Vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 17:34:23 (4538)


[17:34]
     Frsm. iðnn. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 452 er birt frv. til laga um að fella úr gildi lög nr. 102 frá 28. desember 1961, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd Parísarsamþykktina um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar.
    Ástæðan fyrir því að farið er fram á lagaheimild til að fella niður þessa sérstöku heimild er sú að ríkisstjórnin vill fyrir sitt leyti fullgilda viðbót við þessa Parísarsamþykkt um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar með þeim breytingum sem gerðar voru á henni í Stokkhólmi 14. júlí 1967. Hér er um að ræða ákvæði 1.--12. gr., sem oft eru nefnd efnisákvæði, sem einkum kveða á um grundvallarreglur varðandi vernd hugverkaréttinda, einkaleyfi, vörumerki, hönnun o.fl., en Ísland hefur frá árinu 1991 verið aðili að svonefndum Lundúnatexta samþykktarinnar frá árinu 1934 og hefur sá texti haft lagagildi hér á landi.
    Stokkhólmsgerð þessa hluta samþykktarinnar felur hins vegar ekki í sér neinar þær breytingar miðað við Lundúnatextann að breyta þurfi gildandi lögum um hugverkaréttindi hér á landi. Ísland gerðist aðili að 13.--30. gr. Stokkhólmsgerðar samþykktarinnar árið 1984. Sá hluti fjallar aðallega um stjórnarstofnanir sem fara með málefni samþykktarinnar á vegum Alþjóðahugverkastofnunarinnar. Aðild að þessum hluta samþykktarinnar var forsenda þess að Ísland gæti gerst aðili að Alþjóðahugverkastofnuninni og þessi hluti samþykktarinnar hefur hins vegar ekki lagagildi. Parísarsamþykktin er sáttmáli milli ríkja er kveður á um almennar leikreglur sem hverju ríki er skylt að fylgja varðandi vernd hugverkaréttinda í þágu þegnanna. Það leiðir af eðli og tilgangi samþykktarinnar að óeðlilegt er talið að hún gildi sem lög gagnvart þegnunum. Með frv. þessu er því lagt til að samhliða því sem Ísland gerist aðili að breyttum efnisákvæðum samþykktarinnar frá 1967 verði lögin nr. 102/1961, sem frá árinu 1984 hafa aðeins gilt um efnishluta hennar, felld úr gildi.
    Hv. iðnn. hefur fjallað um frv. þetta og leggur til samhljóða að það verði samþykkt sem lög frá Alþingi.