Staðan í kennaradeilunni með hliðsjón af afgreiðslu grunnskólafrumvarpsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 14:28:23 (4347)


[14:28]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Frú forseti. Ég get ekki annað en lýst undrun minni yfir viðbrögðum hæstv. menntmrh. í þessum umræðum. Ég held að okkur hljóti öllum að vera ljóst að sú ákvörðun meiri hluta menntmn. í gær að afgreiða málið út úr nefndinni kæmi sem sprengja inn í þær viðræður sem nú standa yfir um kjaramál og þegar þar við bættist að Samband ísl. sveitarfélaga var á fundi vegna þessa máls þá var mjög óeðlilegt að afgreiða málið áður en niðurstöður lægju fyrir á fundi sveitarfélaganna og ekki síst þegar haft var í huga hve viðræður kennarasambandanna og ríkisvaldsins voru á viðkvæmu stigi og eru enn. Þar við bætist að grunnskólalög eru þess eðlis og rekstur og inntak grunnskólans eru þess eðlis að um það verður að ríkja sæmileg sátt í þjóðfélaginu hvernig sá rekstur skuli vera og hvað þar beri að gera. En við upplifum það hér dag eftir dag að mál eru rifin út úr nefndum af meiri hlutanum á hinu háa Alþingi og það kostar átök og grunnskólamálið er þess eðlis að um það eiga ekki að vera átök.
    Ég harma það mjög hvernig staðið hefur verið að þessu máli vegna þess að ég get sagt það hér að ég er efnislega sammála mjög mörgu í þessu frv. en ég tel aftur á móti að ýmsir þættir þess séu nánast óræddir og þar séu atriði sem hefði þurft að kanna mun betur. Ég nefni þar sérstaklega sérkennsluþátt frv. og sérkennslupólitíkina sem þar kemur fram, skólanefndirnar, áhrif kennara á ákvarðanatöku og stefnumótun í skólastarfinu, hlutverk Námsgagnastofnunar, sérfræðingaþáttinn o.fl. sem nefndin átti eftir að ræða, nefndarmenn áttu eftir að ræða sín á milli og komast að niðurstöðu um.
    Við höfum fengið fjölda gesta á fund nefndarinnar og mikið af umsögnum þar sem ýmis sjónarmið koma fram en það er alveg ljóst að það var ekki tekið neitt tillit til sjónarmiða kennara og þetta áttum við einfaldlega eftir að ræða og kanna hvort það væri möguleiki að ná sáttum um þessi atriði. Þar við bætist og það sem er hið stóra í þessu máli, sá þáttur að öll réttindamál kennara eru óleyst við þennan flutning frá ríki til sveitarfélaga. Í þessu frv., og ég vil leggja áherslu á það, eru þættir sem t.d. valda breytingum á vinnutíma kennara. Þarna er um hrein samningsmál að ræða og þess vegna mjög óeðlilegt og óheppilegt að þetta frv. komi inn í þær samningaviðræður sem nú standa yfir.
    Síðan er auðvitað það sem snýr að Sambandi ísl. sveitarfélaga og við stöndum frammi fyrir því að kostnaðarhliðin á þessu máli er mjög óljós og sveitarfélögin hafa sett ákveðna fyrirvara varðandi þennan flutning. Þeir snúa annars vegar að samningum við kennara og hins vegar að samningum milli ríkis og sveitarfélaga varðandi tekjuöflun sveitarfélaganna. Í bréfi sem okkur barst í gær frá Sambandi ísl. sveitarfélaga er líka bent sérstaklega á eitt atriði sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur nefnt hvað eftir annað um fjölda nemenda í bekkjardeildum. Þetta er atriði sem við eigum einfaldlega eftir að ræða í nefndinni. Þetta er órætt mál.
    Ég hlýt að gagnrýna það harðlega að málið skyldi afgreitt með þessum hætti og ég harma þann harða tón sem kemur fram í máli menntmrh. varðandi það að knýja málið í gegn á næstu dögum. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að þetta frv. geti beðið. Við þurfum að hafa heildarmyndina. Við þurfum að vita hvað við erum að gera, hæstv. menntmrh., en það er algerlega óljóst hvað þetta þýðir fyrir kennara, það er óljóst hvað þetta þýðir fyrir sveitarfélögin og sú niðurstaða á að liggja fyrir.