Endurgreiðsla virðisaukaskatts til sveitarfélaga

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:01:17 (4504)


[16:01]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Það má vel vera að einstakir hv. þm. hafi athugasemdir að gera við reglugerðina og telja að hér sé verið að túlka hlutina þröngt. Ég ætla ekki að gera athugasemd við þann málflutning því auðvitað byggir hann á skoðunum hvers og eins. Ég vil hins vegar benda á að endurgreiðslurnar eins og þær eru framkvæmdar núna eru þannig að ég held að ríkið greiði fyllilega til baka það sem ráð var fyrir gert í upphafi þegar samningar voru gerðir við sveitarfélögin um endurgreiðslu af þessum sökum en hún var tekin upp þegar virðisaukaskattskerfið var innleitt.
    Ég minni á að brotamálmum hefur í gegnum tíðina verið safnað af einkafyrirtækjum. Í þessu liggja verðmæti sem þau hafa getað nýtt sér og í sumum tilvikum er þarna um söluvöru að ræða. Það er a.m.k. fyrir vörslumenn ríkissjóðs íhugunarefni hvort víkka skuli hugtök eins og hugtakið sorp þegar um endurgreiðslur er að ræða úr ríkissjóði til sveitarfélaganna. Mér finnst sjálfsagt að málið sé til skoðunar í þeirri nefnd sem fjallar um þessi málefni og önnur er varða fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga en tel að í mæltu máli hljóti sorp að þýða það sem kemur fram í reglugerðinni.
    Ég vil jafnframt geta þess að fyrir Alþingi kemur til með að liggja frv. sem snertir fráveitumál sveitarfélaganna þar sem um verulegar peningagreiðslur yrði að ræða frá ríkinu til sveitarfélaga. Það mál þarf auðvitað að taka upp í tengslum við fjárhagsleg samskipti þessara aðila og þannig gefst tækifæri til að ræða það, þetta mál og ýmis fleiri á næstu vikum, mánuðum, árum og væntanlega áratugum.