Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 00:56:21 (4292)


[00:56]

     Jón Helgason (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Mig langaði að spyrja aðeins hvernig fundarstjórn forseta yrði hagað á næstunni. Það hafa verið bornar fram mjög margar spurningar í sambandi við þetta frv. eins og eðlilegt er þar sem svo mörg atriði eru óljós í því og mörgu ósvarað. Þessar spurningar eru að sjálfsögðu mjög mismunandi en ég skal aðeins nefna eitt.
    Það hefur komið fram hjá ýmsum ræðumönnum að Páll Sigurðsson lagaprófessor bæði kom á fund nefndarinnar og sendi mjög ítarlegar ábendingar til nefndarinnar. En það sem mér fannst þó standa upp úr af varnaðarorðum hans var það að mörg atriði frv. gætu ekki staðist, þau stönguðust við stjórnskipunarlög. Þetta er mjög alvarleg ásökun og við fengum ekki fulltrúa frá umhvrn. til þess að ræða þetta og spyrja hversu ítarlega frv. hefði verið athugað út frá þessu sjónarmiði og að hve miklu leyti þær fáu brtt. sem meiri hluti umhvn. gerði og hnigu í þá átt að koma til móts við þetta sjónarmið.
    Ég nefni þetta sem eitt dæmi um þau fjölmörgu atriði sem hefur verið spurt um og öll áframhaldandi umræða um frv. hlýtur mjög að byggjast á hvernig svör fást við. Ég vil því spyrja hæstv. forseta þingsins að því hvort við eigum ekki von á því að fá svör við þessum veigamiklu spurningum áður en umræða heldur mikið lengur áfram eða hvernig hæstv. forseti hefur hugsað sér að haga stjórninni á fundi nú áfram.