Raforkukostnaður garðyrkjunnar

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 15:42:19 (4582)


[15:42]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Á forsíðu blaðsins ,,Græni geirinn`` sem er gefinn út af garðyrkjubændum stendur: Víðtækar breytingar í aðsigi. Jarðyrkja og ylrækt leggjast að stórum hluta af leiti stjórnvöld ekki allra ráða til að laga rekstrarumhverfi græna geirans að nýju GATT-samkomulagi.
    Þarna er mikið sagt. Hæstv. iðnrh. var spurður einnar spurningar varðandi raforkuna. Svör hans juku ekki á bjartsýni manna. Hvernig getum við Íslendingar keppt við sífellt meiri innflutning á blómum og grænmeti? Það er ekki nema eitt svar við því. Það er með því að lækka tilkostnað. Stundum spyr maður sig að því hvort það vanti samkeppni í raforkusölu. Það er ekki hægt að búa við það fyrir garðyrkjubændur að eiga sífellt von á því að rafmagn verði rofið. Á sama tíma og rafmagn rennur ónotað til sjávar eru góð fyrirtæki í garðyrkju að gefast upp. Við getum ekki sætt okkur við þetta. Við skuldum garðyrkjunni lægri rekstrarkostnað.