Grunnskóli

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 18:17:10 (4416)


[18:17]
     Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er gamla ráðið ef maður fer að tala um sveitarfélögin og að það þurfi að hafa eitthvert eftirlit eða vera hægt að grípa til einhverra aðgerða ef sveitarfélögin standi sig ekki þá er það strax borið upp á mann að maður vantreysti sveitarfélögunum. Það er náttúrlega besta ráðið til þess að þagga niður í manni svo að ég segi það bara beint út því það geri ég ekki. Mér finnst það bara mikill ábyrgðarhluti af hálfu ríkisins að kasta frá sér grunnskólanum, ef svo mætti að orði komast, að fullu án þess að vita mikið um það hvað tekur við.
    Það er einmitt það sem ég á líka við þegar ég er að tala um fræðsluskrifstofurnar. Ég segi það alveg satt að ég veit ekki nógu mikið um það hvernig þau mál standa. En þó hef ég reynt að kynna mér það í nokkrum kjördæmum og ég veit það að á Norðurlandi eystra og Suðurlandi standa mál nokkuð vel en víða annars staðar ekki. Þetta er svo ólíkt hvort við erum að tala um t.d. Reykjavík eða landsbyggðarkjördæmi. Ég veit að þetta er einfalt mál í Reykjavík þar sem sveitarfélagið er eitt kjördæmi en það er ekki eins einfalt víða annars staðar. Ég heyrði það á orðum hv. þm. að hún veit ekki meira um þetta en ég.