Listmenntun á háskólastigi

102. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 13:53:44 (4733)


[13:53]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst mikilvægt að það kom fram í máli hæstv. menntmrh. að hjá honum er ekki um að ræða sama vantraustið á Reykjavíkurborg og kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. Hæstv. menntmrh. gerir ráð fyrir því að Reykjavíkurborg komi við sögu í þessu máli ekki síður en verið hefur enda engin ástæða til þess að væna borgina um það að hún vilji liggja á liði sínu í þessu efni.
    Ég bendi hins vegar á það, hæstv. forseti, að þegar núv. ríkisstjórn tók til starfa 1991, þá lá fyrir samningur um listnám á háskólastigi og það hafði einnig verið tekin um það ákvörðun að listnám á háskólastigi gæti farið fram á tilteknum stað í höfuðborginni. Niðurstaðan hefur orðið sú að þetta mál hefur verið saltað allt kjörtímabilið og nú eru 2--3 dagar eftir af þingstörfum á kjörtímabilinu og þá eru menn að afgreiða þetta frv. sem ég kalla hálffrumvarp eða hálflög af því að það eru engir peningar í því. Það er nú einu sinni veruleikinn. Ég vona, hæstv. forseti, að þetta verði ekki til þess að vekja upp vonir sem síðan breytast í vonbrigði. Ég vona þvert á móti að menn hafi þá döngun í sér til að fylgja þessu máli eftir þó að það sé útbúið með þeim hætti sem hér liggur fyrir og ég hef gagnrýnt, en ég hef sagt: Ég tel betra að stíga þetta skref heldur en gera ekkert í þessu máli.