Staðan í kennaradeilunni með hliðsjón af afgreiðslu grunnskólafrumvarpsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 14:37:32 (4349)


[14:37]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tel tímabært að ræða það hvernig á að standa að því að lögtaka þetta frv. um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Það hefur komið fram að mjög margt er eftir að gera í sambandi við þá undirbúningsvinnu sem þar þarf að fara fram. Ég vil geta þess hér að ég ætlaði einmitt á mánudaginn var að bera fram fyrirspurn um réttindamál kennara og hafði óskað eftir því að fá svar við því en það kom í ljós að það var svo viðamikið mál að það var í raun og veru alls ekki hægt að svara því á þeirri stundu. Ég hef einmitt grun um að mjög margt sé eftir að vinna í þessu máli og það er kannski hægt að kristalla það nokkuð í umsögn frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga sem hefur sent umsögn um frv. til laga um grunnskólann þar sem þeir taka sérstaklega fram að allt of naumur tími sé til þess að ljúka öllum nauðsynlegum samningum og undirbúningi fyrir flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Ég tel mjög vafasamt að vera núna á þessum síðustu dögum þingsins að reyna að keyra það í gegn að þetta frv. verði samþykkt og á sama tíma kemur hv. formaður menntmn. og segir að það sé verið að tala um að fresta gildistökunni til 1. jan. á næsta ári og það sé háð því að þá sé búið að ganga frá öllum lausum endum sem eru mjög margir.
    Ég sé ekki betur en það væri betra fyrir alla aðila að reyna að hafa samkomulag um þetta mál þannig að það væri hægt að vinna þetta í góðri sátt við þá sem þurfa að vinna við þetta í framtíðinni og taka á þessu í sumar og fram á haustið og sjá þá til hvort þetta getur tekið gildi um næstu áramót. Ég sé ekki nauðsynina á því endilega að samþykkja þetta núna með þessu bráðabirgðaákvæði þar sem það er ljóst að það er svo margt og mikið sem enn þá á eftir að gera til þess að þetta geti gengið í gegn.
    Það hefur raunar einnig líka komið fram að það eru sveitarfélögin sem hafa samþykkt að taka við rekstri grunnskólans en þau hafa jafnframt hvert á fætur öðru lýst því yfir núna síðustu daga að það sé svo margt óunnið í þessum málum og meira að segja það sveitarfélag sem best er í stakk búið til að gera þetta, þ.e. Reykjavíkurborg, hefur líka athugasemdir fram að færa við það að þeir vita ekkert hvernig þeir eiga að framfylgja þessu. Þeir vita ekkert enn þá um tekjustofnana, þeir vita ekkert enn þá um réttindamál kennara. Það er algerlega ótímabært að keyra þetta mál í gegn núna með svona marga lausa enda.