Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 11:22:45 (4927)


[11:22]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er greinilegt og auðheyrt að þetta mál er viðkvæmt fyrir hv. þm. stjórnarliðsins og ég skil það mjög vel. Já, ég leyfði mér að spyrja að því hvort það væri kannski þannig að stjórnarflokkarnir, meiri hlutinn teldi sig geta rekið skólana án kennara. Það var ekki út af efni þessa frv., hv. þm., sem ég spurði, heldur var það vegna þeirra samskipta eða öllu heldur kannski samskiptaleysis sem maður horfir upp á milli hæstv. menntmrh., milli meiri hlutans og kennarastéttarinnar í landinu. Það var þess vegna sem ég spurði, vegna þess að hæstv. ríkisstjórn er að reyna að troða þessu máli hér í gegn á sama tíma og hún stendur í kjaradeilu við kennara og verkfall stendur yfir og í andstöðu við þá vegna þess að það liggur fyrir að kennarasamtökin eru andvíg því að málið sé afgreitt við þessar aðstæður. Þau vilja ekki að löggjafinn gangi frá, lögfesti þennan verkefnatilflutning fyrr en búið er að koma þeirra réttindamálum í sambandi við það í höfn. Það er eðlileg krafa vegna þess að kennarastéttin hefur ekki stöðu til þess að gæta hagsmuna með sama hætti og ýmsir aðrir aðilar í þessu máli. Það er óeðlilegt, að mínu mati, og öfugur endi á hlutunum að byrja að taka þessa afgreiðslu í gegn núna við þessar aðstæður og það er heimskulegt, vegna þess að hvernig í ósköpunum ætla menn að reka skólana á Íslandi öðruvísi en að það sé hægt að gera í sæmilegu andrúmslofti við kennarastéttina í landinu? Ríkisstjórn, meiri hluti sem er svo heillum horfinn að ganga fram með þeim hætti sem nú er verið að reyna að gera, hún vekur spurningar af þessu tagi, það er það sem ég átti við. Hún vekur spurningar um það hvort menn telji sig virkilega geta starfrækt skóla á Íslandi án kennara. Og það var minn glæpur hér, hv. þm., að ég spurði að því. Hv. þm. hefur svarað fyrir sína hönd, en ef ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra breytir ekki um stefnu í þessum málum þá vakir sú spurning áfram.