Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 14:55:19 (4966)


[14:55]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sá ágæti þingmaður sem hér var að ljúka ræðu sinni taldi að ég hefði hnjóðað í kennarasamtökin og kallað þau þrýstihóp úti í bæ. Þessi ágæti þingmaður hefur sýnt það á þessu kjörtímabili að í hvert skipti sem viðkvæmar kjaradeilur standa uppi gerist hann talsmaður launþegahópanna sem eiga í viðkvæmum kjaradeilum og talar máli þeirra og talar til þeirra hér á þingpöllum eins og þeir vilja

heyra. Hann segir við þessa kjarahópa nákvæmlega það sem þeir vilja heyra. Þetta gerði hann líka árið 1988 þegar hann var þingmaður, þá talaði hann í stjórnarandstöðu líka máli launþeganna. Síðan gerðist hann menntmrh. ásamt kollega sínum Ólafi Ragnari Grímssyni, sem gerðist fjmrh., og þá fékk hann tækifæri til þess að standa við orðin. En hvað gerðist þá? Hann sveikst aftan að kennarastéttinni með því að semja við hana fyrst um tímamótasamning og ógilda svo samninginn. Og nú enn eins og hann hafi enga fortíð í málinu þá vill hann gera þá kröfu til fólksins í landinu að hann sé tekinn trúanlegur sem sérstakur málsvari kennarastéttarinnar. Hv. þm. er það ekki og getur aldrei orðið það eftir þessa reynslu. Hann verður það aldrei í augum þess kennara gamla sem hér stendur.