Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 23:46:32 (4673)


[23:46]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er nokkur skaði að þetta mál er svo seint á ferðinni og á ég þá við bæði að frv. er hér að koma til 1. umr. á síðustu sólarhringum þinghaldsins, en í öðru lagi eru í rauninni aðgerðir hæstv. umhvrh. að þessu leyti líka á endapunkti kjörtímabilsins, en eins og kunnugt er hafði þessi hæstv. ríkisstjórn, sem nú mun senn geispa golunni, uppi mikil áform um að gera stórátak í fráveitumálum á kjörtímabilinu og mun það standa í hinni merku bók. Þá var að vísu annar hæstv. umhvrh., sem nú er fjarri góðu gamni, í stóli hæstv. umhvrh., en engu breytir það að ekki hefur mikið komist til framkvæmda af því sem stóð til að gera samkvæmt bókinni miklu, Velferð á varanlegum grunni, því að hér fyrst er þetta mál að líta dagsins ljós og hvað felur það í sér? Jú, það felur það í sér, þegar betur er að gáð, að ríkið ætlar af allri miskunn sinni að endurgreiða í besta falli sem nemur virðisaukaskatti af þeim framkvæmdum sem sveitarfélögin ráðast í, ef ég hef rétt skilið.
    Ég hafði í einfeldni minni gefið mér það að í þessu frv. fælust beinar stuðningsaðgerðir ríkisins við þetta verkefni og ég hafði einmitt tekið eftir þeim tilmælum frá Sambandi sveitarfélaga um að greiða götu þessa máls í þinginu, sem hæstv. ráðherra nefndi. Þegar ég fór svo að rýna betur í frv. þá kom það mér nokkuð á óvart að það kemur í raun og veru fram í greinargerðinni að af þeim leiðum sem til greina hafi komið til að styðja við bakið á sveitarfélögunum og styrkja þau í þessum gríðarlegu verkefnum sem þetta er, að koma þessu í eðlilegt horf, framkvæmdakostnaður upp á á bilinu 15--20 milljarðar kr. og þar af er talið að styrkhæfar framkvæmdir samkvæmt þessu frv. séu um 10 milljarðar, að allt og sumt sem ríkið ætli að leggja af mörkum til að auðvelda sveitarfélögunum að ráðast í þetta mikla verkefni sé að ráðstafa sem nemi allt að 200 millj. eða 20% af framkvæmdakostnaðinum til baka til sveitarfélaganna í formi framlaga. En þegar þess er gætt að ef sveitarfélögin ráðast í þessar 15--20 milljarða framkvæmdir þá er virðisaukaskatturinn af þeim upphæðum 3--4 milljarðar kr., þá er það sem hér er að gerast það að virðisaukaskattshlutinn af styrkhæfa hlutanum er endurgreiddur eða greiddur í formi framlaga til sveitarfélaganna til baka upp á allt að tveimur milljörðum og mestur líkur eru þá auðvitað á að sú tala verði lægri því að þetta er heimildarákvæði.
Þá er ríkið eftir sem áður að hafa út úr dæminu 1--2 milljarða í virðisaukaskatti.
    Ég vil nú spyrja hæstv. umhvrh.: Er þetta tilfellið? Er þetta í grófum dráttum rétt reiknað? Þá fer maður náttúrlega að spyrja sig að því, hvert er þá orðið framlag ríkisins í þessum efnum? Jú, jú, menn geta sagt að þessar framkvæmdir eigi auðvitað að bera virðisaukaskatt eins og aðrar slíkar í landinu og eru kannski ekki forsendur til þess út frá núverandi ákvæðum um þau efni annað en að þær beri virðisaukaskatt. En auðvitað hefði manni fundist að þá hefði hin aðferðin verið hreinlegri, að ganga bara frá því að þessar framkvæmdir væru án slíkrar skattheimtu á meðan verið væri að koma þessum málum í eðlilegt horf.
    Ég verð því að segja alveg eins og er að ég hafði ekki áttað mig á því, hæstv. forseti, hvað í þessu frv. felst fyrr en ég fór að líta betur í það í kvöld og átta mig á því að það var hér á dagskrá. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki gera mikla grein fyrir því hvað þarna væri á ferðinni og fór hratt yfir sögu, kannski tímans vegna, því að nú er ekki orðinn tími til að ræða nokkurn skapaðan hlut og mál af þessu tagi eru að koma hér fram þegar klukkan á eftir eina mínútu í 12, ef svo má að orði komast, þ.e. í þeim skilningi að það er ekki mikið eftir af sólarhring sem til vinnu er í þessu máli. Reyndar er klukkan líka að verða 12, hæstv. forseti, þannig að það munaði ekki miklu.
    Hæstv. forseti. Það hefði verið ástæða til þess að hæstv. umhvrh. gerði okkur aðeins betur grein fyrir umfangi þessa máls og stöðu, því það er ekki eins og hér sé verið að tala um neitt smáræði. Það er verið að tala hér um alveg gríðarlega fjárfestingu fyrir sveitarfélögin í landinu vegna kvaða sem í raun og veru hafa verið á þau sett. Ég ætla ekki að segja að þessar framkvæmdir séu óþarfar, það sé ekki þörf á að taka á þessum málum, því það er mjög víða. En sumir vilja meina að kannski í vissum tilvikum sé þarna verið að leggja nokkuð miklar skyldur á menn, t.d. fyrir minni byggðarlög. En hvað um það?
    Ef við gefum okkur nú að þetta þurfi að ganga eftir og menn ætli að ráðast í þetta átak á 10 árum, heildarkostnað við fráveituframkvæmdir upp á 15--20 milljarða kr. fyrir sveitarfélögin í landinu, þá verður það ekki hrist fram úr erminni. Við getum bara hugleitt hvað þetta er hátt hlutfall af öllu framkvæmdafé allra sveitarfélaga í landinu, sem er gjarnan á bilinu frá einhverjum hundruðum þúsunda eða fáeinum milljónum í tilviki minnstu sveitarfélaganna upp í nokkra tugi og í besta falli nokkur hundruð þegar stærstu sveitarfélögin, fyrir þá utan Reykjavík, eiga í hlut. Þannig er nú það. Þannig að hér er auðvitað enginn smáræðispakki á ferðinni.
    Hvernig standa svo sveitarfélögin að vígi? Hvernig hafa fjárhagsmál þeirra verið að þróast? Það er þannig að það hafa engir aðilar safnað, fyrir utan þá heimilin, jafnört skuldum í tíð þessarar ríkisstjórnar eins og einmitt sveitarfélögin. Skuldasöfnun sveitarfélaganna er tvöfalt meiri að hlutfalli heldur en ríkissjóðs og er þó Friðrik Sophusson, hæstv. fjmrh., Íslandsmeistari og heimsmeistari, miðað við höfðatölu sjálfsagt, í

skuldasöfnun á þessu kjörtímabili hjá ríkissjóði. En samt er það nú þannig að miðað við sambærileg hlutföll um tekjur annars vegar ríkissjóðs og hins vegar sveitarfélaganna er skuldaaukning þeirra, ef ég man þetta rétt, á síðasta ári tvöfalt meiri en ríkissjóðs og er auðvitað gríðarlega alvarlegt mál hvert það stefnir. Flest sveitarfélögin í landinu taka allt framkvæmdafé sitt að láni. Þannig er staðan orðin í dag. Þannig að þetta gríðarlega átak í frárennslismálum, sem ekki skilur eftir sig mikil ummerki, a.m.k. ofan jarðar, þó að það séu auðvitað brýnar og nauðsynlegar framkvæmdir, þá er stundum horft eitthvað mikið á það, þarna er þó ekki verið að byggja til að mynda íþróttamannvirki eða annað slíkt, þá held ég nú að þetta muni standa dálítið í mörgum, að setja í þetta þessa peninga. En það hefði vissulega getað skipt máli að ríkissjóður hefði þá treyst sér til að taka myndarlega á með sveitarfélögunum í þessum efnum og það hefði verið verðugt viðfangsefni og framlag í umhverfislegu tilliti.
    En ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég hafði einhvern veginn gert mér vonir um að þarna ætti að vera eitthvað meira á ferðinni heldur en raunin virðist vera á. Auðvitað skil ég forsvarsmenn sveitarfélaganna, að þeir vilji fá þetta afgreitt frekar en ekki neitt, skárra væri það nú. Auðvitað er það þó betra en ekki neitt að eiga von í því að fá einhvern hluta af þessum virðisaukaskatti endurgreiddan, en það er ekki mikill rausnarskapur satt best að segja. Þvert á móti er það þannig að ríkið mundi miðað við þessar forsendur, sýnist mér, hafa þetta verkefni að féþúfu svo næmi kannski 1--2 milljörðum kr. þegar upp væri staðið. Það er spurning hvort það er skynsamlegur hlutur eins og þessi mál standa.
    Um það sem þetta frv. snýst að öðru leyti og varðar framkvæmdaatriði þessa máls og samskipti ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum, þá ætla ég ekkert að tefja tímann með því að fara að gera mikið úr því. Það eru einfaldari atriði sem ég held að menn mundu hafa sig fram úr að lagfæra ef á þyrfti að halda og ég hef ekki haft tíma til að fara mjög rækilega yfir það. En ég hefði fyrst og fremst óskað eftir því að hæstv. umhvrh. gerði betur grein fyrir þessu sem ég hef gert að umtalsefni, þ.e. umfangi þessa verkefnis og hvernig hæstv. ráðherra metur stöðu sveitarfélaganna til að ráðast í það og í þriðja lagi hvernig hæstv. ráðherra reiknar þetta dæmi út. Hvort það er með þeim hætti sem ég hef hérna farið yfir varðandi virðisaukaskattinn, að þetta séu allt virðisaukaskattskyldar framkvæmdir og gefi þá ríkissjóði tekjur upp á 3--4 milljarða og síðan sé þá endurgreiðslan, ef heimildirnar yrðu nýttar til fulls, þ.e. ef í þetta yrðu lagðar þessar 200 millj. á ári og/eða 20%. En nú er orðalag 4. gr. auðvitað þannig að það ber það greinilega með sér að þarna er allt galopið því þar stendur: ,,Fjárhagslegur stuðningur ríkisins vegna framkvæmda sveitarfélaga við fráveitur samkvæmt 3. gr. getur numið allt að 200 millj. kr. á ári eftir því sem nánar er kveðið á um í fjárlögum, þó aldrei hærri upphæð en sem nemur 20%.`` Þannig að þetta er auðvitað heimildarákvæði í þeim skilningi að sveitarfélögin eiga ekki sjálfkrafa rétt á neinu heldur fer það eftir ákvörðunum þá og fjárlögum hverju sinni, pólitískum geðþótta, ef við köllum það svo. Þá er auðvitað fróðlegt að heyra það frá hæstv. umhvrh.: Hefur þessi ríkisstjórn, svona fræðilega séð upp á síðari tíma, það hefur ekki mikið gildi upp á framtíðina vitum við af því að hún situr ekki lengur vonandi en í mesta lagi fram á vorið, tekið ákvörðun um það að leggja í þetta 200 millj. á ári? Hefur hæstv. fjmrh., sem forðaði sér út úr salnum eins og byssubrenndur um leið og þetta mál var tekið fyrir, gefið eitthvert loforð um það að setja í þetta 200 millj. á ári? Og hvaða peningar eru í þetta á fjárlögum í ár? Er ekki hæstv. umhvrh. að flytja hérna í raun og veru hálfgert sýndarmennskuplagg, ef það er hvort tveggja þannig að það séu engir peningar í þetta í ár og hæstv. fjmrh. sé á flótta undan málinu og hverfi úr þingsalnum eins og kólfi væri skotið þegar málið kemur á dagskrá? Ég óska eftir því að hæstv. umhvrh. svari þessu aðeins og ætla að skilja það sem eftir er ræðutíma míns eftir, heilar 7 mínútur, í því skyni að greiða fyrir því.