Launamyndun og kynbundinn launamismunur

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 15:45:07 (4471)


[15:45]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem hér er til umræðu er að sönnu ágæt en hún er bara enn ein skýrslan, enn ein könnunin, sem leiðir í ljós það sem við höfum lengi vitað, að laun kvenna eru á bilinu 50 til 65% að meðaltali af launum karla. Sú niðurstaða sem fram kemur í skýrslunni um það að aukin menntun leiði af sér aukið launabil hefur líka legið fyrir í mörg ár. Kannanir sem BHMR hefur gert hjá sínum félagsmönnum hafa leitt í ljós að því meiri menntun þeim mun breiðara launabil milli karla og kvenna.
    Staðreyndin er sú, hæstv. forseti, að það er nóg komið af könnunum. Við vitum hvernig málin standa og það er kominn tími aðgerða. Það er löngu orðið tímabært að grípa til aðgerða. Það standa yfir kjarasamningar í samfélaginu og þeir gefa tækifæri á því að leiðrétta þennan mun. Það liggur tillaga fyrir Alþingi um uppstokkun á launakerfi ríkisins, flutt af okkur kvennalistakonum. Það má samþykkja hana og hefjast þegar í stað handa. Það þarf að vinna ókynbundið starfsmat og þannig mætti lengi telja upp aðgerðir sem hægt er að grípa til ef vilji er til þess. Við kvennalistakonur höfum flutt tillögur ár eftir ár um endurskoðun á launakerfinu og ýmsar aðgerðir til að bæta kjör kvenna en þær hafa ekki náð fram að ganga á hinu háa Alþingi. Gömlu flokkarnir hafa allir átt sæti í ríkisstjórnum á undanförnum árum og hafa haft tækifæri til að taka á launamun kynjanna en þeir hafa bara ekki gert það. Þeir hafa ekki sýnt því máli neinn áhuga og hafa ekkert gert. Áhuginn hefur sannast að segja verið minni en enginn. Og ekki er hægt að hrósa verkalýðshreyfingunni, hvort sem litið er á opinbera starfsmenn eða Alþýðusamband Íslands. Launamál kvenna, launamisréttið, hefur bara ekki verið á dagskrá. Þess vegna fagna ég því að það skuli loksins tekið til umræðu og vona að það boði betri tíð og bæði Alþfl. og Alþb. fari að sinna þessum málum. Það sem þarf, hæstv. forseti, er hugarfarsbyltingu og aðgerðir strax.