Varnir gegn mengun af útblæstri bifreiða og brennslu olíu og bensíns

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:53:05 (4522)


[16:53]
     Gísli S. Einarsson :
    Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðrúnu Halldórsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli sem hér er til umræðu. Ég vil einnig vekja athygli á því að það er aðeins einn nefndarmaður í hv. umhvn. viðstaddur þessa umræðu og þykir mér það mjög miður að þeir þingmenn sem hvað mest hafa látið til sín taka varðandi umhverfismengun, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og hv. þm. Kristín Einarsdóttir, skuli ekki vera hér. En ég vil þakka það að hv. þm. Jón Helgason er viðstaddur því að ég ásamt Petrínu Baldursdóttur flutti á þessu þingi og síðasta þingi þáltill. um notkun mengunarvarna og sparnaðarbúnaðar í skip og á bifreiðar. Búnaður sem heitir ,,Cleanburn`` og ,,Powerplus``, eða aflauki og eldsneytissía, sem er e.t.v. sá eini sem getur gert Íslendingum kleift að standa við skuldbindingar sínar í Ríó-sáttmálanum um loftmengun.
    Í tillögunni er bent á að um geti verið að ræða, hæstv. forseti, 350--500 millj. kr. sparnað fyrir landsmenn. Það dugir ekki til heldur er um að ræða 20--40% minnkun mengunar og það dugir samt ekki til til þess að fá þáltill. til umfjöllunar.
    Ég segi það, hæstv. forseti, það væri gott að hafa þær 500 millj. sem um er að ræða til þess að deila út meðal láglaunafólks í dag.