Refsiákvæði nokkurra skattalaga

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 18:29:18 (4553)


[18:29]

     Frsm. efh.- og viðskn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá efh.- og viðskn. á þskj. 682 um frv. til laga um breytingu á refsiákvæðum nokkurra skattalaga.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Skúla Eggert Þórðarson skattrannsóknarstjóra og Guðmund Guðbjarnason, fyrrv. skattrannsóknarstjóra. Fram kom á fundi nefndarinnar að ákvæði frv. um hlutlæga ábyrgð lögaðila væru ekki nægilega skýr og leggur því nefndin til að frv. verður samþykkt með breytingu sem er á þskj. með sama númeri.
    Undir þetta rita allir nefndarmenn.
    Virðulegur forseti. Kannski er ástæða til þess að taka það fram að sú breyting sem fólst í þessu frv. var efnislega í tveim liðum: annars vegar að lögfesta að lágmark refsingar í skattsvikamálum væri tvöföld sú upphæð sem undan var skotið. Í raun þýðir þetta ekki nema um það bil 1,75 vegna þess að það dragast þó frá þær álögur sem hafa verið lagðar á, þ.e. dráttarvextir og einnig varðandi hina hlutlægu refsiábyrgð lögaðila.