Sjúkraliðar

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 18:56:38 (4557)


[18:56]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um sjúkraliða sem er 386. mál þingsins á þskj. 620. Frv. þetta gerir ekki ráð fyrir miklum breytingum á ákvæðum gildandi laga, þær eru í höfuðatriðum aðeins tvær. Í fyrsta lagi er í 5. gr. frv. veitt heimild til þess að sjúkraliðar geti starfað sem stoðstétt lækna, ljósmæðra og sjúkraþjálfara. Og í 7. gr. er gert ráð fyrir því að umsögn Sjúkraliðafélags Íslands sé leitað hafi sjúkraliði verið sviptur starfsleyfi og standi til að ráðherra veiti honum leyfi aftur.
    Þetta eru þær einu meginefnisbreytingar sem frv. gerir á gildandi lögum um sjúkraliða. Það kemur einnig fram í fskj. frá fjmrn., fjárlagaskrifstofu, að samþykkt frv. hafi ekki í för með sér nein bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mælast til þess að frv. eigi greiða leið í gegnum hv. Alþingi, því verði vísað til heilbr.- og trn. og ég legg áherslu á að frv. verði afgreitt þaðan sem fyrst og gangi hér til atkvæða.