Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 16:33:26 (4592)


[16:33]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Herra forseti. Mér þykir nú hv. þm. vera heldur að hressast að hann skuli hafna yfirgangi auðvaldsins og það má segja að það sé nokkuð langt síðan að framsóknarmenn og leiðtogar Framsfl. hafa tekið með svona róttækum hætti til orða úr þessum ræðustól og það er auðvitað sérstakt fagnaðarefni. Ég held að það sé aðalatriðið að menn leggi saman við það að reyna að losa sig undan þessum yfirgangi gróðastefnunnar og ég held að menn þurfi að átta sig á því að það gera menn ekki með því að taka endana í þjóðfélaginu og deila í þá með tveimur eins og Framsfl. hefur oft viljað gera. Ef menn ætla að koma fram einhverjum raunverulegum þjóðfélagsbreytingum í þágu alþýðu manna í landinu þá verða menn að vita í hvorn fótinn þeir ætla að stíga og ef menn ætla að framkvæma vinstri stefnu, þá verða menn að þora að taka ákvörðun um það. En að deila alltaf í umhverfið með tveimur kann ekki góðri lukku að stýra eins og þeir framsóknarmenn þekkja ákaflega vel m.a. úr sínum rekstri um undangengna tíð.