Staðan í kennaradeilunni með hliðsjón af afgreiðslu grunnskólafrumvarpsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 14:07:57 (4344)


[14:07]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Fyrir réttum fjórum árum var verið að afgreiða hér í þessari virðulegu stofnun frv. til grunnskólalaga. Það var frv. sem hafði verið gert ágætt samkomulag um við kennarasamtökin í landinu, foreldrasamtökin í landinu, samtök skólastjóra, yfirkennara og aðra þá aðila sem yfir höfuð koma að skólamálum hér á landi. Það merkilega var svo líka það að um þetta frv. sem þá var verið að ræða varð fullt samkomulag hér í þessari virðulegu stofnun og ég man eftir því þegar var gengið frá lokagerð frv. með samningum, m.a. á milli mín sem þá var menntmrh. og hv. formanns þingflokks Sjálfstfl. sem er núv. hæstv. menntmrh. og hæstv. núv. forseta Alþingis. Með öðrum orðum þá náðist í raun og veru mjög víðtæk eining um þetta mál á þeim tíma og það var stefna okkar sem unnum að því að samstaðan skipti miklu máli vegna þess að hún gæti síðan myndað vörn, skjól fyrir skólakerfið og þar með börnin sem eru innan skólakerfisins í landinu.
    Því miður er það svo, hæstv. forseti, að í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið unnið allt öðruvísi að málum. Sú stefna sem full samstaða náðist um var sett niður í skúffu. Það var tekin ákvörðun um að breyta nýsettum grunnskólalögum. Það var ákveðið að skera niður framlög til menntamála um 2.000 millj. kr. að raunvirði þannig að framlög til menntamála á þessu ári eru núna 14,5 milljarðar en ættu að vera 16,5 miðað við það sem var á síðasta heila ári fráfarandi fyrri ríkisstjórnar. Og þegar hæstv. ráðherra fór svo loksins að vinna að menntamálum, þá ákvað hann að skipa 18 manna nefnd vina sinna, kunningja og nær eingöngu flokksfélaga til þess að fjalla um grunnskólamál og framhaldsskólamál. Hann lagði blátt bann við því að þessi nefnd segði frá sínum málum út á við. Hann bannaði henni samráð við kennara, hann bannaði henni samráð við foreldra, hann bannaði henni samráð við sveitarfélögin í landinu. Og nú er hæstv. menntmrh. að uppskera af þessum ótrúlega feluleik sem hefur verið stundaður meiri hlutann af þessu kjörtímabili.
    Það liggur fyrir að frá því grunnskólafrv. sem nú á að fara að ræða næstu daga var gengið án samráðs við kennara, án samráðs við sveitarfélögin og það sem meira er, í dag liggur það fyrir að það er ætlunin að afgreiða þessi mál af meiri hluta menntmn. í fullri andstöðu við stjórnarandstöðuna vegna vinnubragða, í fullri andstöðu við sveitarfélögin í landinu, Samband ísl. sveitarfélaga gerði sérstaka samþykkt um þetta mál í gærkvöldi, og í fullri andstöðu við Kennarasamtökin í landinu þannig að í gærkvöldi fór svo að Kennarasamtökin töldu sig til þess knúin að stöðva samningafund sem annars hafði farið fram í mjög góðu andrúmslofti þangað til meiri hluti menntmn. ákvað í gærkvöldi að rífa málið út úr nefndinni í blóra við alla aðila.
    Það er alveg bersýnilegt að þau vinnubrögð sem hér eru höfð uppi geta ekki haft neitt annað í för með sér en það að annaðhvort strandi grunnskólafrv. hér eða að það verði tekið í gegn í átökum og það er mjög alvarlegt mál, hæstv. forseti. Ég tel að það sé mjög brýnt að um grunnskólann sé sem víðtækust pólitísk og fagleg samstaða í landinu. Grunnskólalög eru í raun og veru lög um réttindi barna til skóla og til fræðslu og það á að umgangast þau með þeim hætti. Það hefur hæstv. núv. ríkisstjórn ekki gert og þess vegna eru vinnubrögð meiri hluta menntmn. frá í gær fordæmd hér harðlega.
    Á fundinum í gær óskuðum við eftir því, fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, að það yrði beðið eftir áliti stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Því var neitað þó það væri vitað að stjórnin mundi skila áliti eftir örfáa klukkutíma og því var neitað að fara sérstaklega yfir málin frekar, t.d. í þingflokkunum í dag þannig að unnt yrði að skoða málin með hliðsjón af þeirri viðkvæmu stöðu sem nú er uppi í kjaramálum og kjarasamningum kennara. Ég tel því að meiri hlutinn í menntmn. hafi vísvitandi stefnt í uppnám þeim kjaraviðræðum sem staðið hafa yfir við kennara og þess vegna sé hætta á því að næstu daga skelli hér á verkfall í grunnskólum og framhaldsskólum landsins. Af þessari ástæðu, hæstv. forseti, hef ég óskað eftir þessari utandagskrárumræðu og legg fyrir hæstv. menntmrh. eftirfarandi spurningar:
    1. Hvernig hyggst menntmrh. stuðla að því að samningar náist þannig að skólastarf geti haldið áfram með eðlilegum hætti?
    2. Hvar eru frumvarpsdrögin sem menntmrh. hefur haldið fram í marga mánuði að liggi fyrir um réttindamál kennara? Hvar eru þessi frumvarpsdrög? Af hverju eru þau enn þá leyniplagg?
    3. Telur hæstv. menntmrh. hugsanlegt að hefja núna þær þríhliða viðræður ríkisvalds, sveitarfélaga og kennara um hugsanlegan flutning grunnskólans til sveitarfélaganna sem gerð var tillaga um í nefndaráliti 15. apríl 1994 og ítrekuð í nefndaráliti frá september 1994 af nefnd sem starfaði undir forustu hv. þm. Sturlu Böðvarssonar?
    4. Er hæstv. menntmrh. tilbúinn til þess að fresta á þessu þingi meðferð grunnskólafrv. til þess að skapa eins góða sátt um þessi mál og mögulegt er og hefja tafarlausar viðræður við sveitarfélögin og við kennarasamtökin um farsæla lausn á þessum mikilvægu málum?