Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 13:36:17 (4446)



[13:36]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. sem hér er verið að fjalla um er hluti af miklum lagabálki. Húsnæðislögin eru geysilega stór lagabálkur og hér eru þó nokkuð viðamiklar breytingar á honum.
    Ég vil samt byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með það að frv. skuli hafa komið inn í þingið þó seint sé og ég vona svo sannarlega að það takist að afgreiða frv., alla vega einhverjar greinar þess eins og hæstv. félmrh. hefur lýst yfir.
    Ég vildi spyrja, hæstv. forseti, hvort ráðherrann muni ekki koma fljótlega í salinn þar sem ég hef hug á að spyrja hana nokkurra spurninga en hyggst ekki lengja mál mitt neitt mikið við þessa umræðu.
    ( Forseti (StB) : Forseti mun gera ráðstafanir til þess að hæstv. ráðherra komi í salinn.)
    Ég mundi þá gjarnan vilja fara yfir þessi nokkur atriði sem ég var að nefna. Er það fyrst að fyrir utan það að vera ánægð með þetta, mér sýnist að það sé góður punktur að húsnæðisnefndirnar fái aukið vald, mundi ég vilja spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að í frv. sé verulega tekið á þeim vanda sem skapast hefur mjög víða þar sem kaupleiguíbúðir standa auðar og einnig er þetta að gerast í hinu almenna félagslega kerfi. Mjög víða úti um landið hafa sveitarfélög ekki getað selt sínar íbúðir. Þetta á kannski fyrst og fremst við um kaupleiguíbúðirnar en ég vildi þó gjarnan fá nánari skýringar á því hvort verulega er tekið á þessum málum. Það má vel vera að hæstv. ráðherra hafi skýrt þetta nægilega vel í morgun en því miður höfum við þingmenn mjög mikið að gera þessa dagana og þurfum að hlaupa á hina og þessa nefndafundi, jafnvel á meðan verið er að ræða málin í þinginu. Ég vildi gjarnan að það kæmi fram aftur ef það hefur gerst í morgun að gefin var nánari skýring á því hvernig á að taka á þessum málum og hvort það er komið verulega til móts við þau sjónarmið að það þurfi í þessum brtt.
    Hér er tekið á því að vegna þess að í lögunum í dag er heimilt að hækka vexti á lánum vegna þessara verkamannabústaða hafi tekjur hækkað umfram tekjumörkin. Hér er hins vegar tekið á því að þetta verði ekki svona rígbundið heldur lögð áhersla á að ákveðin breyting á vöxtum feli í sér að vextir geti bæði hækkað og lækkað eftir aðstæðum fólks. Þá vil ég minna á það að við kvennalistakonur höfum einmitt lagt það til með sérstöku frv. um breytingu á húsnæðislögum að tekið sé tillit til þess að vextir geti bæði hækkað og lækkað. Mér sýnist að þarna eigi að koma til móts við þetta. En þetta hefur verið mjög umdeilt atriði og hugsanlega er mjög erfitt að eiga við þetta á einu ári og er kannski spurning hvort ekki væri betra að það væru bara föst vaxtakjör heldur en að vera að hlaupa með þetta sitt á hvað eftir tekjum. Þetta getur orðið mjög erfitt í framkvæmd.
    Hér er tekið einnig á því að rýmka ákvæði laganna um lán til bílskýla sem hefur verið mjög gagnrýnt á síðustu árum, þ.e. að ekki sé leyfilegt að lán taki til kostnaðar vegna bílskýlis. Í frv. eru þau lög rýmkuð þannig að, eins og ég sagði í upphafi, er mjög margt í þessu frv. sem er til bóta og er að lagfæra núgildandi lög.
    Ég vildi spyrja nánar um kaupleiguíbúðirnir og einnig það að í athugasemdum stendur að ef íbúðir standi auðar þó þær henti sem félagslegar íbúðir þá verður húsnæðismálastjórn heimilt að veita framkvæmdaraðila lán sem nemi söluverði íbúða og það verði jafnvel heimilað að selja félagslegar íbúðir á almennum markaði. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það hafi verið eitthvað kannað hvernig þetta er í framkvæmd. Þessar íbúðir eru í dag margar hverjar svo dýrar að það er spurning hvort virkilega er hægt að selja þær á almennum markaði jafnvel þó svo að lögin mundu heimila það að félagslegar íbúðir verði seldar á almennum markaði. Við hliðina á þeim eru íbúðir sem eru miklu ódýrari ef markaðsverð er ráðandi. Í sumum byggðarkjörnum úti á landi getur verið miklu ódýrara að kaupa húsnæði á hinum almenna markaði og þá verða þessar íbúðir ekki heldur samkeppnisfærar. Þá sé ég ekki hvort það leysir það vandamál að íbúðirnar standi auðar og enginn vilji leigja þær og enginn vilji kaupa þær.
    Hér er verið að taka á þessum fyrningarreglum sem breytt var fyrir nokkrum árum þegar fyrningarnar voru hækkaðar í 1,5%, held ég að það hafi verið, en núna verða þær 1% aftur eins og þær voru fyrir breytingu. Það tel ég vera mjög til bóta því þetta var bara dulin vaxtahækkun og var engum til hagsbóta nema auðvitað lækkaði þetta verðið eitthvað á íbúðunum en þetta var ekki þeim til hagsbóta sem voru að kaupa íbúðirnar því þeir gátu ekki reiknað sér þessa fyrningarprósentu inn í vaxtakostnaðinn eða fengið hann neitt metinn á þann hátt.
    Ég vildi einnig spyrja hvað sé átt við í þessu frv. með því að það sé sveigjanlegra fyrirkomulag. Hvort það er sveigjanlegra fyrirkomulag í þessu þannig að það megi búast við að þau vandamál sem eru uppi núna í þessu kerfi, sem hefur oft verið rígbundið, leysist með þessu frv. Það má segja að það sé nokkuð skondið að hér er talað um að það séu mjög mismunandi aðstæður í sveitarfélögum, sem er vissulega alveg rétt, og það kalli á sveigjanleika til þess að kerfið geti þjónað einstaklingum í ólíkum sveitarfélögum sem best.
    Mér dettur í hug í sambandi við það að ég held að þetta sé eitt af því sem verið er að gagnrýna í sambandi við skólamálafrv. sem er til umræðu þessa daga í þinginu að þar er verið að setja alla grunnskóla undir einn hatt því að það eiga að vera nákvæmlega eins sveitarfélög sem geta staðið að rekstri þeirra. Mismunandi aðstæður í sveitarfélögum kalla auðvitað á að ekki er hægt að færa skólann einhliða til sveitarfélaganna því að margt þarf að athuga í því sambandi. Hæstv. félmrh. virðist vera sér meðvitaðri með þessu frv. um að mjög mismunandi aðstæður séu í sveitarfélögunum sem kalli á sveigjanleika í sambandi við þessi húsnæðismál og mætti það þá verða öðrum til eftirbreytni.
    Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi vona ég svo sannarlega að það sem er til bóta í frv., og það held ég að sé mjög margt, verði til þess að menn nái samkomulagi um að afgreiða málið þó að það sé seint fram komið og eitt enn til viðbótar vildi ég spyrja hæstv. ráðherra um. Hér er talað um að hægt verði að lána meira en verið hefur til endurbóta á félagslegu húsnæði. Þetta eru atriði sem hafa verið að koma inn hin síðari ár að það hefur verið erfitt að fá framkvæmdalán til endurbóta á félagslegum íbúðum og ég þekki dæmi um að fólk í blokk hefur þurft að taka í hinu almenna bankakerfi lán, kannski til þriggja ára eða svo, til þess að fara út í nokkurra millj. kr. viðhald utan húss og þarf síðan að taka það að sér og greiða það mánaðarlega í viðbót við þær föstu mánaðarlegu greiðslur sem kerfið býður upp á. Verður þetta að einhverju leyti afturvirkt, þ.e. getur það fólk, sem hefur kannski á síðasta ári staðið í verulegum endurbótum utan húss og orðið að taka til þess bankalán sem þarf að greiða upp á stuttum tíma, er hugsanlegt að það fólk geti komist inn í þennan lánaflokk eða hvernig er það hugsað í framkvæmd?
    Að öðru leyti, virðulegi forseti, held ég að ég hafi komið þeim aðalathugasemdum á framfæri sem ég vildi gjarnan spyrja um og ég hef þá tækifæri til þess að koma hér aftur upp síðar ef svo ber undir.