Kosningar til Alþingis

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 10:40:06 (4787)

[10:40]
     Flm. (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, sem eru nr. 80 frá 16. okt. 1987, með síðari breytingum. Flutningsmenn eru auk mín úr öllum þingflokkum, þeir hv. þm. Páll Pétursson, Guðmundur Árni Stefánsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Anna Ólafsdóttir Björnsson.
    Í frv. þessu er að finna allnokkrar breytingar á gildandi lögum um kosningar til Alþingis. Þó eru hér eingöngu þrjú atriði sem ég tel ástæðu til þess að reifa og gera grein fyrir. Að öðru leyti er hér um að ræða ýmiss konar tæknilegar breytingar og breytingar á ákvæðum sem hafa orðið úrelt eða eiga ekki lengur við með hliðsjón af breyttum lögum og stjórnarskrá að öðru leyti.
    Ég vil þá víkja að 2. gr. þessa frv. Sú grein kveður á um það efnislega að jöfnunarsæti milli kjördæma verða níu í stað átta og að svokallaður flakkari bætist við þau átta sem fyrir eru og koma til úthlutunar í kjördæmi fyrir kosningar. Þetta mun hafa þær afleiðingar miðað við þá reiknireglu sem er í b-lið greinarinnar að af þessum níu jöfnunarsætum munu fjögur koma í hlut Reykjaneskjördæmis en fimm í hlut Reykjavíkur. Með öðrum orðum, það sem gerist er ,,flakkarinn`` flyst til Reykjavíkur og tekur sér þar fasta bólsetu.
    Þessi tillaga er niðurstaða af starfi nefndar sem fulltrúar allra flokka hafa átt sæti í, þar á meðal allir flutningsmenn þessa frv. Sú nefnd hefur setið að störfum um nokkra hríð og leitað leiða til þess að gera tillögur um jöfnun atkvæðavægis í landinu. Á þessu stigi er ekki gerð frekari tillaga um breytingar í þá átt en það sem kemur fram í þessu frv. og engar tillögur koma að þessu sinni um breytingar á stjórnarskrá í því efni. Hins vegar er það vilji nefndarmanna að því starfi sem hafið er á hennar vegum verði haldið áfram á nýju kjörtímabili.
    Næsta grein sem mig langar til þess að víkja að er 6. gr. Þar er kveðið á um það að frestur til þess að leggja fram kjörskrár styttist úr sjö vikum í þrjár og má segja að það sé í samræmi við tæknibreytingar á þessu sviði hjá Hagstofu Íslands, sem nú þarf mun skemmri tíma til þess að ganga frá kjörskrá heldur en áður var í ljósi þess að lögheimili manna eru nú færð í tölvu og breytingar á þeim eru gerðar um leið og þær eru tilkynntar Hagstofunni en ekki miðaðar við ákveðna dagsetningu á árinu eins og hér var

fyrir nokkrum árum. Hins vegar hefur komið fram sú ábending að það getur verið óþægilegt fyrir stjórnmálaflokkana að hafa ekki aðgang að kjörskrám fyrr en þrem vikum fyrir kosningar. Fyrir liggur yfirlýsing af hálfu Hagstofunnar um að hún muni láta stjórnmálaflokkum í té bráðabirgðakjörskrá allt að sjö vikum fyrir kjördag þannig að styttri frestur á ekki að koma að sök í starfi stjórnmálaflokkanna. Að öðru leyti er hér um afar eðlilega breytingu að ræða.
    Ég vil þá að endingu, virðulegi forseti, víkja að bráðabirgðaákvæðum frv. Hið fyrra gerir ráð fyrir því að dómsmrn. skuli að lokinni birtingu þessara laga auglýsa úthlutun þingsæta samkvæmt 2. gr., sem ég vék að áðan, og það mun hafa í för með sér að fimm sæti verða í Reykjavík og fjögur í Reykjanesi til viðbótar þeim sætum sem ákveðin eru í stjórnarskrá. Aftur á móti er bráðabirgðaákvæði II annars efnis. Þar er gert ráð fyrir því að dómsmrh. fái heimild í komandi alþingiskosningum til þess að ákveða að kosningin sem ráðgerð er hinn 8. apríl nk. geti staðið í tvo daga, en ákvörðun þessa skuli hæstv. ráðherra birta í Ríkisútvarpinu í síðasta lagi tveim dögum fyrir kjördag. Um þetta eru síðan nánari ákvæði og reglur í þessari tillögu í bráðabirgðaákvæði II. Ástæðulaust er að hafa mörg orð um tilefni þessarar tillögu. Tilefnið er að sjálfsögðu það að í byrjun apríl getur verið allra veðra von á Íslandi og það er eðlilegt að búa sig undir það að ef veður eða ófærð hamla kosningu eða fyrirsjáanlegt að svo verður, þá megi hafa kjördagana tvo. Um þetta eru þingflokkarnir að ég vænti sammála.
    Ég vil að endingu leggja til, virðulegi forseti, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.