Staðan í kennaradeilunni með hliðsjón af afgreiðslu grunnskólafrumvarpsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:05:55 (4356)


[15:05]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Fyrst nokkur orð um ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur. Hún talaði þar um að málið væri illa unnið, nefndastarfið hefði verið illa af hendi leyst og sagði að sennilega þyrfti að hafa eitthvert námskeið fyrir óreynda þingmenn til þess að þeir dygðu sem formenn í þingnefndum. Þetta er slíkur dónaskapur gagnvart formanni menntmn. að mér finnst að hv. þm. ætti að biðjast afsökunar á þessum orðum sínum.
    Hv. þm. talaði um að nú hefði verið kastað sprengju inn í kjaramálaumræðurnar. Hver valdi 17. febr. sem einhvern örlagadag í þessum kjarasamningum? Það voru kennarasamtökin. Þau ákváðu að það skyldi verða verkfall 17. febr. Kennarasamtökunum eins og öllum í þessum sal mátti vel vera ljóst að einmitt á þessum tíma yrði frv. til grunnskólalaga til lokameðferðar í þinginu.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir lýsti sérstakri undrun yfir viðbrögðum mínum og yfirleitt allri þróun þessa máls að mér skildist. Það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart að einhverjir aðilar utan þings skilji ekki hvernig Alþingi starfar. Hins vegar kemur mér á óvart að alþingismenn virðast ekki gera sér grein fyrir að stjórnarfrumvarp sem er eins vel unnið og þetta og hefur fengið eins mikla meðferð í þingnefnd og þetta skuli halda að það hafi bara verið lagt fram til kynningar en ætti ekki að afgreiða það. Það liggur við að maður ráði það af þessum málflutningi. Auðvitað vita þingmenn þetta og þeir eiga ekki að halda uppi þessum blekkingaleik gagnvart almenningi og fjölmiðlum.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi líka að í þessu væru ýmsir þættir sem valda breytingum á vinnutíma kennara. Það hefur alla tíð verið vitað, alla tíð. En ég ítreka það enn og aftur að kennarar eru ekki að semja á grundvelli þessa frv. Það hefur frá byrjun samningaviðræðna við kennara verið öllum ljóst að þeir eru að semja á grundvelli gildandi laga, annað ekki.
    Það er jafnframt vel ljóst hvað þetta frv. þýðir. Það fylgir því útreikningur frá fjármálaskrifstofu fjmrn. en auðvitað verður það ekki nákvæmlega vitað fyrr en frv. hefur verið samþykkt í fyrsta lagi og í öðru lagi þegar samið hefur verið við kennara og þá fyrst er hægt að ákveða hvaða fjármálaleg yfirfærsla á að fara fram til sveitarfélaganna. Það er einkennilegt að menn skuli aldrei geta skilið að þetta er gangurinn sem verður að vera á málinu. Þetta ræddi hv. þm. Björn Bjarnason í mjög skýru máli áðan í lok ræðu sinnar. Þetta getur ekki gengið öðruvísi en svona. Þetta grundvallaratriði verða menn að skilja og ég ætlast til þess að menn skilji það en hætti þessum stöðugu útúrsnuningum.
    Það eru líka miklir útúrsnúningar hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að kennarar séu ekki efni málsins. Hver hefur sagt það? Eða sveitarfélögin séu heldur ekki efni málsins. ( SvG: Björn Bjarnason.) Það er rangt, það eru útúrsnúningar og ekkert annað og hv. þm. til vansæmdar að tala svona. ( SvG: Björn Bjarnason sagði þetta.)
    Þá er enn verið að halda því fram að málið sé illa unnið og borið saman við málsmeðferðina 1991. Mér er mætavel kunnugt að það frv. var sent út um allar jarðir til umsagnar en mér er jafn vel kunnugt um að það var ekki nema að mjög litlu leyti farið eftir þeim athugasemdum sem bárust. Þvert á móti hefur það verið gert í þessu tilviki. Ég fullyrði að ekkert frv. hefur fengið aðra eins meðferð. Fyrst var það kynnt eftir það kom frá menntastefnunefndinni, frá átján manna nefndinni. Það voru teknar til greina fjömargar athugasemdir um það sem betur mætti fara og síðan er það aftur sent til umsagnar sömu aðila eftir að það kemur til þingnefndar. Það hefur ekkert frv. fengið eins góða meðferð og þetta.
    Hæstv. forseti. Tími minn er því miður búinn. Það er fleira sem ég hefði þurft að koma að en ég held þó að ég hafi svarað öllum aðalatriðum.