Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 14:33:58 (4799)


[14:33]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég tel að það sé engin óvissa í þessum efnum í dag. Fiskimiðin og nytjastofnarnir eru sameign þjóðarinnar. Ég held að ekki nokkrum manni hafi dottið neitt annað í hug og sú staða er fulltrygg. Hitt er annað að það getur verið skynsamlegt að kveða á um það í stjórnarskrá, en ég lít ekki svo á að það sé verið að eyða neinni óvissu með því heldur að leggja á þetta atriði, sem allir eru sammála um, nokkra áherslu.
    Hitt er svo annað mál að það hafa verið nokkuð skiptar skoðanir um það hvort ákvæði núverandi fiskveiðistjórnunarlaga samrýmdust. Sumir hafa haldið því fram að meginefni laganna samrýmdist ekki 1. gr. En með stjórnarskrárbindingu um að fiskimiðin og auðlindirnar séu þjóðareign en nýtingarrétturinn skuli ákveðinn í lögum þá erum við að styrkja með alveg ótvíræðum hætti stöðu gildandi fiskveiðistjórnunarlaga. Ég tel að það sé mikill kostur og væri höfuðtilgangurinn og höfuðmarkmiðið með samþykkt slíkrar stjórnarskrárbreytingar við þessar aðstæður. ( ÓRG: Styrkja núverandi fiskveiðistjórnunarlög?) Já. ( ÓRG: Ætlar þú þá að fara að lofa . . .  )