðum norskra stjórnvalda. Ég held að þó að hæstv. núv. umhvrh. sé gildur maður sé ekki rétt samt að fara af þeim sökum að setja þetta í löggjöf út frá hlutverki kónga í grannlöndum enda ekki víst að hæstv. ráðherra hafi haft það sem fyrirmynd.
    Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að í 37. gr. frv. er komið svohljóðandi nýmæli, með leyfi forseta:
    ,,Ákveði umhvrh. friðlýsingu og liggi ekki þegar fyrir samþykki eiganda, annarra rétthafa eða sveitarfélags þess sem hlut á að máli, skal Landvarsla ríkisins semja tillögu um friðlýsinguna.``
    Síðan á að senda hana landeigendum sem geta komið fram með athugasemdir, mótmæli og gert bótakröfur til Landvörslunnar. Þá er Landvarslan aftur komin að sögunni. En hér sýnist mér verið að bregðast við þessu meginákvæði í löggjöfinni að umhvrh., þessi mikli frumkvæðisaðili friðlýsingarmála, getur ákveðið friðlýsingu án þess að í rauninni liggi nokkuð fyrir, sé búið að vinna málið. Auðvitað getur það verið hugsanlegt að menn grípi til nauðvarnar, þ.e. yfirvald umhverfismála grípi til nauðvarnar til þess að stöðva eitthvað sem að þess mati ekki horfir til rétts vegar en þá er fjölmargt annað tiltækt en friðlýsing. Og ég efast um að það sé slík nauðvörn sem hér er á ferðinni skv. ákvæði 37. gr. Þarna eru menn að fara inn á braut sem mér líst ekki vel á.
    Síðan er það varðandi ýmsa aðra þætti sem snúa að þessu máli sem setur stofnanir undir ráðuneytinu, Náttúruverndarráð, Landvörslu ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands í þetta aukahlutverk og á vissum stöðum koma þessar þrjár stofnanir við sögu þannig að það lítur út fyrir að það sé bara ein þeirra sem þurfi að segja eitthvað um málið og ráðherrann geti plokkað úr hver komi við sögu. Svo ég finni þessu stað er t.d. í 28. gr. vikið að því að umhvrh. geti friðlýst sérstæðar náttúrumyndanir ef telja verður mikilvægt að varðveita þær sakir fræðilegs gildis eða þess að þær eru fagrar eða sérkennilegar að mati Náttúruverndarráðs, Landvörslu ríkisins eða Náttúrufræðistofnunar Íslands, einhver þessara þriggja. Svona er uppsetningu mála eins og hún er í þessum kafla víðar háttað.
    Ég, virðulegi forseti, vakti athygli á því í þingnefnd að mér fyndist vera álitaefni hvort ætti að lögbjóða íhlutun Náttúrufræðistofnunar Íslands sérstaklega í sambandi við friðlýsingarmál. Það er nýmæli í þessu. Mér finnst ekki sérstök efni til þess út frá löggjöfinni um Náttúrufræðistofnun Íslands sem ég átti hlut að að móta á sínum tíma í stjórnskipaðri nefnd. Þó ég vilji veg Náttúrufræðistofnunar Íslands mikinn og telji að þar hafi tekist vel til í sambandi við aukið starfssvið hennar og skiptingu í setur o.s.frv., þá er mér til efs hvort lögbjóða eigi hlutverk Náttúrufræðistofnunar í lögum um náttúruvernd. Það segir sig sjálft að mönnum finnst að sú gilda stofnun sem safnar upplýsingum um náttúru landsins hljóti að vera mjög þýðingarmikill ráðgjafi með beinum og alveg sérstaklega óbeinum hætti og upplýsingabanki fyrir stjórnvald náttúruverndarmála til þess að sækja í rökstuðning, vitneskju og upplýsingar að því er varðar undirbyggingu tillögugerðar um friðlýsingar m.a. sem og á öðrum sviðum.
    Kveðið er á um þetta bæði í 28. og 29. gr. og raunar víðar ef allt er talið, virðulegur forseti. Náttúrufræðistofnunin kemur einnig að framkvæmd friðlýsingar í 35. gr. þannig að þetta kemur fram á allnokkrum stöðum.
    Svo að ég víki að 30. gr. sérstaklega sem varðar friðlönd og friðlýsingu undir merki friðlanda er einnig vikið að Náttúrufræðistofnun Íslands sé ég er. Ég hafði ekki nefnt það, en þar segir í lokin:
    ,,Umhvrh. getur að fenginni umsögn Landvörslu ríkisins veitt undanþágu frá settum fyrirmælum í friðlýsingu, ef ástæður eru fyrir hendi.``
    Þarna er þetta sett í hendur ráðherra að veita undanþágu frá settum fyrirmælum og aðeins talað um umsögn Landvörslunnar. Mér er ekki alveg ljóst hvernig þetta er hugsað, þ.e. af hverju ekki er gert ráð fyrir tillögu Landvörslunnar og staðfestingu umhvrh. sem mér hefði jafnvel fundist skynsamlegri leið í sambandi við þetta. Auðvitað getur þurft á því að halda við vissar aðstæður að einhverjar undanþágur þurfi að gera frá fyrirmælum í friðlýsingu en mér sýnist að það gæti verið betra að koma því fyrir með dálítið öðrum hætti.
    Þá er ég, virðulegi forseti, kominn alla leið að 31. gr. sem varðar ekkert minna en þjóðgarða. Þar er nú aldeilis um að ræða ákvæði sem þarf aðeins að fjalla um og veit ég að hv. frsm. meiri hluta umhvn. tekur það niður sem henni býður í sambandi við mínar ábendingar. En það segir hér, og það er nýmælið, að ég tel, með leyfi forseta:
    ,,Þjóðgarðar skulu að jafnaði vera í ríkiseign, nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli umhvrn. og landeigenda.``
    Hér er á ferðinni alveg nýtt ákvæði í íslenskri löggjöf sem opnar það að hægt sé að lýsa svæðið þjóðgarð þó í einkaeign sé. Þetta hefur, veit ég, komið til umræðu á fyrri stigum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, m.a. í Náttúruverndarráði. Ég minnist þess frá þeim tíma sem ég átti þar sæti að þessi mál bar á góma. En aldrei fyrr hefur það orðið að niðurstöðu að leggja fram tillögu um breytingu á þeirri kröfu til þjóðgarðs að um sé að ræða ríkiseign á landi. Ég hef verið að athuga það, virðulegur forseti, hvernig þessu er háttað í grannlöndum okkar sem mér finnst ekkert óeðlilegt að við lítum til því að margt er skylt í þeirra málsmeðferð þó ekki vilji ég fara að taka gagnrýnislaust upp eftir þeim lagaákvæðin, svo ekki sé farið sunnar í álfu en Alþfl. hefur séð fyrir því að drjúgur hluti af íslenskri löggjöf er pantaður þaðan og Alþingi Íslendinga má engum vörnum við koma nema segja nei og fá á sig svipuna fyrir. En í löggjöf grannlandanna er ekki að finna ákvæði af þeim toga sem hér er lýst. Ég vísa til Stórþingsskýrslu nr. 62 frá 1991--1992,

,,Ny landsplan for nasjonalparker og andre større verneområder i Norge``, sem er mjög upplýsandi rit um bæði ákvæði varðandi þjóðgarða og auk þess sem þar eru hugmyndir um útfærslu og nýja þjóðgarða. Þar er tekið fram alveg sérstaklega að ekki sé horfið frá þeirri meginstefnu að þjóðgarðar skuli vera ríkiseign.
    Það segir á bls. 7 í þessari Stórþingsskýrslu, sem ég leyfi mér að kalla svo því að þeir hafa þetta ágæta form, sem mér finnst að mörgu leyti til fyrirmyndar, að stjórnvald leggur mál í skýrsluformi fyrir þing og þingnefnd fjallar um og ályktar. Þetta er geysilegur upplýsingabanki og minnir mig á það, virðulegur forseti, að einu sinni var ég hinum megin, þ.e. stjórnarráðsmegin í þessum málum og reyndi að kom ýmsu á framfæri við þingið en það var ekki alltaf tekið mjög vel upp. Man ég jafnvel eftir umkvörtunum yfir því að Alþingi Íslendinga fékk upplýsingar í formi skýrslna ofan úr ráðuneyti. En ég hef ekki farið ofan af því, það sannfærði mig um að það mætti gjarnan meira af gera en minna í þeim efnum gagnvart þinginu og ég hef alltaf tekið því vel þegar ráðherrar leggja fyrir upplýsingar og hugmyndir í því formi fyrir þingið, en hins vegar vantar farveginn fyrir meðhöndlunina sem norska Stórþingið hefur í sínum störfum sem er mjög til eftirbreytni að mér sýnist.
    Það segir á bls. 7 í Stórþingsskýrslunni:
    ,,Gildandi lög gefa ekki tilefni til að koma á fót þjóðgörðum á þessum svæðum.`` Í aðdraganda þess segir að nokkrir þjóðgarðar sem gerðar eru tillögur um í landsáætlun eða samkvæmt landsskipulagi liggi að öllu leyti eða að hluta á einkalandi. Síðan segir að gildandi lög gefi ekki tilefni til að koma á fót þjóðgörðum á þessum svæðum og að ríkisstjórnin meti það skynsamlegt --- eða ,,vurderer det som hensiktsmessigt`` --- að koma við eignarnámsheimild í náttúruverndartilgangi með breytingu á náttúruverndarlögum og hefur í huga að leggja fram tillögu um þetta svo fljótt sem verða má.
    Ég skil þetta sem áherðingu á þeirri stefnu að viðhalda kröfunni um ríkiseignarland þegar stofnaðir eru þjóðgarðar í Noregi.
    Í sænsku lögunum um umhverfismál segir í enskri þýðingu sem ég hef á þeirri löggjöf frá 1993 um þjóðgarða í kafla 4 að land sem tilheyri ríkinu sé hægt að taka til hliðar --- ,,can be set aside`` sem þjóðgarð. Sem sagt krafan um ríkiseign ,,land belonging to the state`` eins og þar stendur í enskri þýðingu.
    Svoleiðis að ég hef það fyrir satt á meðan ekki er annað framreitt hér, sem væri breyting frá þessum tíma, að um sé að ræða kröfuna um ríkiseign á landi ef stofnað er til þjóðgarðs.
    Ég er eindregið þeirrar skoðunar að við eigum ekki að hverfa frá þessari kröfu í íslenskri löggjöf. Það eru bæði þau úrræði að kaupa land undir þjóðgarða og það eru jafnframt þau úrræði að friða undir öðru merki eins og talsvert hefur verið gert af hérlendis, jafnvel stór svæði, þar sem einkaeignarréttur er viðurkenndur en samkomulag hefur tekist við umráðaaðila lands um friðun landsins eftir tilteknum reglum eða friðlýsingu. Eitt stærsta svæðið sem ég kannast allvel við er friðlandið á Lónsöræfum sem er vissulega þjóðgarðsígildi og er þó háð einkaeignarrétti. Ég held að menn eigi að nálgast þetta öðruvísi og það sé mjög tvísýnt að fara að gera undantekningu eins og hér er stefnt að að opna fyrir.
    Annað nýmæli er í þessari grein og það varðar heimild til þess að stofna með reglugerð ráðgjafarnefnd með þátttöku sveitarstjórna til að fjalla um rekstur og skipulag þjóðgarða. Ég tel út af fyrir sig að það geti verið í besta lagi að hafa slíka heimild en þess þarf vissulega að gæta við meðferð máls að þetta leiði ekki til ruglings í stjórnun, þ.e. að ekki verði um að ræða breytingar frá almennum reglum sem eðlilegt er að gildi sem meginviðmiðun þó svo að menn bregðist við staðbundnum aðstæðum á einstökum sviðum. Ég hef fyrir mér þessa norsku Stórþingsskýrslu þar sem er að finna mjög skýr aðvörunarorð, virðulegur forseti, einmitt varðandi slíkt efni í Noregi, ef ég hef lesið rétt í textann, þar sem hefur verið sú skipan á að stjórnun á viðkomandi svæði hafi verið vísað eða falin öðrum ,,på kommunenivå`` eins og þar segir, þ.e. á sveitarfélagagrunni.
    Það er sagt í þessari skýrslu, og þetta mæli ég sem heilræði í eyru þeirra sem um véla: Reynslan af stjórnunarskipan á Hardangervidda sýnir að mismunurinn í stjórnun, ,,forvaltningspraksis``, milli sveitarfélaganna hefur orðið stærri en staðbundnar aðstæður réttlæta --- ,,skulle tilse`` á norskunni. Þetta hefur leitt til átaka eða ,,konfliktsituasjoner`` með tilliti til meginmarkmiða við stofnun og stjórnun þjóðgarðsins.
    Það eru svona atriði sem menn þurfa að hafa vel í huga og gæta að í sambandi við meðferð af því tagi og heimild eins og hér er að vikið.
    Ég þekki það sjálfur að það er mjög nauðsynlegt að hafa góð samskipti, og það gildir auðvitað ekki bara um þjóðgarða heldur um önnur friðlýst svæði, við heimaaðila. Fátt er mikilvægara í rauninni til að ná árangri en að það geti orðið en það má ekki vera á kostnað verndunarmarkmiðanna og á ekki að vera það enda enginn um það að biðja. En það getur verið býsna snúið að standast staðbundinn þrýsting og þess vegna finnst mér að það þurfi að fara með gætni í mál af þessum toga og gæta þess að meginreglum um verndun og verndunarkröfum sé ekki raskað og gott að líta til reynslu hjá nágrönnum okkar í þessum efnum.
    Það er nú svo, virðulegur forseti, að þjóðgarðar verða að jafnast til þjóðargersema og eru þjóðargersemar. Það er mikil ábyrgð sem hvílir á þeim sem fara með stjórn þeirra og það er afskaplega mikil þörf á því að þar sé gætt fyllstu árvekni og samskipta við hlutaðeigandi þannig að náttúruverndarmarkmiðum sé náð. Ég er hérna með grein sem er sótt í norskt rit sem heitir, minnir mig --- ég er því miður ekki með forsíðuna á ritinu en það er held ég ,,Miljø årbok`` sennilega frá árinu 1993 án þess að ég vilji fullyrða það en höfundurinn heitir Susanne Jeggi. Fyrirsögn greinarinnar er: ,,Nasjonalparkerne krever ny tenkning`` --- þjóðgarðarnir kalla á nýja hugsun. Það er mjög fróðlegt sem er að finna í þessari grein og mörg aðvörunarorð mælt, m.a. að gæta þess að rasa ekki um ráð fram og láta ekki undan sérhagsmunum í sambandi við þetta og alveg sérstaklega að gæta samfellu í stjórnun þjóðgarðanna. Það eru nefnd þrjú aðalmarkmið í stjórnun friðaðra svæða og þjóðgarða. Tímans vegna, virðulegi forseti, ég vil ekki ganga um of á tíma þingsins og fara að lesa hér upp annars fróðlegt mál sem er á norsku og ég er enginn snillingur í að snúa af því máli og gætu þó ýmsir orðið mér að liði þar eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. sem ég hygg að kunni það mál langtum betur en ég, en fyrirsagnirnar þessara þriggja meginmarkmiða eru: ,,Nærhet`` og það veit ég satt að segja ekki hvernig ég á að þýða nákvæmlega. ( VS: ,,Nærhet``?) ,,Nærhet``. Komið með þýðinguna hérna úr salnum, annað eins hefur nú verið mælt. ( VS: Er það ekki nágrenni?) Það er nú það. En það skýrist af textanum sem ég ætla samt að spara að lesa. Og það er samfella, það get ég þýtt ,,på stående fod``, eins og danskurinn segir, þ.e. ,,kontinuitet`` og það er árvekni eða ,,våkenhet``. Undir þessu er að finna útfærðan texta sem er að mínu mati mjög athyglisverður.
    En undir hugtakinu ,,nærhet`` til þess aðeins að lesa betur í það segir að náið sambandi á milli þeirra sem reglur setja og hins vegar stjórnenda á staðnum þurfi að vera til staðar. Náið samstarf. Þetta segir eitthvað um hvað í hugtakinu þarna felst sem ég hef gefist upp við að þýða á gott mál.
    Virðulegur forseti. Þá ætla ég ekki að eyða meira máli hér í það sem snýr að hinum þýðingarmikla þætti friðlýsingar sem eru þjóðgarðarnir þó að það gæti verið ástæða til en víkja aðeins að því sem segir í 32. gr. um fólkvanga, sem eru eins og kunnugt er friðlýsingareining þar sem sveitarfélög eru aðalstjórnendur. Þar sé ég að ekki hefur verið tekið tillit til ábendinga sem gefnar voru í umhvn. um breytingar, það hefur ekki verið metið réttmætt og vantar mig að ná sambandi við frsm. meiri hluta umhvn. ef forseti gæti leyst úr því efni því á ábyrgð frsm. er þessi aðfinnsla mín sem ég er að reyna að koma á framfæri. Þar segir í upphafi, með leyfi forseta:
    ,,Nú óskar eitt sveitarfélag eða fleiri að tiltekið svæði verði lýst fólkvangur og skal það (þau) þá bera fram ósk til umhvrn. um slíkt.`` --- Síðan segir: ,,Ef umhvrh. getur á tillöguna fallist að fenginni umsögn Náttúruverndarráðs og Landvörslu ríkisins skal það tilkynnt í Lögbirtingablaði, . . .
``

    Látum það nú vera. Hér er eins og víðar umhvrn., umhvrh., gerður að geranda máls.

En síðan segir í sömu grein, 3. mgr. --- og birtist nú frsm. meiri hluta umhvn. og ég fagna því: ,,Þegar frestur skv. 2. mgr. er liðinn skal Landvarsla ríkisins ákveða hvort athugasemdir er kunna að hafa borist séu svo veigamiklar að ástæða sé til að breyta upphaflegri fyrirætlun eða hverfa frá henni.``
    Í framhaldi af því segir í 4. mgr. 32. gr.: ,,Ef Landvarsla ríkisins og fulltrúa sveitarfélaga sem í hlut eiga verða sammála um að haldið verði fast við ákvörðun um stofnun fólkvangs, breytta eða óbreytta, skal Náttúruverndarráð hlutast til um að dómkvaddir verði matsmenn til að meta bætur fyrir tjón er aðilar sem athugasemdir gera, sbr. 2. mgr., kunna að verða fyrir við stofnun fólkvangs.``
    Hér er sem sagt tvennt sem ég vil gera ábendingu um. Mér finnst óeðlilegt að umhvrh. sé settur í það hlutverk hér, eins og víðar, en alveg sérstaklega að því er varðar fólkvanga en síðan verði í rauninni öll málafylgjan lögð í hendur Landvörslu ríkisins eins og segir í 3. mgr.: ,,Þegar frestur skv. 2. mgr. er liðinn skal Landvarsla ríkisins ákveða hvort athugasemdir er kunna að hafa borist séu svo veigamiklar`` o.s.frv. Og einnig í næstu málsgrein: ,,Ef Landvarsla ríkisins og fulltrúar sveitarfélaga sem í hlut eiga verða sammála um . . .
``

    Af hverju er verið að setja umhvrh. þarna inn en Landvarslan ekki gerð að meginaðila og þeim aðila sem taki við ósk sveitarfélagsins og hafi þá málafylgjuna með sér og alveg sérstaklega þar sem ekki er talað um annað í 2. mgr. greinarinnar en umsögn Landvörslu ríkisins? Umhvrh. biður Landvörsluna um umsögn. Það er ekkert annað. En svo á Landvarslan, sem er aðeins með umsagnarrétt, að fjalla um alla útfærslu málsins sem oft er auðvitað flókin ekki síður en friðlýsingarmál. Mér finnst þetta ekki á réttum stað, ég gerði athugasemd við þetta í þingnefnd. Það var ekkert með það gert. Það verður að hafa það en ég vildi, virðulegur forseti, koma því á framfæri við þingið að mér finnst ekki rétt að staðið þessu í mótun máls varðandi fólkvanga.
    Fyrir nú utan það að ég trúi því ekki að menn ætli að afgreiða hér texta með svigaskýringu varðandi fleirtölu í 1. mgr. 32. gr. svo sem lesa má á bls. 17 í uppfærðum texta og hef eiginlega ekki séð fordæmi þess og er auðvelt að komast hjá slíku ef málsnjall aðili en ekki orðmargur eins og hv. frsm. meiri hluta umhvn. mundi á þetta líta. Það væri örugglega hægt að komast hjá svona hortitt í lagatexta.
    Síðan kemur í 4. mgr., virðulegur forseti, eiginlega alveg óútskýrður hlutur og óskýranlegur fyrir mig, að Náttúruverndarráð er allt í einu sett í það að hlutast til um að dómkvaddir verði matsmenn til að meta bætur fyrir tjón. Náttúruverndarráð sett í það verkefni. Hvað er hér á ferðinni? Hvaða lifandis ósköp hefur mönnum legið á við þennan texta ef þetta er afurðin? Það hefði kannski verið ráð að doka við einhver dægur til þess að ræða málið við annars vesælan minni hluta umhvn. sem reyndi af vanmætti að koma ábendingum á framfæri. Ég tók það skýrt fram, hæstv. ráðherra, að ég styðst við uppsetningu eins og hún liggur fyrir á þskj. 640 og ef það liggur annars staðar fyrir breytt þá er jafngott að það verði fært til samræmis. Ég hef ekki borið saman brtt. frá nefndinni. Ég heyrði ráðherra muldra eitthvað í barm sér í þá átt að þetta væri að finna í brtt. Það hefur ekki skilað sér í þennan samræmda texta sem okkur er ætlað að styðjast við til auðveldunar.
    Í 6. efnisgrein, eins og það á að heita að hætti Björns Guðfinnssonar, er kveðið á um og er nýmæli: Ef þau``, þ.e. sveitarfélög --- ,,óska slíks og umhvrn. samþykkir skal ráðuneytið birta ákvörðun um stofnun fólkvangs í B-deild Stjórnartíðinda.``
    Ástæða þess að ég staldra við þetta er það að hér er talað um að umhvrn. samþykki. Mér finnst gæta þarna og reyndar víðar í textanum að ýmist er notað heiti ráðuneytis en þó yfirgnæfandi nefndur til sögunnar umhvrh. Mér finnst að menn hefðu átt að gera upp við sig hvort þeir ætli að nota. Hugsanlegt er að nota hvort tveggja, ég vil ekki útiloka það, en þarna finnst mér t.d. einsýnt að ætti að kveða á um að þetta væri umhvrh. því honum er ætlað að samþykkja en ekki ráðuneytinu. Ég vænti að menn skilji hvað við er átt og skal ekki eyða orðum frekar að því.

    Í lok þessarar greinar stendur: ,,Nú rís ágreiningur um skilning á grein þessari eða upp koma sérstök vafaatriði sem snerta rekstur fólkvangs, og sker þá umhvrh. úr um málið.``
    Umhvrh. sem samþykkir sker þá úr um málið. Hér er komið upp, virðulegur forseti, eitt af þeim atriðum sem Páll Sigurðsson lagaprófessor var einmitt að vara nefndina við með mjög skýrum orðum og með skriflegum ábendingum að það sé ekki svo sjálfgefið að fela ráðherra í stað stofnunar æðsta vald eða málsmeðferð en ætla honum svo jafnframt að vera úrskurðaraðili í ágreiningi. Mér finnst vera þarna á ferðinni eitthvert sullumbull, svo ég noti kannski svolítið strákslegt orðalag, í lagasmíð og leyfi mér því að vekja athygli á þessu.
    Það er auðvitað mjög eðlilegt að ráðherra sé ætlað úrskurðarvald en lakara er ef það á að vera í eigin máli eftir að hann hefur tekið ákvörðun um fólkvang o.s.frv. Í hlutverki ráðherrans var áður í sambandi við meginmálsmeðferð Náttúruverndarráð en nú er ráðherra settur í stað þess og mér sýnist að það geti stofnað eðlilegri málafylgju í tvísýnu.
    Þá skal ég ekki taka fleira hér fyrir varðandi 32. gr. en vík þá að 33. gr. frv. þar sem fjallað er um stuðning við útivist almennings og sett er inn Landvarsla ríkisins í stað Náttúruverndarráðs og segir þar í upphafi, með leyfi forseta:
    ,,Til stuðnings við útivist almennings getur Landvarsla ríkisins eða náttúruverndarnefndir gengist fyrir að halda opnum göngustígum, strandsvæðum til sjóbaða, vatnsbökkum og öðrum stígum`` o.s.frv. --- Og í lokin segir: ,,Framkvæmdir samkvæmt þessari grein skulu einungis gerðar með samþykki landeiganda.``
    Hér stendur ekkert um kostnað og á meðan gilda væntanlega hin almennu ákvæði frv. um greiðslu kostnaðar þar sem segir í 16. gr.: ,,Kostnaður af framkvæmd laganna skal greiddur úr ríkissjóði eftir því sem fé er veitt til þess á fjárlögum.``
    Samkvæmt þessu á að greiða samkvæmt fjárlögum þann kostnað sem náttúruverndarnefndir stofna til að þessu leyti. Ég geri ráð fyrir að sá skilningur teljist réttur í þessu efni.
    Ég er ekki að segja að það þurfi að vera stórt árekstrarefni ef frá því er gengið með þeim hætti að áskilnaður sé um greiðslu kostnaðar af fjárlögum en það leiðir til þessa sem er opið varðandi greiðslu kostnaðar náttúruverndarnefndanna og ég hef þegar vakið athygli á, að ekki er tekið ákveðið fram hver eigi að bera kostnað sem þær stuðla að eða standa fyrir.
    Svo komum við, virðulegur forseti, að 34. gr. þar sem fjallað er um náttúruverndarsvæði. Þau eru skilgreind með þessum hætti, með leyfi forseta:
    ,,Staðir og svæði sem búið er að friðlýsa samkvæmt ákvæðum þessara laga eða eru á náttúruminjaskrá nefnast náttúruverndarsvæði. Til náttúruverndarsvæða teljast einnig afmörkuð svæði á landi og sjó sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt öðrum lögum vegna náttúru eða landslags.``
    Það er spurning hvernig eigi að skilja hvar mörkin liggi. Í þingnefnd vakti ég athygli á t.d spurningunni um skógræktarsvæði sem njóta verndar gegn beit og hvort þau gætu fallið undir þetta. Hér er að vísu vísað til laga þannig að það er kannski það sem þrengir þetta nægjanlega til þess að ekki séu uppi álitaefni og skal ég ekki dvelja lengur við það, virðulegur forseti.
    Í 35. gr. frv. er komið að kafla sem heitir ,,Framkvæmd friðlýsingar.`` Þar eru nokkur atriði sem ég vildi leyfa mér að víkja að. Það er í fyrsta lagi 4. mgr. sem byrjar svo, með leyfi forseta:
    ,,Á náttúruminjaskrá skal einnig vera listi yfir örverur, jurtir, dýr og vistkerfi, sem æskilegt þykir að vernda, m.a. til að tryggja varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni.``
    Það er þessi upptalning, örverur, jurtir, dýr, af hverju ekki lífverur? Hér er þetta svona. Ég fæ táknmál úr hliðarherbergi sem ég skildi svo að það væri búið að breyta þessu og þar fór í verra með þann texta sem ég er að styðjast við og átti að vera til auðveldunar ef búið er að breyta þessu atriði og kannski í þá veru sem ég er hér að fjalla um og væri það betur. En ég þori ekki að fara í samtöl hvað þá út fyrir þingsalinn, virðulegi forseti, þó að ég leyfi mér að nema þetta táknmál úr hliðarsal. En ég staldraði við þetta.
    Síðan segir í næstu efnisgrein, með leyfi forseta: ,,Landvarsla ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu með aðstoð náttúruverndarnefnda og náttúrustofa gera rökstuddar tillögur til umhvrn. um svæði, náttúrumyndanir, lífverur og vistkerfi á náttúruminjaskrá.``
    Þessir tveir aðilar, Landvarsla ríkisins og Náttúrufræðistofnun skulu með aðstoð náttúruverndarnefnda gera rökstuddar tillögur en í framhaldinu kemur aðili sem ekki er haft það við að lögbjóða. Það er kannski tillit við hið frjálsa og óháða Náttúruverndarráð þar sem segir:
    ,,Náttúruverndarráð, félagasamtök eða einstaklingar geta jafnframt gert slíkar tillögur og skal þá ráðuneytið fallast á eða hafna tillögunni með rökstuddu áliti innan fjögurra mánaða frá því að hún berst.``
    Hér er settur tímafrestur, fjórir mánuðir, sem er vissulega nokkurt álitaefni að skera úr slíkri ósk innan þessa tíma. En það sem ég vildi vekja athygli á þarna, virðulegi forseti, er það að Landvarsla ríkisins og Náttúrufræðistofnun skulu en Náttúruverndarráð og félagasamtök geta.
    Síðan segir: ,,Leita skal eftir áliti Náttúruverndarráðs á öllum tillögum áður en á þær er fallist.`` Síðan Náttúruverndarráð setti umsagnarhlutverk gagnvart heildinni.
    Í 36. gr. segir í upphafi, með virðulegs forseta:
    ,,Ef umhvrh. telur ástæðu til friðlýsingar eða annarra náttúruverndaraðgerða samkvæmt lögum þessum skal fela Landvörslu ríkisins að freista þess að komast að samkomulagi við landeigendur, sveitarstjórnir og aðra . . .
``

    Hér kemur þessi stefna alveg innsigluð. Til frumkvæðis er ætlast af umhvrh. sérstaklega, en síðan á Landvarslan að taka við pokanum og útfæra málið. Það er til samræmis og svo sem ekki annað en er uppi annars staðar í þessari löggjöf.
    Ég hafði áður vakið athygli á 37. gr. sem snýr að umhvrh. varðandi friðlýsingar og er nýmæli en þar er Landvörslu ríkisins gert að semja tillögu um friðlýsinguna. Það er spurningin um þessa meginstefnu sem er í þessum texta.
    Í 38. gr. segir, svo ég hraði nú yfirferð, virðulegi forseti, af fremsta vilja en takmörkuðum mætti kannski:
    ,,Berist mótmæli gegn friðlýsingu eða bótakröfu vegna hennar getur ráðherra falið Landvörslu ríkisins að semja á ný um bótakröfurnar og breytt friðlýsingunni í samræmi við mótmælin``. Einnig hér er ráðherra pósthólfið og ákvörðunaraðilinn en ekki Landvarsla ríkisins, þessi nýja stofnun.
    Síðan er skrautfjörður í hatti annars valdalauss Náttúruverndarráðs í 39. gr. þar sem segir:
    ,,Áður en ráðherra tekur ákvörðun um friðlýsingu skal leita eftir áliti Náttúruverndarráðs. Gefa skal ráðinu 6 vikur til að gera athugasemdir.``
    Þetta er aldeilis ótrúlega rúmt miðað við það sem uppi hefur verið í samskiptum núv. hæstv. ráðherra og Náttúruverndarráðs því að ráðið hefur að jafnaði fengið einn í besta falli tvo sólarhringa til að bregðast við óskum ráðuneytisins um mikilvæg efni eins og breytingar á löggjöf þeirri sem hér er fjallað um.
    Ég er þá kominn, virðulegur forseti, nálægt lokum yfirferðar yfir frv. sjálft. Ég tek eftir því að í 45. gr. stendur: ,,Lög nr. 59 1928, um friðun Þingvalla, halda gildi sínu þrátt fyrir gildistöku laga þessara.``
    Ég þarf að fá hæstv. umhvrh. til að mæta aðeins ef hæstv. ráðherra getur ómakað sig í þingsal. Mér verður hugsað til hinnar ábúðarmiklu stefnumótunar ríkisstjórnarinnar sem ber heitið ,,Á leið til sjálfbærrar þróunar`` í mars 1993, þar sem á bls. 28 er mjög skýrt fram tekið í þessu sérriti sem ég vænti að allir þingmenn hafi undir höndum og heitir ,,Á leið til sjálfbærrar þróunar``. Virðulegur forseti. Ég sakna hæstv. umhvrh. og óska eftir nærveru hans. --- Virðulegi forseti. Ég hinkra við eftir hæstv. ráðherra. ( KE: Um hvaða

grein er þingmaðurinn að tala?) Þingmaðurinn er að fjalla um 45. gr. samkvæmt uppsetningu á bls. 19 í áliti meiri hluta umhvn. Nú bregður svo við, virðulegur forseti, að hvorki frsm. meiri hluta umhvn., hinn orðvari hv. þm. Petrína Baldursdóttir, er hér stödd . . .


    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. ráðherra er rétt ókominn í salinn. Hann er á leiðinni.)
    Það eru góð tíðindi en ég hefði viljað sjá frsm. meiri hluta nefndarinnar í salnum. Þetta er nokkuð tafsamt, virðulegur forseti, ef við þurfum að taka mikinn tíma í að bíða eftir þessum ábyrgðaraðilum máls. Nú veit ég að það er mót vilja forseta en erfitt virðist að fá þessa aðila til að staldra hér við. Ég fer að efast um að viðkomandi beri mjög fyrir brjósti að koma þessu . . .


    ( Forseti (SalÞ) : Hv. 11. þm. Reykn. þurfti að fara í símann. Það var áríðandi símtal sem hún var kölluð í en hæstv. ráðherra er kominn í salinn.)
    Virðulegur forseti. Ég gleðst yfir að hæstv. ráðherra er kominn í sal. Ég var að spjalla um 45. gr. sem undanskilur lög um friðun Þingvalla, segir að þau haldi gildi sínu og var mér þá hugsað til þeirrar bókar sem hlýtur að vera efst á náttborði hæstv. umhvrh. og heitir ,,Á leið til sjálfbærrar þróunar`` og er stefna og framkvæmdir ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. í umhverfismálum, hvorki meira né minna. Þar segir á í tölul. 101 í upptalningu á bls. 28, með leyfi forseta:
    ,,Með umsjón þjóðgarðsins á Þingvöllum verður farið með sama hætti og annarra þjóðgarða og allir þjóðgarðar landsins verða undir einni og sömu stjórn.``
    Hvað er hér á ferðinni? Skýrsla sjálfrar ríkisstjórnarinnar um framkvæmdir í umhverfismálum, fortakslaust ákvæði um það að með umsjón þjóðgarðsins á Þingvöllum verði farið með sama hætti og annarra þjóðgarða og allir þjóðgarðar verði látnir verða undir einni og sömu stjórn. Hins vegar blasir við að engin brtt. er sett fram um ákvæði laganna. Er ríkisstjórn landsins að brjóta gegn eigin stefnu í umhverfismálum með svo ákvarðandi hætti? Man ég ekki betur en hæstv. umhvrh. hafi haft það sem fremsta stefnumál, ég held bara klukkutíma eftir að hann fékk lyklana að ráðuneytinu í hendur, að það yrði hans fyrsta mál og eitt helsta baráttumál að færa þjóðgarðinn á Þingvöllum undir stjórn umhvrn. Ég er ekki frá því að ég hefði viljað ljá hæstv. ráðherra hjálparhönd í því ætlunarverki en ég kom nokkuð á fyrri árum að málefnum þjóðgarðsins á Þingvöllum svo þetta stingur vissulega mjög í auga. Hér stangast á orð og efndir að því er varðar efndir ríkisstjórnarinnar annars vegar og frv. þetta sem við ræðum hér hins vegar.
    Þá erum við komin nálægt lokum yfirferðar minnar á sjálfu frv. Á bls. 19 stendur ekkert um gildistöku laganna en ég lít svo til að það séu mistök og það sé að finna í 7. gr. á bls. 11, að lögin öðlist þegar gildi en síðan er þetta undanþáguákvæði varðandi Náttúruverndarráð sem sitji uns náttúruverndarþing hefur verið haldið en hér er ekki tekið fram sýnilega hvenær það verður. En það kann að vera að það leynist einhvers staðar í þessum textum.
    Ég ætla, virðulegur forseti, í framhaldi af þessu aðeins að víkja að málsgagni sem mér tókst ekki að fjalla um í beinum tengslum við yfirferð á einstökum greinum en það er skýringartexti sem barst umhvn. frá ráðuneytinu frá Birgi Hermannssyni, aðstoðarmanni hæstv. umhvrh., dags. 2. febr. 1995 sem er svör við spurningum vegna náttúruverndarfrv. af hálfu nefndarinnar. Í tölul. 2.a í bréfinu er vikið að gjaldtöku varðandi náttúrustofur með svofelldum hætti, ég vildi vekja athygli á þessari túlkun, með leyfi forseta:
    ,,Fjárveitingavaldið hefur skammtað gestastofum og annarri fræðslustarfsemi Náttúruverndarráðs takmarkaða fjármuni hingað til. Til að auðvelda uppbyggingu og rekstur gestastofa er ekki óeðlilegt að innheimta gjald fyrir aðgang, sérhæfða fræðslu eða t.d. bæklinga.``
    Hér er verið að boða þá stefnu, ef ég fæ rétt skilið, að það eigi að innheimta aðgangseyri að gestastofum. Mér finnst það satt að segja langt gengið ef í fyrsta lagi þarf að

greiða aðgangseyri til að komast inn á svæðið og síðan er farið að rukka fyrir að komast í gestastofu, þá er gestrisnin orðið takmörkuð. En hitt er annað mál að taka gjald fyrir veitta þjónustu á slíkum stöðum eða sölu á bókum, það er annars eðlis.
    Síðan er í sama erindi vikið að 29. gr. núgildandi laga um náttúruvernd sem talin er úrelt og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Varðandi eftirlitshlutverk Landvörslunnar vill ráðuneytið taka eftirfarandi fram:
    Við gildistöku laga um mat á umhverfisáhrifum urðu miklar breytingar á undirbúningi framkvæmda og gerði í raun 29. gr. núgildandi laga um náttúruvernd úrelta. 29. gr. núgildandi laga kveður á um skyldu til að leita álits Náttúruverndarráðs og rétt ráðsins til að stöðva framkvæmdir sé það ekki gert. Mat á umhverfisáhrifum er opið ferli þar sem allir geta komið`` --- undirstrikað --- ,,með athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd. Samkvæmt nýrri grein, 5. gr., ber Landvörslunni að fylgjast með því að náttúru landsins sé ekki spillt. Telji stofnunin að fyrirhuguð framkvæmd hafi slíkt í för með sér ber henni að koma á framfæri athugasemdum til skipulagsstjóra.
    Hlutverk Náttúruverndarráðs skv. nýrri 12. gr. ber að skilja á sama hátt.
    Landvarsla ríkisins og Náttúruverndarráð gæta því sjónarmiða náttúruverndar við mat á umhverfisáhrifum.``
    Og í framhaldi, svo að ég klári það sem ég ætla að vitna til úr þessum þætti bréfsins, með leyfi forseta:
    ,,Í frv. er ekki kveðið á um skyldur skipulagsstjóra til að leita álits þessara stofnana. Þar sem um opið og auglýst ferli er að ræða er auðvitað álitamál hvort slíks þurfi. Í annan stað er vafamál hvort slík skylda eigi heima í lögum um náttúruvernd. Ráðuneytið mun í reglugerð um mat á umhverfisáhrifum tryggja það að skipulagsstjóri leiti álits Náttúruverndarráðs og Landvörslunnar þannig að öllum efasemdum í málinu verði eytt. Varðandi eftirlit með framkvæmdum er ekki fyrirhuguð nein breyting á núverandi kerfi. 5. gr. mun raunar stórlega bæta lagalegar forsendur núverandi eftirlits.``
    Þetta er satt að segja, virðulegur forseti, dálítið sérstakur texti sem við fáum hér en hann hefur að mínu mati gagnvart þingnefndinni --- og nú vantar mig talsmann meiri hluta umhvn. sem segir utan þingsalar að hann sé að finna í hliðarsal. Það sem er um að ræða í þessu bréfi er viðleitni til lagaskýringar sem svör við spurningum af hálfu þingnefndar Mér finnst þetta ekki vera mjög glöggur texti sem við fáum frá aðstoðarmanni hæstv. umhvrh., því miður. Og ég er ekki sammála þeirri túlkun sem hér kemur fram að það sé í rauninni fyllt í þá eyðu sem skilin er eftir varðandi almennt eftirlit með framkvæmdum sem ekki lúta endilega mati á umhverfisáhrifum og nú hefur í reynd verið sett undir Náttúruverndarráð með ákveðnu eftirlitskerfi á þess vegum. Mér finnst menn vera að skilja eftir verulega stóra eyðu og ætla að sleppa fram hjá henni með því að setja skipulagsstjóra inn í málið og ætla sér í framhaldinu einhvern tíma: ,,Ráðuneytið mun í reglugerð um mat á umhverfisáhrifum tryggja það að skipulagsstjóri leiti álits Náttúruverndarráðs og Landvörslunnar þannig að öllum efasemdum í málinu verði eytt.``
    Þetta er ekki fullnægjandi, hv. frsm. meiri hluta umhvn., því miður, og óhjákvæmilegt að fyrir því verði gerð önnur og skýrari grein hvernig með skuli fara og hef ég þó fulla samúð með aðstoðarmanni hæstv. umhvrh. og þakka viðleitni sem uppi er höfð í þessu bréfi til nefndarinnar. En það veitir ekki þá úrlausn sem um var beðið og eftir stendur mjög áberandi eyða varðandi það framkvæmdaeftirlit sem Náttúruverndarráð hefur í reynd haft með höndum og byggt á ákvæðum 29. gr. gildandi laga um náttúruvernd. Sú eyða verður ekki fyllt með tilvísun í mat á umhverfisáhrifum einum saman þó að vissulega geti það leyst málið að nokkru leyti þegar um er að ræða framkvæmdir sem falla undir þá löggjöf.
    Þetta tel ég vera alvörumál í sambandi við þetta efni hér.
    Síðan er að finna í þessu ágæta bréfi frá 2. febr. þessa árs, virðulegur forseti, ef ég mætti að lokum vitna til textans, með leyfi forseta:
    ,,Töluliður 4 heitir ,,Varðandi hugtakið yfirstjórn.`` Hugtakið kemur fram í nýrri 3. gr., með leyfi forseta, en þar segir að Landvarslan sé ríkisstofnun undir yfirstjórn umhvrn.

Náttúruverndarráð vill í umsögn sinni breyta orðalagi til fyrra horfs þar sem talað er um Landvörsluna sem sjálfstæða ríkisstofnun. Hér er um nokkurn misskilning að ræða. Eiríkur Tómasson segir í grein í nýlegu hefti Úlfljóts (Hugleiðingar um réttarstöðu ráðherra):
    ,,Stjórnarskráin kemur að minni hyggju í veg fyrir að löggjafinn geti að eigin geðþótta lýst stofnanir sjálfstæðar og þar með tekið þær undan yfirstjórn ráðherra. Það verður einungis gert í takmörkuðum mæli, einungis er skýr efnisrök mæla með því.``
    Tilvitnun í Eirík Tómasson lýkur. Ég dreg í efa að hann hafi skilað þessum texta svona. Það er eitthvað að íslenskunni þarna.
    ,,Greinin eins og hún er orðuð nú er því lögfræðilega réttari en áður og í samræmi við upphaflegan tilgang. Hugtakið yfirstjórn ætti að vera auðskilið í þessu sambandi.``
    Ég er ekki viss um að hér hafi aðstoðarmaður umhvrh. hitt naglann á höfuðið þótt hann leiti til stuðnings fanga í grein eftir þann virta lögmann Eirík Tómasson. Mér finnst skjóta skökku við að tala um yfirstjórn eins og gert er í lögunum. Lagabálkurinn fellur undir umhvrh. Hann fer með málin. En að vísa síðan til yfirstjórnar í öðru samhengi finnst mér orka tvímælis í þessum textum.
    Í viðbót segir aðstoðarmaður umhvrh., með leyfi forseta:
    ,, Í nýrri 6. gr. segir að stjórn Landvörslunnar hafi á hendi yfirstjórn stofnunarinnar. Hvað í því felst er útskýrt í 2. mgr. Þetta er rétt að bera saman við ,,daglega stjórn`` sem framkvæmdastjóri stofnunarinnar hefur með höndum skv. 3. mgr.``
    Þá er farið að hafa það sem þrep, annars vegar daglega stjórn og hins vegar yfirstjórn. Þetta er ekki mjög sannfærandi röksemd og ég treysti því að fámáll en vökull frsm. meiri hluta umhvn. taki efni þessa bréfs, ég segi ekki til ,,eftirretning`` eins og sagt er á skandinavísku en til skoðunar með tilliti til þess texta sem hér er fram lagður.
    Hef ég þá lokið að fara yfir þetta bréf sem varðar allnokkru varðandi textaskýringu og textarýni að því er varðar þetta frv.
    Vegna þess að ég er með bókina góðu sem varðar stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum get ég ekki alveg skilið við þetta mál, virðulegur forseti, fyrstu ræðu mína við 2. umr., án þess að líta til þess hvernig haldið er á máli varðandi þetta frv. annars vegar og hins vegar stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum að því er varðar frv. þetta sérstaklega. Það væri að æra óstöðugan að fara að líta á samkvæmnina varðandi aðra þætti þannig að ég skal fyrst og fremst staldra við það sem segir um þetta. Hef ég þegar vakið athygli á ósamræminu hvað varðar yfirstjórn þjóðgarðsins á Þingvöllum annars vegar og hins vegar efni frv. þar sem ekki gætir samræmis.
    Það voru hér viss atriði sem ég ætlaði að vísa til. Á bls. 23 í þessu riti ,,Á leið til sjálfbærrar þróunar``, ríkisstjórnin á leið til sjálfbærrar þróunar, segir í tölul. 68, með leyfi forseta. --- Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra þekki þetta, þurfi kannski ekki að lesa meira en töluliðina til að hann megi nema hvað um er að ræða: ,,Stofnað verður umhverfisþing sem boðað verður til reglulega. Þingið kemur í stað náttúruverndarþings og verður ekki í beinum tengslum við Náttúruverndarráð. Þingið verður umræðuvettvangur stjórnvalda, vísinda- og fræðimanna, hagsmunasamtaka og annarra félags- og stjórnmálasamtaka um umhverfismál og sjálfbæra þróun.``
    Ekki er neitt að finna í þessu frv. sem vísar til framkvæmdar á þessu atriði svo að eitthvað hefur skolast á milli ríkisstjórnar annars vegar og umhvrn. hins vegar því að náttúruverndarþing er hér enn á blaði en ekkert umhverfisþing. Síðan segir í framhaldinu:
    ,,Hvatt verður til að stofnað verði samsvarandi umhverfisþing í hverju kjördæmi.`` --- Það er þó ekki nema hvatning. --- ,,Þau verði vettvangur umræðu um umhverfismál og þróun í héraði.``
    Svo segir í tölul. 70 sem ég ætlaði að kanna í dag en vannst ekki tími til: ,,Stofnuð verður samráðsnefnd ráðuneytanna undir forsæti umhvrn. til að efla samræmingu og samvinnu Stjórnarráðsins á sviði þróunar- og umhverfismála og auka ábyrgð stjórnenda á hverju stjórnsýslustigi.`` ( JGS: Hvað eru þau mörg?) Það er nú það. Þrátt fyrir ágætt atfylgi, ef ég man rétt, hv. 6. þm. Norðurl. e., þá hefur ekki enn þá orðið að lögum það sem ég hefði kosið að komið væri á hið þriðja stjórnsýslustig. Væri þá öðruvísi umhorfs í sambandi við ýmislegt í landinu ef það hefði náð fram að ganga, ekki síst auðveldað þá valddreifingu sem ég veit að við hv. þm. berum fyrir brjósti, m.a. á sviði umhverfismála. Þá hefðum við ekki verið í vandræðum með náttúruverndarnefndirnar eða framlengja vald ríkisins að því er varðar stjórnun heima fyrir ef við hefðum haft þetta stjórnsýslustig. Það er í hverri löggjöfinni eftir aðra sem við rekumst á þetta. Ég er að verða uppgefinn á því að mæla fyrir þessu máli og undrast það satt að segja að það skuli ekki hafa komið lengra áleiðis í gegnum Alþingi Íslandinga. ( Gripið fram í: En er ekki Náttúruverndarráð sjálfstætt?) Svo er nú það. Það er víst verið að svipta það nokkrum völdum ef marka má þennan texta sem við erum að fara yfir.
    Svo er eitt atriði hér sem varðar nýbreytni í framkvæmd sem ég má til með, virðulegur forseti, að vekja athygli á þó það varði ekki kannski ekki frv. beint en þó. Það er tölul. 75 á bls. 24 þar sem segir, og ég bið þá sem hafa unnið endurskoðun stjórnarskrárinnar að leggja við hlustir. Þar lesum við:
    ,,Við endurskoðun stjórnarskrárinnar verður tryggður jafn réttur allra til heilnæms umhverfis nú og í framtíðinni, svo og verndun umhverfis svo það fái að þróast með eðlilegum hætti.``
    Ég hef það að vísu ekki alveg á hreinu hvar þessir textar eru staddir hjá þeirri ágætu þingnefnd sem er að fjalla um endurskoðun stjórnarskrárinnar, hvort þetta ákvæði er þar inn komið, en ég tók svo til við 1. umr. um frv. um breytingu á stjórnarskránni að ekki hefðu náð fram að ganga eindregnar óskir, a.m.k. okkar alþýðubandalagsmanna og ég vil halda fleiri, að því er snertir að stjórnarskrárbinda umhverfisvernd. Hafði mér þá sést yfir og verð að viðurkenna það sem mikla yfirsjón að ég hafði ekki nýlega farið yfir þessa biblíu hæstv. ríkisstjórnar varðandi umhverfismál ,,Á leið til sjálfbærrar þróunar`` þar sem þetta er gullslegið og er ekki seinna vænna ef þetta vantar enn í textann að koma því þar að. Vart stendur á hæstv. umhvrh. að leggja því lið.
    Þetta er það helsta sem ég vildi vísa til beint, virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara að minna á önnur atriði og þó. Á bls. 40 stendur: ,,Aukin verður ábyrgð sveitarfélaga og þeirra sem reka ferðaþjónustu á náttúruvernd og uppbyggingu nauðsynlegrar þjónustu við ferðamenn á umráðasvæðum þeirra.`` Aukin verður ábyrgð sveitarfélaga o.s.frv. á náttúruvernd og uppbyggingu nauðsynlegrar þjónustu. Ég sakna þess nokkuð að mér finnst þetta ekki endurspeglast sem skyldi í þessum textum sem við erum með.
    Og áður en við leggjum saman þessi spjöld ,,Á leið til sjálfbærrar þróunar`` sakar ekki að minna á tölul. 170 þó það liggi við vegkantinn að því er þetta mál varðar, virðulegur forseti, þar sem við lesum, með leyfi forseta:
    ,,Það er stefna ríkisstjórnarinnar að þróunaraðstoð nemi árlega fyrir næstu aldamót a.m.k. 0,4% af vergri þjóðarframleiðslu. Þessu markmiði verður náð með því að auka framlög um 20% ár hvert.``
    Það var nú það og ekki meira um það.
    Virðulegur forseti. Það fer að fækka þeim atriðum sem ég ætlaði að taka fyrir sérstaklega við umfjöllun þessa máls í minni fyrstu ræðu við þessa umræðu. Ég veit ekki hvort ég hef rétt til þriggja en það er kannski álitaefni. En ég vil draga saman nokkur atriði undir lokin, virðulegur forseti. Ég tel að því miður hafi tekist afar óhönduglega til við undirbúning þessa máls og þar hafi hæstv. umhvrh. orðið á allveruleg mistök og meiri hluta umhvn. þingsins sem reif þetta mál út úr þingnefnd fyrir fáum dögum án viðleitni til að ná samkomulagi, þó ekki væri nema hluta málsins. Það er ekki farsælt í sambandi við mál af þeim toga sem hér um ræðir að ætla að reyna að koma því í gegn og lögfesta það í miklum ágreiningi, ekki bara innan þings heldur meðal þjóðarinnar. Ég tel ástæðulaust að halda þannig á máli. A.m.k. hafi engan veginn verið reynt sem skyldi að ná samstöðu og það hafi verið röng stefna að taka málið til mótunar úr höndum stjórnskipaðrar nefndar og færa það inn fyrir veggi ráðuneytisins til frágangs af hálfu núv. hæstv. umhvrh. Það er erfitt úr þessu að bæta eins og nú er komið málum þegar við erum komin með þetta mál til 2. umr. í þeirri stöðu sem þar um ræðir.
    Hæstv. umhvrh. ætlaði sér mikinn hlut þegar hann tók við starfi og hann hefur sýnt

jákvæð tilþrif á mörgum sviðum í sambandi við sína málafylgju og áhuga á sínu starfssviði. Það verður ekki af honum tekið. Hann sagði það í upphafi í einu fyrsta blaðaviðtalinu sem hann átti að hann yrði ekki pissudúkka og það segir væntanlega nokkuð. Það eru einkunnarorð sem hæstv. ráðherra valdi sér við upphaf ferils síns. Ég er með þetta viðtal við ráðherrann og hæstv. ráðherra hefur án efa leitast við að fylgja eftir því heilræði sem hann gaf sjálfum sér við upphaf máls. ( Gripið fram í: Hann hefur keypt pissudúkku handa dótturinni.) Og segir hér utan úr þingsal að dóttirin hafi fengið þá pissudúkku sem reynt yrði kannski að troða upp á hann eða gera hann að.
    Í þessu viðtali ber eitt og annað á góma, m.a. þann reipdrátt sem ráðherrann ætlaði að leggja í við hæstv. landbrh. í sambandi við þau mál sem bæði ráðuneytin hafa með höndum samkvæmt gildandi löggjöf og ætlaði sér talsverðan hlut. Því miður hefur það ekki gengið eftir og það þrátt fyrir þá atorku og atgervi sem hæstv. ráðherra hefur til að bera og m.a. endurspeglast í frásögn af Drangeyjarferð hans í blaðaviðtali 4. ágúst 1993 þar sem tíundað er og myndskreytt hvernig hann kleif þar þrítugan hamarinn svo að ég fari ekki lengra út í þau efni sem bar þar á góma.
    Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég varð fyrir vonbrigðum með málafylgju hæstv. umhvrh. í þessu máli. Ég efast ekkert um að hann hefur haft góðan hug og góðan ásetning í þessum efnum. Mér finnst afurðin ekki vera sú sem við hefðum vænst að gæti orðið og við stöndum því í þeim erfiðu sporum við umfjöllun þessa máls að uppi er ágreiningur sem ekki var unnt að leysa af hálfu meiri hluta umhvn. og ekki var boðið upp á að reynt yrði að leysa. Við höfum neyðst til þess, talsmenn minni hlutans sem sátum eftir með sárt ennið, vil ég segja, eftir að málið hafði verið rifið út úr nefnd af meiri hlutanum án þess að reynt væri að ná saman um efni málsins. Þetta ber að harma og það er því miður dálítið erfitt að sjá hvernig úr því verði bætt að þessu sinni.
    Við hv. 3. þm. Norðurl. e. fjölluðum um þessi efni í stjórnskipaðri nefnd fyrr á kjörtímabilinu og við höfðum nokkra von um það, a.m.k. gildir það um mig, að þar mætti ná landi með því að leggja saman hugmyndir og reynslu þeirra sem þar voru til kvaddir en á þann þráð var klippt af þeim ráðherra sem við tók og það hefur að mínu mati ekki reynst heilladrjúgt.
    Ég ætla hins vegar að vona það, virðulegur forseti, og skal láta það vera mín síðustu orð nú, að menn gefist ekki upp við að koma við æskilegum lagabótum á sviði náttúruverndarmála þó að þetta frv. feli ekki í sér þær æskilegu lagabætur og að þeir sem við taka leggi sig fram um að efna í samráð um það hvernig megi koma þessum málum sem best fyrir í okkar landi.
    Umhverfismálin eru stórmál. Náttúruverndin er hjartans mál mjög margra í landinu og við þurfum á því að halda að um hana geti tekist farsælt samstarf og farsæl stefnumótun og okkur ber að sjálfsögðu skylda til að leggja okkur fram til þess að svo megi verða. Ég segi fyrir mig að ég er þess albúinn að taka þátt í slíku starfi hvenær sem eftir er kallað ef það má verða til þess að ráða málum til sæmilegs vegar. Ég er ekki að fullyrða neitt um að ég búi þar yfir heilræðum öðrum fremur en nokkurri reynslu þó og er til reiðu að miðla henni ef eftir er óskað hver sem heldur um stjórnvöl og vona það að þó að þetta mál standi miður en við væntum megi takast að koma við áður en langt um líður æskilegum lagabótum. En hitt má þó vera til huggunar að gildandi löggjöf um umhverfismál, sem Eysteinn Jónsson efndi í á sínum tíma af mikilli framsýni, ég segi efndi í, auðvitað hafði hann fólk sér til aðstoðar og fulltingis og Alþingi innsiglaði málið með þeirri löggjöf sem við erum að ræða um breytingar á, þar erum við með ótrúlega endingargóða löggjöf sem við getum vel búið að enn um hríð á meðan menn eru að leita að betri úrræðum.