Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 00:04:20 (4676)


[00:04]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alls ekki rétt að ég hafi gert hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni það upp að hann vildi stoppa frv. Það sagði ég aldrei. En mér þótti sem það gætti nokkurs vanþakklætis í ræðu hans vegna þess að ég veit að í hjarta sínu býr hann yfir ríkulegu örlæti. En auðvitað tók hann það fram í sinni seinni ræðu að þetta væri betra en ekki neitt. Nú, það er alltént nokkuð. Hefði hann betur sett þá skoðun fram um önnur frumvörp sem hér hafa verið til umræðu á síðustu dögum, eins og t.d. frv. um náttúruvernd.
    Hv. þm. talaði um að ríkið græddi 3--4 milljarða. Nú er það svo að af þessari tölu, 15--20 milljörðum, og ég vek athygli á því hversu ónákvæm hún er vegna þess að það er ekki hægt að fá betri skilgreiningu á umfangi þessara miklu verkefna, þá er þegar lokið talsvert miklu. Það er ekki hægt að greiða þetta aftur í tímann, en það kemur mjög skýrt fram hvað það er sem er ekki greitt, það eru t.d. ekki undirbúningsrannsóknir, hönnun, útboð eða kostnaður við þá og fjármagns- og lántökukostnaður og kaup á löndum og lóðum vegna framkvæmda. En sjálfar framkvæmdirnar, þ.e. rotþrær, hreinsidælustöðvar, sniðræsi frá safnkerfum fráveitna og útrásir, verða styrkhæfar.
    Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að þetta er sem sagt ígildi virðisaukaskattsins. Það var tillagan sem kom fram og sem fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga féllust á. Ég þori ekki að fullyrða að þeir hafi flutt hana, mig minnir það samt.
    En að því er varðar þær kvaðir sem hv. þm. segir að ríkisstjórnin hafi sett á sveitarfélögin, þá er það rétt að með alþjóðlegum skuldbindingum og samningum sem við höfum orðið aðilar að þá eru settar nokkrar kvaðir á sveitarfélögin. Hitt vil ég að fram komi að sveitarfélög eins og t.d. Reykjavík og líka Akureyri, sem er í kjördæmi hv. þm., höfðu áður en Ísland undirgekkst þær skuldbindingar verið búin að móta sér framtíðarstefnu í þessum málum, m.a. meðan sá flokkur sem hv. þm. er í var í meiri hluta í bæjarstjórn Akureyrar, þar sem byggði einmitt á þessum kröfum sem markaðssvæði okkar, hin helstu, úti í Evrópu hafa gert að sínum.