Barnalög

102. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 13:08:13 (4723)

[13:08]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég tel rétt um leið og þetta frv. er hér á dagskrá að vekja athygli á því að barnaverndarmál hafa mjög verið í brennidepli á þessu og sl. ári. Ástæðan er sú að við höfum í reynd það kerfi að bókarinn er endurskoðandi með sjálfum sér, framkvæmdarvaldið er endurskoðandi með sjálfu sér, þ.e. við siglum þá leið að hafa þetta í höndum framkvæmdarvaldsins í stað þess að hafa hluta þess í höndum framkvæmdarvalds en láta svo dómsvaldið sjá um hlutina.
    Ég vil halda því fram að við séum komnir í miklar ógöngur með þessi mál. Ef fréttamenn spyrja þá er sama svarið: Það er ekki heimilt að segja frá neinu. Það er þagnarskylda, segja þessir aðilar. Um leið og þeir halda því fram að það sé þagnarskylda þá líta þeir svo á að þeir þurfi ekki í reynd að gera þjóðinni grein fyrir því sem hefur verið að gerast. Ég hef talið svo að það væri ekki veitt svo miklu fjármagni til löggæslu, að hún hefði sem sagt nóg verkefni við að fást við hina stærri glæpamenn samfélagsins, en að fíkniefnalögreglan eigi að elta uppi börn og mæður þessa lands finnst mér alveg með ólíkindum. Og þegar það er svo sagt frammi fyrir alþjóð að símahlerunum hafi ekki verið beitt þá hygg ég að greindarvísitalan megi vera ansi lág ef þeir trúa því að það sé rétt.
    Að mínu viti gengur þetta kerfi ekki lengur. Það verður að taka á þessum málum í ljósi þeirra vinnubragða að aðeins með þrískiptingu valdsins, þ.e. að hafa dómsvald, framkvæmdarvald og löggjafarvald, er hægt að halda uppi eðlilegu aðhaldi á þessu sviði sem öðrum. Hér er verið að setja plástur á plástur ofan og það er ríkið, framkvæmdarvaldið, sem á að ráðskast með þessi mál án þess að menn fái rönd við reist og sitja uppi með það að seinvirkt dómskerfi einnig geri það að verkum að við Íslendingar stundum í stórum stíl fráfærur, fráfærur sem ekki ættu að eiga sér stað, í stað þess að fara þá leið sem er þó heimil samkvæmt íslenskum lögum og notuð er á hinum Norðurlöndunum, þ.e. að veita aðstoð inn á þessi heimili. Sú aðstoð þarf ekki að vera í höndum neinna sérfræðinga. Sú aðstoð þarf fyrst og fremst að vera á þann veg að húsmæður sem hafa komið börnum sínum á legg fái tækifæri til að sinna slíkum störfum í stað þess að halda áfram á þeirri braut sem við erum.
    Ég er því miður hræddur um að þessi skrípaleikur haldi áfram. Ég er því miður hræddur um að við megum búa við það á næstu árum að lögreglan verði notuð til að hundelta börn og mæður og að það verði alltaf sama svarið: Það er þagnarskylda, við höfum ekki heimild til að greina frá því hvers vegna þetta er svona eða hinseginn. Og meðan við höfum ekki manndóm til að breyta þessu kerfi okkar í þá átt sem það er t.d. í Bandaríkjunum þá erum við í reynd að færa framkvæmdarvaldinu einveldi á þessu sviði á bak við lokaðar dyr. Erlendis er það svo að það eru fyrst og fremst herdómstólar sem starfa á bak við lokaðar dyr.
    Ég taldi rétt að koma þessu á framfæri hér vegna þess að eitthvað eru menn farnir að efast um það í þessu frv. að alltaf hafi hæfir fósturforeldrar verið fengnir til starfa. Menn eru farnir að efast um að það hafi nú alltaf gerst. Menn eru farnir að trúa því að stundum hafi e.t.v. orðið mistök og fósturforeldrarnir sem fengu barnið hafi reynst óhæfari en sá sem áður fór með forræði þess. Og skyldi það vera út í bláinn að menn séu farnir að efast? Eða er það kannski tilfellið að á bak við lokaðar dyr og læstar skúffur liggi fyrir nægar upplýsingar sem sanni að það sé nauðsyn að fara að velja betur fósturforeldra en gert hefur verið.
    Mér finnst nefnilega að það sé umhugsunarefni fyrir Alþingi þeir plástrar sem hér er verið að setja, eins og í stað orðsins ,,félagsmálaráðuneyti`` í 4. gr. komi ,,barnaverndarstofa``. Barnaverndarstofa. Það er ekki stofnun, það er stofa. Þar á þá hvorki að vera eldhús eða svefnherbergi, ef það er hugsað til venjulegrar húsaskipunar, en eitthvað hefur mönnum fundist fallegt við að setja þetta upp, að það ætti að vera stofa sem sæi um þetta. Þarna er náttúrlega verið að fara í kringum hlutina. Í stað þess að segja bara stofnun, eins og raunverulega er verið að tala um, þá á þarna að vera stofa. Þetta er þekkt úr málinu. Ef mönnum finnst eitthvað orð svo leiðinlegt og hættulegt að það sé ekki hægt að nota það lengur vegna þess að það hefur skaðað eigið álit í gegnum tíðina þá reyna menn að finna annað orð sem táknar það sama en á

að vera miklu fínna í bili.
    Auðvitað verður það svo að stjórn barnaverndarmála er og verður grafalvarlegt mál. Það er verið að ráða örlögum einstaklings, einstaklings sem hvorki fékk að velja sér þann kost að koma í þennan heim eða ekki og fær ekki að velja sér þann kost hvað við hann er gert. Það eina sem verður sagt við hann er að 16 ára sé hann orðinn sjálfs sín ráðandi.
    Mér finnst að Alþingi Íslendinga sem er að fást við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar þurfi að hugsa sig mjög vel um áður en það setur nýja plástra á það kerfi sem hefur verið notað til þess að svipta foreldra rétti yfir börnum sínum. Það má vel vera að menn geti sannað það undir sumum kringumstæðum að barnið muni ná betri árangri í skóla ef þetta er gert. Það getur vel verið. En tilfinningalegur skaði sem getur átt sér stað getur orðið það mikill að viðkomandi einstaklingur muni bera hatur til samfélagsins það sem hann á eftir ólifað. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að Alþingi Íslendinga setji nefnd til að fara ofan í þetta mál og setji þar ekki nefnd embættismanna heldur nefnd alþingismanna vegna þess að þetta er löggjafarsamkoma Íslands og við berum ábyrgð á því sem verið er að gera. Við berum fulla ábyrgð á því, íslenskir alþingismenn, þegar íslenska lögreglan fær fyrirmæli um að það sé forgangsverkefni að hundelta einhverja konu sem hefur ákveðið að reyna að bjarga barninu sínu á þann hátt að hún tapi því ekki. Það eru harla lítil rök fyrir því að það geti verið forgangsverkefni hjá fíkniefnalögreglunni að vinna að slíkum verkefnum.
    Ég á ekki von á því að það sem ég hef sagt hér hafi nokkur áhrif á afgreiðslu þessa frv. sem hér liggur fyrir. Ég geri ráð fyrir því að það verði samþykkt mótatkvæðalítið. Hins vegar þótti mér dálítið gaman að sjá að í einu stjfrv. sem hér liggur fyrir á Alþingi Íslendinga er markmiðsgrein og markmiðsgreinin er í átt til þess sem ég taldi að væri eðlilegt. En við mikla yfirburði í atkvæðamagni var felld frá mér brtt. á sínum tíma þegar ég lagði til að markmiðsgreinin yrði líkari því sem talað er um í dag. Og það er eins og það þurfi stundum að ræða hér mál, þó að þau skili engum árangri meðan þau eru rædd, en e.t.v. verða þau til þess að sá þeim frækornum að menn efist um að það sem þeir hafa verið að gera á undanförnum árum sé allt satt og rétt og það þurfi að skoða sum mál upp á nýtt. Og ég er sannfærður um að það þarf að skoða þessi mál frá grunni. Svona plástrar duga ekki.