Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 12:10:09 (4438)

[12:10]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Frv. er samið af nefnd sem félmrh. skipaði seinni hluta árs 1993. Í nefndina voru skipuð Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félmrn., formaður, Einar K. Guðfinnsson alþingismaður, Hilmar Þórisson, aðstoðarframkvæmdastjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins, Jóna Ósk Guðjónsdóttir, forstöðumaður húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar, og Sveinn H. Ragnarsson félagsmálastjóri. Með nefndinni störfuðu Gísli Gíslason, deildarstjóri í Húsnæðisstofnun ríkisins, og Þorgerður Benediktsdóttir, deildarstjóri í félmrn., en fundarritari var Elín S. Jónsdóttir, deildarsérfræðingur í félmrn.
    Nefndin var skipuð til að undirbúa frv. á grundvelli tillagna sem fram komu í skýrslu frá maí 1993 en sú skýrsla var samin af starfshópi skipuðum af félmrh. Helstu markmið nefndarinnar við endurskoðun laganna var að auka ábyrgð sveitarstjórna, auka sveigjanleika innan kerfisins, auk þess að sníða ýmsa agnúa af lögunum og skerpa og skýra margvísleg atriði. Markmiðinu um aukna ábyrgð sveitarstjórnar lagði nefndin til að náð yrði með því að húsnæðisnefnd yrði alfarið skipuð af sveitarstjórn með sama hætti og

aðrar nefndir samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem þýðir að þegar sveitarstjórn kýs fulltrúa í nefndir þá hefur við venjulegar aðstæður viðkomandi meiri hluti sveitarstjórnar meiri hluta í viðkomandi nefnd.
    Í beinum tengslum við hina nýju gerð af húsnæðisnefnd yrði henni ætluð aukin ábyrgð, þ.e. að sjá endanlega um úthlutun íbúða til einstaklinga sem þýðir að húsnæðisnefndin bæri ábyrgð á því að eignir og tekjur umsækjenda væru innan tilskilinna marka svo og að greiðslugeta væri innan ákveðins ramma. Nefndin lagði áherslu á að með því að húsnæðisnefndin væri alfarið á vegum sveitarstjórnar gengi það upp að ábyrgð sveitarstjórnar ykist um leið og húsnæðisnefnd yrði falin meiri ábyrgð og völd. Auk þess leit nefndin svo á að afskipti verkalýðsfélaga af félagslega húsnæðiskerfinu heyrði liðinni tíð og væri liður í merkum kafla sögunnar. Þáttaskipti í þeim efnum hefðu orðið á árinu 1990 þegar lög nr. 70/1990 tóku gildi en samkvæmt þeim var málaflokkurinn færður nær sveitarstjórnum með því að stjórnir verkamannabústaða voru aflagðar en þess í stað komið á húsnæðisnefndum sveitarfélaga með takmarkaðri aðild verkalýðsfélaga.
    Nefndin taldi því að nú væri tímabært að reka smiðshöggið á þessa þróun og færa málaflokkinn undir stjórnsýslu sveitarfélaga.
    Ég óskaði heimildar ríkisstjórnarinnar til að leggja frv. fram á Alþingi eins og það kom frá nefndinni en hafði þó fyrirvara á varðandi mál sem þyrfti að taka afstöðu til í frv. og m.a. afstöðu ASÍ til skipan húsnæðisnefndar. Á grundvelli athugana sem húsnæðishópur ASÍ hefur nú gert á frv. og eindreginna skilaboða frá þeim um þetta efni ákvað ég að leggja til þá breytingu á frv. að skipan húsnæðisnefndar verði óbreytt að því undanskildu að formaður nefndarinnar verði kjörinn af sveitarstjórn. Með því móti er nokkuð komið til móts við þær hugmyndir um að auka vægi sveitarstjórna í húsnæðisnefnd en um leið viðhaldið áratuga hefð um þátttöku verkalýðsfélaga í nefndinni sem ASÍ leggur ríka áherslu á eins og áður sagði. Óbreytt stendur hins vegar að húsnæðisnefnd verði falin aukin ábyrgð eins og nefndin lagði til en það felur í sér mikilsverða valddreifingu eins og ég rek nánar hér á eftir.
    Ég vil taka það fram að ég hef haft samráð við formann Sambands ísl. sveitarfélaga um þetta atriði og hann hefur fullan skilning á því sjónarmiði sem ég hef sett fram og telur að þeir hagsmunir sem eru í húfi með þeim breytingum sem frv. felur í sér séu svo miklir að ekki verði gerður ágreiningur um það að skipan húsnæðisnefnda verði óbreytt.
    Auk breytingarinnar á húsnæðisnefnd geri ég tvær tillögur aðrar til breytinga á frv. m.a. að höfðu samráði við fjmrh. Sú fyrri lýtur að tilfærslu lána milli lánaflokka en í 9. gr. frv. er heimildarákvæði um að húsnæðismálastjórn sé heimilt að færa lán milli lánaflokka.
    Fallið hefur verið frá því að festa slíka heimild í lög en gert er ráð fyrir óbreyttri framkvæmd þar sem tilfærsla milli lánaflokka hefur verið heimiluð í undantekningartilfellum. Síðari brtt. snýst um vaxtabreytingar vegna tekna hjá lántakendum félagslegra eignaríbúða.
    Í upphaflegu frv. var lagt til að vextir, sem hefðu verið hækkaðir út af tekjum, gætu lækkað ef tekjur færu á ný undir tekjumörk. Frá þessu hefur verið fallið með þeirri brtt. sem ég kynni hér en þess í stað er lögð til algerlega ný tilhögun um vaxtabreytingar hjá einstaklingum vegna tekna. Sú tilhögun felur í sér að færri sæta vaxtahækkun en nú er, þ.e. ákvæðið verði þrengt, en í því felst augljós kjarabót fyrir lántakendur félagslegra eignaríbúða. Með þeirri breytingu á sínum tíma að hækka vextina eftir að viðkomandi færi yfir ákveðin tekjumörk fólst í raun viðurkenning eða það sjónarmið á stöðu þess sem í hlut ætti að hann félli ekki undir það mat sem haft var í upphafi um þá sem ættu heima innan félagslega húsnæðiskerfisins. Hins vegar er alveg ljóst að þar sem tekið er tillit til ákveðins meðaltals undangenginna ára í lögunum í dag þá getur eitt ár fleytt fjölskyldu upp fyrir þessi mörk enda þótt ekki sé um varanlega breytingu á högum fjölskyldunnar að ræða.
    Að öðru leyti er frv. þetta samhljóða tillögu nefndarinnar sem samdi það í upphafi og ég mun kynna helstu atriði þess.
    Í fyrsta lagi hvað varðar aukna ábyrgð sveitarfélaga:
    Húsnæðisnefnd verði falið að bera endanlega ábyrgð á úthlutunum íbúða sem þýðir að húsnæðisnefndin sjái ein um að umsækjendur uppfylli skilyrði um eignir og tekjur svo og um greiðslugetu. Hér búa að baki tvö grundvallaratriði, þ.e. að sýna húsnæðisnefndum þetta traust svo og valddreifing þar sem hvert einstakt mál þarf ekki lengur að fara til staðfestingar Húsnæðisstofnunar eins og verið hefur. Frá hagkvæmnissjónarmiði sparast því bæði tími og fyrirhöfn þótt grundvallaratriði vegi þyngra að mínum dómi. Atbeini Húsnæðisstofnunar komi einvörðungu fram með almennum hætti með því að Húsnæðisstofnun geri úrtakskönnun á úthlutunum. Enda verði húsnæðisnefndum gert að senda Húsnæðisstofnun yfirlit yfir úthlutanir.
    Í tengslum við þetta nýja fyrirkomulag er lagt til að húsnæðisnefndum verði veitt aðhald af hálfu Húsnæðisstofnunar. Komi þannig á daginn í úrtakskönnum stofnunarinnar að húsnæðisnefnd hafi ekki gætt skilyrða um eigna- og tekjumörk verði húsnæðismálastjórn heimilað að ákvarða að hlutaðeigandi húsnæðisnefnd skuli senda öll gögn um úthlutanir til staðfestingar í Húsnæðisstofnun í eitt ár. Komi til þess að einstaklingur fái úthlutað íbúð af hálfu húsnæðisnefndar í blóra við gildandi eigna- og tekjumörk sæti hann vaxtahækkun þannig að vextir verði þeir sömu og af lánum til kaupa á almennum kaupleiguíbúðum. Einstaklingi mátt vera ljóst hver eigna- og tekjumörk væru. Það er því ljóst að ábyrgð húsnæðisnefndar verður þung. Bæði að sjá til þess að allt fari löglega fram svo og að veita einstaklingum upplýsingar um réttindi þeirra og skyldur.

    Í öðru lagi er aukið sjálfsforræði sveitarfélaga. Lagt er til að sveitarfélögunum verði ekki lengur skylt að leggja fram 3,5% framlag vegna félagslegra íbúða á vegum félagasamtaka heldur þurfi til þess samþykki sveitarstjórna. Rökin eru þau að sveitarfélög hafa mörg hver bent á hversu bagalegt það sé að félagasamtök geti krafist þessa gjalds af sveitarfélögunum án þess að sveitarstjórnir hafi átt kost á að fylgjast með fyrirætlunum félagasamtaka í þessum efnum. Því hafi krafa um 3,5% framlag af kostnaðarverði félagslegrar íbúðar sem getur verið umtalsverð fjárhæð komið ýmsum sveitarstjórnum í opna skjöldu og þær ekki getað gert ráð fyrir þeim í fjárhagsáætlunum sínum. Vegna þessara vandkvæða hefur Samband íslenskra sveitarfélaga komið með þá tillögu að sveitarstjórnir verði leystar undan þeirri lagaskyldu að greiða þetta framlag þegar aðrir framkvæmdaraðilar en sveitarfélög eiga í hlut. Ekki náðist þó samstaða í nefndinni sem samdi frv. þetta um að ganga svo langt en þess í stað var lögð til sú millileið sem rakin var hér að framan, þ.e. að samþykki sveitarstjórnar þurfi að koma til. Ólíklegt er talið að sveitarstjórnir muni synja um greiðslu 3,5% framlagsins nema í undantekningartilvikum enda eru félagasamtök að leysa úr brýnni húsnæðisþörf í sveitarfélaginu svo sem fyrir fatlaða og aldraða. En það breytir því ekki að það hefur mikla þýðingu fyrir sveitarfélögin að hvert mál skuli borið upp til samþykkis í sveitarstjórn.
    Þá er gert ráð fyrir sveigjanlegra fyrirkomulagi samkvæmt frv. en samkvæmt gildandi lögum. Heimamenn í hinum ýmsu sveitarfélögum hafa bent á nauðsyn þess að viss sveigjanleiki sé innan félagslega húsnæðiskerfisins þar sem aðstæður í sveitarfélögum eru mismunandi. Ýmsar þessar ábendingar skila sér í frv. en þó hefur verið fallið frá tveimur þeirra frá upphaflegu frv. og vísa ég til þess sem ég rakti í upphafi ræðunnar um tilfærslu milli lánaflokka og breytingar á vaxtakjörum vegna tekna. En atriðin, sem gera fyrirkomulagið sveigjanlegra, eru þessi: Reglur um greiðslugetu eða svokallað greiðslumat verði undanþægar. Víkja megi frá reglum um hámarksstærð íbúða þegar um notaðar íbúðir er að ræða. Telja megi fjármagnskostnað annarra aðila en Byggingarsjóðs verkamanna lánshæfan. Heimilt verði að veita sérstakt viðbótarlán vegna meiri háttar utanhússviðhalds á fjölbýlishúsum með félagslegum eignaríbúðum. Heimilað verði að hækka eldri 85% lán upp í 90% lán og snýr það í framkvæmd einkum að húsnæðissamvinnufélögum. Sérstök úrræði verði lögfest til að koma til móts við þann vanda sem rís þegar félagslegar eignaríbúðir koma til endursölu en standa auðar. Annars vegar er um að ræða sérstaka lánveitingu og hins vegar að selja megi íbúð á almennum markaði. Þessum atriðum eru gerð rækileg skil í frv. og óþarft að endurtaka það hér. Þó tel ég rétt að víkja nokkuð að þeim ofantöldu atriðum sem ég tel mestu máli skipta. Gert er ráð fyrir að veita megi undanþágu frá reglum um greiðslugetu ef kaupandi sýnir fram á að hann geti borið þyngri greiðslubyrðar en segir til um í væntanlegri reglugerð um það efni.
    Í þessu sambandi skal lögð áhersla á að í frv. er lagt til að kveðið verði á um greiðslugetu skuldara í reglugerð með sama hætti og innan húsbréfakerfisins. Nú er reglan sú að greiðslubyrði fari ekki yfir þriðjung af tekjum kaupanda en sú viðmiðun þykir of há og því gert ráð fyrir að hún verði lægri í væntanlegri reglugerð. Rétt þykir að sá möguleiki rúmist innan laganna að fólk geti þolað þyngri greiðslubyrði lána en reglan kemur til með að segja til um enda meti húsnæðisnefnd það svo það sé með öllu óhætt. Vert er að benda á í því sambandi að húsnæðisnefnd getur haft að geyma staðgóða þekkingu á högum fólks og á það ekki síst við í smærri sveitarfélögum. Má þar nefna margháttaða aðstoð vandamanna, formlega sem óformlega sem gerir einstökum kaupendum fært að takast á við þunga greiðslubyrði meðan verið er að komast yfir erfiðasta hjallann. Ekki er þó gert ráð fyrir að húsnæðisnefnd ákvarði um slíka undanþágu heldur fari erindi af þessu tagi fyrir Húsnæðisstofnun ásamt rökstuðningi húsnæðisnefndar.
    Varðandi sérstök lán til utanhússviðhalds vil ég segja þetta: Þau eru fyrir nokkru orðin mjög aðkallandi sem kom fram í fyrirspurn sl. mánudag þar sem fjallað var um þessi mál og rakin samskipti bæði Húsnæðisstofnunar og félmrn. varðandi beiðni um lán til utanhússviðhalds. Húsnæðisstofnun hefur ekki talið sér heimilt að veita slík lán án beinnar lagaheimildar enda þótt hús kunni að liggja undir skemmdum. Því er lagt til að húsnæðismálastjórn verði heimilt að veita eigendum félagslegra eignaríbúða í fjölbýlishúsi sérstakt viðbótarlán til meiri háttar utanhússviðhalds.
    Í frv. er skilgreint hvað teljist til meiri háttar utanhússviðhalds og hvaða skilyrðum lánveiting verði háð. Vænti ég þess að með lánum þessum verði því afstýrt að veð Byggingarsjóðs verkamanna liggi undir skemmdum auk þess hve miklu máli það skiptir almennt séð að húsum sé vel við haldið. Það er því jöfnum höndum hagur íbúðareigenda, sjóðsins og almannahagsmuna að leysa úr þessu brýna máli eins og ég rakti reyndar í svari mínu sem ég gat um hér áðan. Sú lausn sem lögð er til í frv. til að leysa úr þeim hnút þegar eignaríbúðir standa auðar og fólgin er í því að selja megi íbúð á almennum markaði, felur í sér grundvallarbreytingu sem vert er að vekja sérstaka athygli á. Félagslega íbúðakerfið hefur ávallt verið lokað kerfi í þeim skilningi að sala utan þess er óheimil allt fram til þess að íbúð hefur verið í eigu sama eiganda í 30 ár samfleytt. Nú hefur hins vegar komið í ljós að nokkuð er um að félagslegar eignaríbúðir sem koma til endursölu standa auðar og tapa allir hlutaðeigandi aðilar á því ástandi. Rétt þykir að bregðast við slíkri stöðu með því að heimila sölu á almennum markaði enda sé sýnt fram á að íbúðin henti ekki sem félagsleg íbúð, sé annaðhvort of stór og dýr eða í lélegu ásigkomulagi og endurbætur þyki of kostnaðarsamar. Ég mun koma nánar að þessu efni þegar raktar verða helstu breytingar sem gert er ráð fyrir á endursölu íbúða.
    Einn þáttur frv. snýr að einföldun á lánakerfinu. Fram hafa komið ábendingar um að lánakerfi félagslegra íbúða sé of flókið og viðamikið, einfalda mætti það og fækka lánaflokkum án þess að valmöguleikar fólks skerðist. Bent er á að kaupleigufyrirkomulagið, með sínum valmöguleikum, feli í raun og veru í sér þá þrjá kosti sem nú standa til boða, þ.e. kaup, leigu, eða leigu með eignarhlut. Engu að síður eru menn ekki sammála um slíka einföldun. Þannig er m.a. bent á að nauðsynlegt sé að viðhalda eignaríbúðum, þær falli vel að íslenskri hefð og hafi gefist vel. Sama sé að segja um hreinræktaðar leiguíbúðir. Hér er því ekki að þessu sinni lögð til róttæk einföldun á lánafyrirkomulaginu en einungis gert ráð fyrir einföldun innan almennu kaupleiguíbúðanna með þeim hætti að í stað tveggja lána, 20% og 70% lána, verði veitt eitt 90% lán. Lánið verði til 43 ára hvað varðar eignaríbúðir og til 50 ára hvað varðar leiguíbúðir. Með þessu móti fást hagkvæmari lánskjör. Hagkvæmari lánskjör með einu 90% láni skýrist af því að lánstími 20% lánsins var skammur en hann var upphaflega aðeins fimm ár en var lengdur í 25 ár með lögum nr. 12/1994. Með einu 90% láni til almennra kaupleiguíbúða til 43 eða 50 ára er sú þunga greiðslubyrði sem 20% lánið hafði í för með sér úr sögunni.
    Þá eru lagðar til í frv. nýjar reglur um fyrningu. Lagt er til að samræma og einfalda reglur um fyrningu þannig að fyrningin verði 1% fyrir hvert ár af öllum íbúðum byggðum frá og með gildistöku laga nr. 51/1980. Allar þessar íbúðir eru með fullverðtryggðum lánum Byggingarsjóðs verkamanna. Nú eru í gildi margs konar fyrningar. Íbúðir byggðar samkvæmt lögum nr. 51/1980 með 1% fyrningu fyrstu 20 ár eignarhaldstíma en 0,5% fyrningu eftir það. Íbúðir byggðar samkvæmt lögum nr. 70/1990 með 1,5% fyrningu fyrstu 20 ár eignarhaldstíma en 0,75% eftir það. Í raun er því verið að lækka fyrninguna því ákvæðið um 0,5% fyrningu hefur ekki komið til framkvæmda eðli málsins samkvæmt. Hér er því um réttarbót að ræða en lántakendur sem og aðrir hafa bent á að fyrningin væri óeðlilega há. Ég mun nú gera örlitla grein fyrir því efni frv. sem snýr að kaupskyldu, forkaupsrétti og endursölu íbúða.
    Í fyrsta lagi er ákvæðum um þetta efni stillt upp með öðrum hætti en verið hefur. Ákvæðin hafa þótt ákaflega óaðgengileg, jafnvel torskilin á köflum. Ekki bætir úr skák að eðli málsins samkvæmt ná ákvæðin yfir langa sögu félagslegra eignaríbúða sem gerir málaflokkinn flóknari en ella. Óljós lagasetning dregur að sjálfsögðu úr réttaröryggi og því ekki vanþörf á að gera bragarbót. Þessum lagatæknilegu atriðum er ætlunin að kippa í liðinn í frv. eins og fram kemur í hinni viðamiklu 26. gr. frv.
    Af efnisbreytingum má helst nefna að skýrt er kveðið á um kaupskyldu sveitarstjórnar komi til nauðungaruppboðs og hvert kaupverðið skuli vera. Að kaupskylda miðist við afhendingardag íbúðar en ekki afsal. Að svonefnd bráðabirgðalán til framkvæmdaraðila við endursölu íbúða verði lögfest í skráðum lögum. Að fram komi í lögum að Húsnæðisstofnun setji skýrar reglur um mat á verðgildi endurbóta á íbúð. Að tekin verði af öll tvímæli um hvenær seljandi eigi rétt á fullnaðargreiðslu og við hvaða dag skuli miðað. Að ákvæðið um 4% aukaverðbætur vegna íbúða byggðra 1980 komi skýrt fram í lögunum. Að ákvæði um söluverð íbúða byggðra fyrir 1980 séu nægilega skýr. Að við útreikning á eignarhlut seljenda vegna íbúðar sem byggðar voru til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði fyrir 1980 verði farið eftir sömu reglum og um aðrar íbúðir frá þeim tíma. Að ljóst sé að húsnæðismálastjórn eigi að úrskurða um vafaatriði sem rísa við sölu á öllum félagslegum íbúðum burt séð frá því á hvaða tíma íbúðirnar voru byggðar.
    Auk þess skal vikið að einu mikilsverðasta nýmæli sem tengist endursölu íbúða en það er hvernig leysa skuli úr þeim vanda sem rís þegar íbúðir, sem koma til endursölu, standa auðar eins og drepið var á framar í ræðu minni. Þar eru lagðar til tvær leiðir til lausnar. Annars vegar sérstök lánveiting til framkvæmdaraðila þegar í ljós kemur að íbúð verður hvorki seld né leigð og svo hafi verið ástatt í a.m.k. sex mánuði. Um leið og úr rætist og kaupandi er til staðar verði lánið gjaldfellt og veitt nýtt lán út á íbúðina samkvæmt almennum reglum. Hins vegar er gert ráð fyrir að heimilt verði að selja íbúð á almennum markaði ef íbúðin telst ekki henta sem félagsleg íbúð, annaðhvort vegna þess að hún sé of stór og dýr eða sökum þess að hún sé í lélegu ásigkomulagi. Hér er um grundvallarbreytingu á lögunum að ræða og einungis heimildarákvæði sem beitt kann að verða í einstaka tilvikum.
    Að lokum vil ég vekja athygli á tveimur atriðum sem fela í sér réttarbætur fyrir einstaklinga innan þessa kerfis auk þeirra réttarbóta sem felast í hinum ýmsu ákvæðum frv. Þá nefni ég fyrst þá veigamiklu breytingu að eignaauking geti ekki leitt til vaxtahækkunar en svo er nú. Við framkvæmd málaflokksins í Húsnæðisstofnun hefur orðið vart við að núverandi skipan geti komið hart niður á fólki enda bætir eignaaukning ein og sér ekki raunverulega hagi fólks. Er hvað þetta varðar einkum bent á aldraða sem margir hverjir hafa tekjur undir tekjumörkun þrátt fyrir að hrein eign fari yfir núgildandi eignamörk sem eru nú rúmlega 1,9 millj. kr. Það getur því verið harkaleg niðurstaða að vextir hækki af þeim sökum, að verðmæti eigna að íbúð meðtalinni fari yfir eignamörk enda þótt tekjur séu undir tekjumörkum. Þetta er ætlunin að leiðrétta.
    Í öðru lagi bendi ég á að lagt er til að tekjur barna undir 20 ára aldri teljist ekki til tekna fjölskyldunnar þar sem tekjur eru eins og kunnugt er undirstöðuatriði þess að fólk eigi aðgang að félagslegum íbúðum. Auk þess sem tekjur geta leitt til vaxtahækkunar er hér augljós kjarabót á ferðinni. Aldurs barna er ekki getið í núgildandi lögum og er framkvæmdin sú að tekjur barna 16 ára og eldri eru teknar með í reikninginn. Það aldursmark er að mínu mati orðið úrelt með lengri skólagöngu ungmenna. Þetta er því að mínum dómi mikilsvert umbótamál.
    Í þessu samhengi vil ég bæta við að lagt er til að eigna- og tekjumörk verði ákvörðuð í reglugerð en ekki fastbundin í lögum. Gefin verði út sérstök reglugerð um þetta efni sem skuli endurskoða árlega að fengnum upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun. Rökin fyrir þessu eru annars vegar þau að ekki þyki

rétt að ákveða slíka fjárhæð í lög þar sem lög geta ekki endurspeglað þær breytingar sem á fjárhæðunum kunna að verða og hins vegar að tryggja að umsækjendur geti nálgast þessar mikilsverðu upplýsingar í sérstakri reglugerð.
    Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni þessa frv. Ég legg áherslu á að brýnt er að lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins verði breytt með þeim hætti sem frv. og þær brtt. sem ég hef hér nefnt segja til. Ég legg þunga áherslu á þær réttarbætur sem felast í frv. láglaunafólki til handa svo og að komið hefur verið til móts við óskir sveitarfélaga um aukið vægi þeirra í þessum mikilvæga málaflokki.
    Virðulegi forseti. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það er erfitt að mæla fyrir slíku frv. þegar svo langt er liðið þings. En ég vil árétta það sem ég gat um í upphafi að þetta mál kom úr nefnd skömmu fyrir jól og ég sótti það mjög fast að það yrði strax sett inn í þingið þannig að þeir sem á þyrftu að halda gætu kynnt sér málið strax jafnvel þó að það þýddi að hugsanlega yrði ég að flytja eða kynna brtt. við frv. eftir að það hefði komið fram. Með þessu móti var m.a. hægt að fá verkalýðsfulltrúa ASÍ, húsnæðisnefnd ASÍ og fleiri aðila til þess að líta á þetta frv. og vera búinn að átta sig á því hvað í því fælist og hvers eðlis það væri fyrir láglaunafólk. Með þessu móti væri jafnframt hægt að kynna málið fyrir Sambandi sveitarfélaga og taka það upp eins og ég hef þegar gert að þetta mál nái hugsanlega fram að ganga þrátt fyrir að húsnæðisnefndirnar verði óbreyttar og þar með að meiri hluti sveitarstjórna á hverjum tíma hafi ekki meiri hluta í húsnæðisnefndum. Við þetta er stuðningur þessara aðila og hann er mjög mikilvægur fyrir félmn. þegar hún tekur nú málið til skoðunar. Ég óska eftir því við félmn. að hún sé tilbúin til að kalla til þá aðila sem henni finnst mikilvægt að ræða við vegna þessa frv. og ef svo fari að ákvæði í frv. sé þess eðlis að ekki náist um það sátt, verði fremur leitast við að afgreiða þau ákvæði frv. sem sátt er um en að láta málið liggja því að svo mörg umbótaatriði felast í frv. að ég kýs fremur að ná því fram sem hægt er en að málið stöðvist á einhverju sem ágreiningur yrði um.
    Virðulegi forseti. Ég legg að endingu til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. félmn.