Vaxtalög

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 02:33:59 (4911)


[02:33]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þarf að leiðrétta ákveðið atriði sem ég sagði áðan, vil ekki láta það fara óleiðrétt. Ég sagði það og það er rétt, að örfáum mánuðum eftir að Ólafslög voru samþykkt á Alþingi hvarf Alþfl. úr ríkisstjórn, en ég missagði það að eftir hafi setið Alþb. í tvö og hálft ár, það voru þrjú og hálft ár, meira að segja rúm þrjú og hálft ár. Og á þeim þremur og hálfu ári var ekki hreyft við Ólafslögum. Þetta leyfði ég mér að benda á og það er ekki verið að kasta þar steini að nokkrum manni, það var bara verið að segja frá einföldum pólitískum staðreyndum.
    Það er líka einföld pólitísk staðreynd að þjóðin hefur tvívegis fellt dóm um þessa tvo flokka í síðustu tvennum kosningum. Alþfl. þarf ekkert illa við þá dóma að una, þeir voru honum hagstæðari heldur en Alþb. Hvernig næstu kosningar fara? Við skulum spyrja að leikslokum.