Framhald þingfundar

102. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 15:04:19 (4754)


[15:04]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Mér finnst þetta vera að komast í hálfgerðar ógöngur. Ég veit ekki betur en það hafi verið gert samkomulag um að þingmenn kæmu að sínum málum í dag og gætu mælt fyrir þeim. Nú hefur hins vegar farið svo að allur tíminn hefur farið í stjórnarfrumvörp og þá er ósköp einfaldlega það ráð hendi næst að standa við þetta samkomulag með því að á morgun, á eðlilegum fundartíma, verði sambærilegur tími til ráðstöfunar til þess að taka fyrir þingmannamál. Það er auðvitað alger óhæfa að halda þessum fundi mikið lengur áfram í ljósi þeirra hefða sem ríkt hafa um að menn hefðu næði til að undirbúa sig fyrir eldhúsdagsumræður og er þegar búið að þverbrjóta þá hefð með því að hér hafa staðið nefndafundir og síðan þingfundur í allan dag. Ég tel í raun og veru alls ekki boðlegt að ætla mönnum að velja milli þess að koma sínum málum alls ekki að eða hins að tala hér langleiðina fram undir þann tíma að eldhúsdagsumræðan á að hefjast. Ég skora á hæstv. forseta að láta kanna það hvort ekki er hægt að leysa málið með því að á dagskrá fundarins á morgun einfaldlega verði gert ráð fyrir sambærilegum tíma og ráð hafði verið fyrir gert í dag til þess að taka þessi þingmannamál fyrir.