Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 22:08:29 (4853)

[22:08]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alls ekki rétt að ég sé eitthvað sérstaklega að leita eftir atkvæðum kvenna, ég er líka reiðubúinn til þess að taka við atkvæðum karla. Það er alrangt að áhugi minn á jafnréttismálum sé eitthvað nýfenginn. Það kann að vera að áhugi minn á uppeldismálum hafi vaknað talsvert mikið upp á síðkastið, ég viðurkenni það. Hins vegar er það svo að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið ráðherra jafnréttismála í sjö eða átta ár og það er nýkomin könnun sem sýnir einmitt að munurinn á launum karla og kvenna hefur aukist. Hann hefur ekki minnkað á meðan hún var ráðherra. Það er ekki nóg, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, að leggja fram einhverjar áætlanir og einhverjar stefnur menn verða að gera eitthvað, menn verða að ýta á eftir því og ég segi: Það hefur þessi hv. þm. ekki gert. Einmitt sú könnun sem hún hratt af stað sýnir það.