Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 18:10:53 (4619)


[18:10]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Með 10. og 11. gr. laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995 var gerð breyting á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum. Þar var kveðið á um að tekjum af eldsneytisgjaldi skuli einnig varið til rekstrar flugvalla sem og til framkvæmda í flugmálum samkvæmt flugmálaáætlun. Jafnframt var kveðið á um að tekjum af flugvallagjaldi skuli einnig varið til snjómoksturs flugvalla, viðhalds flugvalla og tækja sem og framkvæmda í flugmálum samkvæmt flugmálaáætlun.
    Í fjárlagafrv. fyrir árið 1995 voru áætlaðar tekjur af eldsneytis- og flugvallagjaldi 393 millj. kr. Gert var ráð fyrir að ráðstafa 70 millj. af þeim tekjustofnum til reksturs flugvalla en 323 millj. til framkvæmda við flugvelli. Við meðferð frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1995 var ákvæðum um flugvallagjald breytt þannig að tekjum af flugvallagjaldi skyldi auk framkvæmdar varið til snjómoksturs og viðhalds flugvalla og tækja en ekki til rekstrar flugvalla almennt eins og frv. gerir ráð fyrir. Vegna þessa er miðað við að 40 millj. kr. verði ráðstafað af eldsneytis- og flugvallagjöldum til rekstrar flugvalla og að gerð verði breyting til samræmis við þetta í fjáraukalögum fyrir árið 1995.
    Það liggur því fyrir að gera þurfi breytingar á flugmálaáætlun fyrir árin 1994--1997 sem samþykkt var á Alþingi sl. vor og miðar að því að framlag til framkvæmda á flugvöllum verði 40 millj. kr. minna en samþykkt flugmálaáætlun gerir ráð fyrir. Ráðuneytið óskar eftir því við flugráð að það geri tillögur til ráðuneytisins um breytingu á flugmálaáætlun sem er í samræmi við lagaákvæði.
    Á fundi flugráðs þann 25. janúar varð gerð tillaga til samgrn. um það með hvaða hætti 40 millj. sem nota á til rekstrar flugvalla verði skipt til breytinga á framkvæmdum í flugmálum á árinu 1995. Byggir þáltill. á tillögum flugráðs óbreyttum.
    Lagt er til að framlag til flugstöðvar á Egilsstaðaflugvelli verði 24 millj. kr. í stað 30 millj. kr. samkvæmt flugmálaáætlun. Miðað er við að unnt verði að ljúka næsta áfanga við flugstöð á Egilsstöðum en að lokaáfangi frestist.
    Samkvæmt flugmálaáætlun var fyrirhugað að ganga frá bílastæðum og lóðum á Húsavíkurflugvelli vegna hagstæðra útboða við framkvæmdir við lagningu bundins slitlags. Á síðasta ári var einnig unnt að ljúka þessum áfanga af fjárveitingum ársins 1994.
    Lagt er til að framlag til að ganga frá bílastæðum á lóðu á Sauðárkróksflugvelli, 15 millj. kr., verði fellt niður.
    Loks er lagt ti að framlag til að leggja bundið slitlag á Patreksfjarðarflugvöll verði 35 millj. í stað 40 samkvæmt flugmálaáætlun. Með hliðsjón af reynslu undanfarandi ára af útboðum vegna framkvæmda í flugmálum eru vonir bundnar við að hægt verði að ná meginmarkmiðunum um lagningu bundins slitlags á Patreksfirði.
    Þá er lagt til að sá liður í flugmálaáætlun sem kveður á um fjármagn til annarra flugvalla- og lendingabóta verði lækkaður um 4 millj., verði 1 millj. í stað 5.

    Ég vil minna á það, hæstv. forseti, að reynslan hefur verið sú að flugmálaáætlun hefur verið varfærin. Ég geri mér því vonir um að þessar breytingar muni ekki hafa það í för með sér að framkvæmdir raskist eða frestist og legg til að svo mæltu að þáltill. verði vísað til síðari umr. og hv. samgn.