Náttúruvernd

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 12:07:29 (4437)


[12:07]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er góðra gjalda vert að hæstv. ráðherra taki þátt í umræðu. Það finnst mér þakkarvert og hefði mátt vera meira af því fyrr í umræðunni að hann notaði sinn rétt til þess.
    En ég vil víkja að því sem síðast kom fram hjá hæstv. ráðherra að hann vilji láta reyna á hvort það sé samkomulagsvilji varðandi þetta mál. Þetta er nokkuð seint í rass gripið. Ráðherrann búinn að standa fyrir því að málið sé rifið út úr umhvn. að hans frumkvæði í ósamkomulagi án þess að nokkuð sé reynt að koma til móts við sjónarmið stjórnarandstöðufulltrúa í nefndinni sem vissulega höfðu ekkert samræmt sín viðhorf innan nefndarinnar heldur unnið í góðri trú að það ætti að reyna að vinna þetta mál heildstætt í nefndinni. Ráðherrann hafði bara ekkert fyrir því heldur lét fulltrúa sinn rífa málið út úr nefnd. Svo kemur hæstv. ráðherra viku fyrir þinglok, ef allt er talið, og fer að tala um að hann sé reiðubúinn að láta reyna á samkomulagsvilja varðandi málið, vísar fjölmörgum af ásteytingsefnum sem hafa verið uppi í nefndinni út í hafsauga og að hann telji að við þau beri að standa, fer yfir einstök atriði. Það met ég allt saman, allt á sínum stað. En það er hverjum manni ljóst að ef það á eitthvað að verða úr þessu þá er það tillaga minni hlutans í nefndinni að þetta mál verði að fá aðra og betri yfirferð áður en þingið taki afstöðu til hennar. Þess vegna er tillaga minni hlutans um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar auðvitað sú eina sem er rökrétt í þessari stöðu mála.