Launamyndun og kynbundinn launamismunur

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 15:55:07 (4475)

[15:55]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hvað sýnir þessi skýrsla okkur sem hérna liggur fyrir? Hún sýnir okkur að hér er framið mannréttindabrot. Það er ekkert minna. En það kemur engum á óvart sem er í salnum. Þetta hefur viðgengist lengi. Jafnaðarmannaflokkur Íslands hefur farið með jafnréttismál í átta ár. Í átta ár hefur Jafnaðarmannaflokkur Íslands farið með jafnréttismál. Og hver er staðan í dag? Hún hefur sennilega ekki verið verri í ein 50 ár. Þetta er sannleikurinn.
    Við sjáum t.d. mismuninn á fullum launum karla og kvenna, þá er fyrir sambærilegt starf, það er talað um meðallaun, karlmaðurinn með 173 þús., konan með 112 þús. kr. Og hver er ástæðan? Við hljótum að skoða hver er ástæðan. Er það menntunarleysi kvenna? Nei, það er ekki vegna menntunarleysis vegna þess að eftir því sem konur eru meira menntaðar þeim mun meira dregur á milli karla og kvenna. Er það viljaleysi kvenna til að taka ábyrgð á sig á vinnumarkaðinum? Nei, það er ekki þess vegna. Þegar við horfum t.d. til heilbrigðisstétta, sem er mjög lágt launaður hópur, er yfirleitt sagt: Það er svo erfitt að rétta þennan mismun á launum vegna þess að þetta eru svo stórar stéttir.
    En ég tek undir með þeim sem segja að það er komið nóg af skýrslum. Málið er þetta: Þetta er ofmat á störfum karla og vanmat á störfum kvenna.