Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 14:59:41 (4970)


[14:59]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Til þess að verða ekki sakaður um málþóf þá ætla ég að segja strax að ég mun halda stutta ræðu en andsvarstíminn dugir mér ekki. Þess vegna bað ég um orðið.
    Hv. þm. Svavar Gestsson kvaðst undrast mjög málflutning okkar stjórnarliða. Hvers vegna? Hvers vegna undrast hann okkar málflutning? Hann undrast hann vegna þess að hann er óvanur því svona á lokadögum þings að stjórnarliðar svari sífelldum árásum stjórnarandstæðinga. Það er ætlast til þess að við sitjum þegjandi undir ruglinu sem kemur frá hv. stjórnarandstæðingum og ef við skyldum nú voga okkur að svara þá erum við sakaðir um málþóf og að vilja koma í veg fyrir að þau mál sem við erum sjálfir með og viljum fá afgreidd hljóti afgreiðslu. Þetta er ástæðan fyrir því að hv. þm. er undrandi á því að við skulum leyfa okkur að svara öllu ruglingu sem kemur fram í málflutningi hv. stjórnarandstæðinga. Sem sagt, ef við leyfum okkur að tala þá er það kallað málþóf og að við séum að koma í veg fyrir að þau mál sem við erum sjálfir að berjast fyrir nái fram að ganga. Við eigum sem sagt að þegja til þess að spilla ekki fyrir framgangi okkar eigin mála.
    Hv. þm. taldi að samþykkt Sambands ísl. sveitarfélaga, sem kynnt var í hv. menntmn., væri einhver pólitísk leikflétta Sjálfstfl. og Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég bíð nú eftir andsvörum frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga við svona málflutningi. ( GÁ: Ef hún kemur.) Ég trúi því að því verði svarað sem þarna hefur verið sagt. Mér þætti út af fyrir sig fróðlegt að vita af því að ég trúi því að hv. þm. Svavar Gestsson eigi sæmilegan aðgang að framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga, fyrrv. varaþm. Alþb., hvort hann, framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga, sé hér í einhverri pólitískri leikfléttu með Sjálfstfl. Það væri fróðlegt að vita það. En ég bíð eftir viðbrögðum frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og ég trúi ekki öðru en þau viðbrögð hljóti að koma nú þegar í dag. Ég vænti þess. ( GÁ: Talaðu við litlu sveitarfélögin.)
    Síðan kom þessi gamla saga frá hv. þm. Svavari Gestssyni og það er ekki í fyrsta skipti sem hann segir hana. Það er sagan frá Finnlandi. Það er alveg sama hversu oft ég fer yfir það mál. Samt skal haldið áfram að segja þessa sögu til þess að hræða hv. alþingismenn frá því að greiða atkvæði með flutningi grunnskólans til sveitarfélaga. ( SvG: Varstu búinn að heyra þetta áður?) Ég var búinn að heyra þetta áður, já. Það er nú einmitt það. Ég skal reyna að fletta því upp í þingtíðindum og finna gamlar ræður þingmannsins einmitt um þetta.
    Það sem gerðist í Finnlandi var að grunnskólinn var fluttur yfir til sveitarfélaganna en með allt öðrum hætti en hér er verið að leggja til, með allt öðrum hætti. Það var gert þannig að ríkisstjórnin, fjárveitingavaldið í Finnlandi, skammtar peningana til sveitarfélaganna til þess að reka grunnskólann og það var fjárveitingavaldið í Finnlandi sem skar niður fjárveitingar til reksturs grunnskólans hjá sveitarfélögunum. Það er ekki ætlunin að gera hér. Hér fá sveitarfélögin aukna hlutdeild í staðgreiðslunni til þess að geta staðið undir þessum rekstri. Það er þveröfugt farið að. ( SvG: Það liggur ekkert fyrir um það.) Liggur ekki fyrir um það? Það er beinlínis sagt hér í frv. ( SvG: Nei.) Nei, það er ekki búið að samþykkja það, það er einmitt það. Og það er það sem þið eruð að reyna að koma í veg fyrir.
    Í öðru lagi voru öll samræmd próf felld niður við flutning grunnskólans til sveitarfélaganna í Finnlandi. Öll samræmd próf voru felld niður í fullkomnu ósætti við kennarasamtökin í Finnlandi og það hefur verið krafa kennarasamtakanna að samræmd próf yrðu tekin upp í Finnlandi.
    Í þriðja lagi ætla ég að nefna að það hefur ekkert eftirlit verið uppi af hálfu ríkisvaldsins í Finnlandi með framkvæmd grunnskólalaganna eftir að skólarnir voru færðir yfir til sveitarfélaganna. Það er ekki ætlunin að gera svo hér. Þvert á móti er talað um eftirlit sem hv. þm. Svavar Gestsson fer háðsyrðum um. Vegna hvers? Vegna þess að hann hefur ekkert viljað hafa neitt eftirlit yfirleitt með framkvæmd grunnskólalaga. Það hefur m.a. komið fram í því að hann afnam próf í tveimur greinum meðan hann var menntmrh. ( SvG: Svakalegt.) Já, það var það. Það er einmitt það. Og það er eitt af því sem menn verða að skilja, ég geri að vísu ekki kröfu til þess að hv. þm. geri það, en ég geri ráð fyrir að ýmsir aðrir muni skilja það að þegar svona grundvallarbreyting á sér stað eins og þegar grunnskólinn er fluttur að fullu og öllu yfir til sveitarfélaga, þá breytist auðvitað viðfangsefni ráðuneytisins m.a. að því er tekur til eftirlits með því að skólalöggjöfinni sé framfylgt. Eitt með öðru sem þar þarf að hafa uppi eru samræmd próf og við leggjum til í frv. að þau verði tekin upp, ekki bara við lokapróf úr 10. bekk heldur einnig í 4. og 7. bekk. Svo talar hv. þm. um það sem einhverja allsherjarlausn sem hann hefði fundið upp að það eigi ekki að vera að tala um þessi samræmdu próf heldur könnunarpróf. Það er einmitt það sem við leggjum til í þessu frv. og er eitt með öðru sem bendir til þess að hv. þm. sé alls ekkert nógu vel lesinn í frv. Hann þyrfti að lesa betur. Það sem við erum að gera hér er alger andstæða við það sem gert var í Finnlandi og það er ástæðan fyrir því hvernig hefur farið fyrir málefnum grunnskólans í Finnlandi að það hefur verið ranglega staðið að verki.
    Síðan talar hv. þm. um réttindamál kennara og af hverju ég geti ekki lýst því yfir að kjör kennara, lífeyrisréttindi, ráðningarkjör og annað slíkt verði með sama hætti og er í dag. Ég get ekki lýst því yfir vegna þess að það er nefnd að störfum sem er að fara yfir öll þessi mál. Grunnurinn að starfi þeirrar nefndar er nefndarálit sem skilað var í apríl sl., nefndar sem ég skipaði og í sátu fulltrúar frá menntmrn., fjmrn., samtökum kennara og samtökum sveitarfélaganna. Það er grunnurinn að starfi þeirrar nefndar sem nú er að vinna og það er ekki góð stjórnsýsla ef ætlast er til þess að ráðherrar fari hér og nú að segja þessari nefnd fyrir verkum, hvernig hún eigi að starfa. En ég spyr hins vegar að gefnu tilefni: Hvað er það sem hv. þm. Svavar Gestsson er reiðubúinn til að lýsa yfir í sambandi við þessi mál? Ég spyr hann hvað hann væri tilbúinn að segja sem ráðherra. Ég veit alveg hvað hann er tilbúinn til að segja sem stjórnarandstæðingur, það fer ekkert á milli mála, ekki neitt. Hann tekur undir það, eins og hv. þm. Tómas Ingi Olrich var að rekja, hann tekur undir allt sem samtök úti í bæ vilja fá fram. Hann hefur alltaf gert það meðan hann er í stjórnarandstöðu og jafnvel meðan hann er sem ráðherra þó að hann ógildi það á eftir. Það er einmitt málið.
    Hv. þm. sagði að það væri ekkert nýtt að talað væri um flutning grunnskólans til sveitarfélaga. Nei, það er vissulega rétt, það er ekkert nýtt. Og það voru stigin þar geysilega stór skref með verkaskiptalögunum 1989 sem tóku gildi 1. jan. 1990, en þar var ekki stigið þetta skref sem við erum að stíga núna. Og af hverju ætli það hafi ekki verið stigið? Það var vegna þess að hv. þm. sem þá var menntmrh. vildi það ekki og það kemur fram, það gengur eins og rauður þráður í gegnum allan hans málflutning hér að hann

vill ekki að það sem eftir er hjá ríkinu af málefnum grunnskólans fari yfir til sveitarfélaganna. Það er bara þannig. Hann virðist heldur ekki skilja að það er meira en að taka bara þá einu ákvörðun að grunnskólinn skuli fara til sveitarfélaganna. Það þarf að gerbreyta allri grunnskólalöggjöfinni til þess að það verði gert og þess vegna er það sem frv. er með þeim hætti sem það er.
    Það er alveg rétt að þessi umræða komst ekki á neitt skrið fyrr en á þessu kjörtímabili. Það sem ríkisstjórnin er að gera er í fyrsta lagi að verða við sífelldum og margítrekuðum beiðnum sveitarfélaganna um að fá þennan síðasta þátt grunnskólans yfir til sín. Í öðru lagi er hún að standa við ákvæði í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar. Það er það sem verið er að gera.
    Hv. þm. bað svo um að það yrði sérstaklega hlustað á það sem samtökin Þroskahjálp hafa fram að færa. Það er sjálfsagt að hlusta á það sem samtökin Þroskahjálp biðja um. En þá kem ég að því sem margsinnis hefur komið fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar og raunar fleiri stjórnarandstæðinga og það er það sem varðar sérkennsluna. Það er eins og sérkennslan í gildandi grunnskólalögum sé eitthvert töfraorð, það snúist allt um sérkennslu. Það er rétt það er ekki talað um sérkennslu í þessu frv. En málefni þeirra sem eiga erfitt með nám sökum námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra eins og segir í 37. gr. frv., eða fötlunar, þessir aðilar eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi. Og það er eins og vegna þess að ekki sé talað um sérkennslu þá sé þessi starfsemi öll að hrynja til grunna. Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega? Það er alveg með ólíkindum að menn skuli vera að gera þetta tortryggilegt með þeim hætti sem gert er hér í hverri ræðunni á fætur annarri. ( SvG: Ertu að tala um Landssamtökin Þroskahjálp?) Ég er að tala um þau ákvæði í frv. sem eiga að tryggja þeim sérstaka aðstoð sem þurfa á henni að halda. Það eru alveg ótvíræð ákvæði um það í frv. ( SvG: Ráðherrann er að tala um Landssamtökin Þroskahjálp.) Þetta er enn eitt sem bendir til þess að hv. þm. sé illa lesinn í frv. þótt hann hafi átt sæti í menntmn. sem hefur haft frv. til meðferðar síðan í byrjun nóvember.
    Ég held að ég sé nú ekki að elta ólar við allt það sem hv. þm. sagði. Ég bendi bara á ákvæði 37. og 38. gr. varðandi þann sérstaka stuðning í námi sem þeir eiga rétt á sem á honum þurfa að halda.
    Þá er gert að umræðuefni gildistökuákvæðið í 57. gr. og það virðist eitthvað fara á milli mála, ef frv. verður samþykkt núna, hvort það öðlast gildi þá þegar eða ekki fyrr en 1. ágúst 1996. Það á ekkert að vera neitt deilumál. Það segir beint í 57. gr. að lög þessi öðlist þegar gildi. Hins vegar er skilyrði komið fram frá hv. menntmn. og þetta skilyrði er tvíþætt. Það er annars vegar að sett hafi verið löggjöf um breytingu á tekjustofnum sveitarfélaga og hins vegar um lífeyrisréttindi kennara. Það eru skilyrðin fyrir því að endanleg yfirfærsla eigi sér stað 1. ágúst 1996. Ef ekki tekst að afgreiða þá löggjöf fyrir þann tíma, þá frestast þessi síðasti þáttur sem er sá að kennarar verði starfsmenn sveitarfélaga. Þetta er ekkert flóknara en þetta. Hv. þm. bað mig svo um hins vegar að stafa það yfir löggjafarsamkomunni, eins og ég held að hann hafi orðað það, hvaða ákvæði frv. öðluðust gildi nú þegar eða einhvern tíma á tímabilinu. Ég hef sagt það áður að ég get ekki sagt það í smáatriðum. Það fer eftir ákvæðum í reglugerð sem menntmrh. fær heimild til þess að setja. Við sjáum ekki út yfir þetta og það skal engan undra um svo flókið mál sem þessi yfirfærsla er. En meginatriðið er þetta að lögin öðlast gildi.
    Ég skal nefna eitt atriði sem mér finnst sjálfsagt að færist yfir til sveitarfélaganna fyrir 1. ágúst 1996 og það eru ráðningar kennara fyrir það skólaár. Ég sé ekki neitt vit í því að það atriði sé alfarið í hendi ráðuneytisins að ráða kennara fyrir skólaárið 1996--1997 og þessir sömu aðilar, sem ríkið væri þá á ráða, fæðust nánast daginn eftir yfir til sveitarfélaganna. Þetta finnst mér að eigi að koma til framkvæmda fyrir 1. ágúst 1996 svo að ég nefni nú bara eitt veigamikið atriði. Og þess vegna er það m.a. sem það er ekki hægt að segja í þessum lögum að þau skuli öðlast gildi í ágúst 1996, ekkert atriði skuli taka gildi fyrr. Þetta vona ég nú að menn skilji þegar það er stafað fyrir þá.
    Ég veit ekki hvort það eru svo sem mörg fleiri atriði sem ég þyrfti að nefna. Hv. þm. nefndi það að hann kynni ekki að meta það að félmrn. ætti eitthvað að hafa með skólamál að gera. Það er ekki verið að færa neitt vald yfir til félmrn. um skólamál. Undir félmrn. heyra sveitarfélögin og undir félmrn. heyrir stjórnunarlega Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Og það sem verið er að tala um er að hluti af þeirri fjármálalegu yfirfærslu, sem á sér stað til sveitarfélaganna vegna þessa nýja viðfangsefnis, fer yfir í jöfnunarsjóðinn einmitt til þess að jafna hina ólíku aðstöðu sveitarfélaganna. Hin fámennari sveitarfélög sem hafa litla tekjustofna fá einmitt framlög úr þessum jöfnunarsjóði. Og það er ekki menntmrn. sem ákveður hver þau framlög eigi að vera. Það er viðfangsefni sveitarfélaganna sjálfra að ráða fram úr því og ég treysti þeim mætavel til þess.
    Hv. þm. spurði svo um ákvæðið um fjölda í bekkjum. Já, ég er alveg tilbúinn til að athuga það enn þá, en mér sýnist að Samband ísl. sveitarfélaga sé fallið frá þeirri ósk sinni að það verði kveðið á um hámarksfjölda í bekkjum. Ég hef lýst því áður að ég sé alveg tilbúinn til þess að athuga það mál betur og sú yfirlýsing mín stendur. En ég held að sveitarfélögin séu hins vegar búin að átta sig á því að það er ekkert skynsamlegt fyrir þau að vera að njörva þetta niður eins og það er í gildandi lögum, en það kann þó vel að vera að það sé skynsamlegt að hafa eitthvert hámarksákvæði og hafa þarna svigrúm og meira svigrúm heldur en er í gildandi lögum. Það er ég alveg tilbúinn að athuga.
    Svo aðeins í lokin, hæstv. forseti. Það er talað um að ég hafi lítið aðhafst og lítið talað við stjórnarandstöðuna. Það er alveg rétt að ég hef svo sem ekki átt marga fundi með þeim á þessum tveimur dögum. Það er alveg rétt, en það er rangt að ég hafi ekki talað við forsvarsmenn kennarasamtakanna. Það gerði

ég síðast í hádeginu í gær á nokkuð löngum fundi og mér er alveg ljóst og ég þarf ekkert fleiri fundi með þeim, mér er alveg ljóst hvað þau samtök vilja eða forusta þeirra í sambandi við yfirlýsingar um þeirra lífeyrisréttindi og það eru yfirlýsingar sem ég treysti mér ekki til þess að gefa. Ég gæti sagt hér ýmislegt hvað mér þykir líklegt að verði niðurstaðan í starfi þeirrar nefndar sem nú vinnur að þeim málum, en slíkar bollaleggingar hafa enga þýðingu. Það eru ekki lög og ég er alveg viss um að það yrði snúið út úr því öllu sem ég segði, ég veit það alveg nákvæmlega. En ég þykist alveg vita hvernig sú lausn verður og ég fullyrði það að menn eru þar ekki á neinn hátt að reyna að klekkja eitthvað á kennurum framtíðarinnar, ef ég má orða það svo. Þeir munu öðlast þau réttindi sem verða fullnægjandi fyrir þá og menn eiga að láta af því að gera þetta svona tortryggilegt eins og sífellt er hér verið að gera í ræðum hv. stjórnarandstæðinga.