Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 01:05:01 (4296)

     Forseti (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Í tilefni af ummælum hv. 2. þm. Austurl. um að forseti hafi verið með hótanir í garð hv. þm. sem forseti telur mjög alvarleg ummæli vill forseti vekja athygli hv. 2. þm. Austurl. á því að forseti var spurður um hvernig hann mundi haga fundarstjórn sinni. Forseta þótti skylt að svara spurningu hv. þm. með því að vitna til þingskapa sem hv. Alþingi, er nú situr, hefur samþykkt samhljóða og forseti tekur ekki einn ábyrgð á.
    Varðandi þá spurningu hver gegndi embætti hæstv. forsrh. hefur forseta verið tjáð að það muni vera hæstv. fjmrh.
    Varðandi þá spurningu hvernig forseti muni halda áfram þessum umræðum þá eru enn á mælendaskrá sjö hv. þm. Þeim hefur fjölgað frá því að umræður fóru síðast fram um fundarstjórn forseta klukkan tuttugu mínútur fyrir tólf í kvöld. Þá þykir forseta enn frekari ástæða til þess að verða við þeim óskum sem hafa komið fram í fjölmörgum ræðum um það að þessu máli verði gefinn góður tími og það skoðað gaumgæfilega. Í því er fólgin mikil sanngirni að það sé gert í samfelldum umræðum.