Húsnæðisstofnun ríkisins

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 14:51:19 (4457)


[14:51]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hafi ég skilið hæstv. félmrh. rétt, þá hefur fallið út grundvallaratriðið í 25. gr. að mínu viti og það er þessi setning:
    ,,Sýni íbúðareigandi fram á að tekjur hans hafi lækkað svo að þær falli á ný undir tekjumörk, sbr. b-lið 1. mgr. 64. gr., getur hann sótt um breytingu á vöxtum.``
    Ef þetta hefur fallið út þá er í rauninni kjarninn úr þessari grein horfinn vegna þess að þarna er ekki verið að tala um endurskoðun á þriggja ára fresti heldur nákvæmlega það að hægt sé að taka þetta mál til athugunar þegar í stað en ekki eftir að vandinn er orðinn kannski allt að þriggja ára uppsafnaður vandi því að hér eins og stendur í greinargerð við 25. gr., sem ég tek alveg fyllilega undir, þá er verið að tala um það að sveiflur á tekjum fólks undanfarin ár, svo sem vegna atvinnuleysis, tekjulækkunar, aldurs, veikinda eða annarra breytinga á högum sýna fram á þörf þess að viðmiðanir um endurskoðanir vaxta séu sveigjanlegar og í samræmi við raunverulega hagi fólks. Því þykir sjálfsagt réttlætismál að vexti megi lækka vegna versnandi kjara auk þess sem það er í beinu samræmi við markmiðsákvæði laganna, 35 gr., um að opinber aðstoð í húsnæðismálum taki mið af aðstæðum fólks hverju sinni.
    Þremur árum seinna getur kannski verið komið út í það óefni að þetta verður ekki sú hjálp sem það á að vera. Þetta er grundvallaratriði.