Raforkukostnaður garðyrkjunnar

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 15:30:18 (4577)


[15:30]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að taka þetta mál upp. Að mínu mati er hér fyrst og fremst um að ræða stefnumótun raunverulega gagnvart íslenskum iðnaði og ekki síst ylrækt, en ekki bara þá útfærslu sem við erum að reyna hér og þær lausnir sem bent hefur verið á að séu misgreiðar. Við erum að tala um á hvern hátt sé hægt að nýta raforku landsins til atvinnusköpunar og til verðmætasköpunar og það er það sem fyrst og fremst skiptir máli.
    Raforka til stóriðju hefur löngum sætt sérmeðferð og mikið reynt til þess að markaðssetja hana, en við kvennalistakonur höfum ávallt bent á að það væri mun nær að líta frekar sér nær og styðja við bakið á þeim greinum sem þegar hafa sýnt sig hér og er töluverð þekking fyrir hendi í, eins og t.d. í ylrækt, sem er góður kostur í atvinnulífi landsins, þrátt fyrir mismunandi samninga sem gerðir hafa verið og hafa gert þessum atvinnugreinum erfiðara fyrir. Þetta finnst mér fyrst og fremst skipta máli. Við erum að tala um atvinnugrein þar sem stofnkostnaður er ekki gífurlegur. Við erum að tala um atvinnugrein þar sem við höfum byggt upp þekkingu. Við erum að tala um atvinnugrein þar sem við höfum ákveðið forskot, þar sem við höfum bæði ylinn úr iðrum jarðar og við höfum aðgang að raforku, sem á stundum virðist vera hægt að falbjóða hér býsna hressilega. Það er þetta sem mér finnst við fyrst og fremst þurfa að horfa í hér. Það eru mörg störf í húfi og það eru einnig mikilvægir hagsmunir einstakra byggðarlaga í húfi og við höfum hreinlega ekki efni á því að segja: Íslenskt, já takk, en framfylgja því svo ekki í þessu máli.