Vörugjald af olíu

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 17:02:57 (4994)


[17:02]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 773 um frv. til breytinga um vörugjald á olíu frá efh.- og viðskn. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund nefndarinnar þá sem upp eru taldir hér í þingskjalinu og umsagnir frá þeim aðilum sem þar eru nefndir sömuleiðis.
    Þetta mál var til umfjöllunar á allnokkrum fundum nefndarinnar og hefur auk þess verið í umræðu hér á Alþingi, ef ég man rétt, bæði í formi fyrirspurna og í umræðum um skattamál á öllum þingum þessa kjörtímabils. Það hefur legið fyrir um nokkurn tíma að óhjákvæmilegt er að breyta innheimtu vegagjalds af dísilbílum frá þungaskatti yfir í gjald á olíu. Fyrir því eru margvíslegar orsakir og ég ætla einungis að nefna hér tvær.
    Ökumælar þeirrar gerðar sem notaðir hafa verið eru að verða illfáanlegir og varahlutir í þá ófáanlegir vegna þess að við erum reyndar eina þjóðin í Evrópu og það eru sárafáir aðilar sem búa enn við þetta kerfi enn þá, alls staðar annars staðar er gjaldtakan komin inn í olíuna. Ég nefni einnig að sérstaklega flutningabílstjórar hafa kvartað mjög undan slæmri samkeppnisstöðu þeirra sem hafa greitt skilvíslega sitt mælagjald þar sem það liggur fyrir að undanskot í þessu eru mikil og kerfið er þannig að það hefur ekki tekist að fá einn einasta aðila dæmdan þó vitað hafi verið um svindl á mælunum.
    Nefndin gerir allnokkrar brtt. sem tilgreindar eru á þskj. 771. Olíufélögin gerðu verulegar athugasemdir við frv. og það hefur verið komið til móts við óskir þeirra í nánast öllum atriðum. Það er einnig ljóst að hér er um veigamikla kerfisbreytingu að ræða og þess vegna kemur nefndin m.a. með þá brtt. að gildistökunni er frestað. Henni er frestað til 1. jan. nk. og aðilum málsins ætlað að nota þann tíma til að vinna að þeim reglugerðum sem óhjákvæmilega þarf að setja til að hrinda þessu máli í framkvæmd.
    Þá vill nefndin undirstrika mjög rækilega það sem kemur fram í nál., að það er ekki ætlast til þess að þessi breyting hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir rekstur atvinnubifreiða með dísilhreyfla í landinu. Efh.- og viðskn. leggur til í tillögum sínum að það verði sett á fót nefnd þar sem verði m.a. fulltrúar Samtaka landflutningamanna, Bílgreinasambandsins, FÍB, sameinaðra bændasamtaka, LÍÚ og Samtaka iðnaðarins. Nefndinni verði ætlað í samvinnu við ráðuneytið að vinna að setningu þeirra reglugerða sem nauðsynlegar eru. Í öðru lagi er nefndinni ætlað að meta hvort sú upphæð sem hér er lagt til að verði lögfest varðandi olíugjaldið sé rétt, en það er verulegum vandkvæðum bundið að reikna það út og nokkuð ljóst að það mun ekki liggja endanlega fyrir fyrr en komin er nokkur reynsla á þetta nýja kerfi einfaldlega vegna þess að það eru ekki til nógu nákvæmar tölur um heildarnotkun dísilolíu á dísilbíla.
    Neytendur, bæði sérleyfishafar, hópferðabílstjórar og flutningabílstjórar, segja að eyðslan sé vanáætluð. Við ætlumst til þess að nefndin sem sett verði á laggirnar til að skoða þetta fari í sumar og fram á haustið ofan í saumana á þessu og ef það reynist svo að gjaldtakan sé of há þá verði það lækkað á haustþinginu. Það sem við leggjum hins vegar mesta áherslu, verði þetta frv. samþykkt, er að hér er þá búið að taka hina stefnumarkandi ákvörðun.
    Við bendum einnig á að það þurfi að skoða hagsmuni sérstaklega hópferða- og sérleyfishafa og leigubíla. Það er vegna þess að svo er með þessa aðila að þeir eru undanþegnir virðisaukaskatti og fá þess vegna ekki innskatt endurgreiddan, en þessi breyting þýðir það að þeir verða að borga virðisaukaskatt af olíugjaldinu sem verður þá hærra heldur en áður var. Þetta þarf að skoða og á því að taka ef þetta sýnir sig að vera íþyngjandi fyrir þessar greinar.
    Þá vil ég nefna það að nefndin hefur skoðað nokkuð þann kost að lita þá olíu sem ekki er gjaldskyld og það er sjónarmið nefndarinnar að eins og við sjáum það þá sé þar um að ræða kost sem sé það dýr að það sé vandséð að hann verði tekinn upp hér á landi, ekki í því formi sem hann er í dag, þ.e. sem þýðir sérstakar blöndunarstöðvar og tvöfalt dreifingarkerfi. Það er hins vegar að koma ný tækni þar sem er blandað frá dælu sem er mun ódýrari og ef væri tekin hér upp litun þá tel ég að það væri mun vænlegri kostur að sú aðferð yrði tekin upp.
    Ég vil leggja á það áherslu að þessi breyting sem hér er lögð til með endurgreiðslukerfi kemur ekki á nokkurn hátt í veg fyrir það að litun verði tekin upp aftur og er í raun forsenda þess og getur verið fyrirboði þess að litun verði tekin upp ef menn telja það rétt.
    Virðulegur forseti. Ég vil einnig nefna að í efh.- og viðskn. er í gangi frv. um vörugjald á bifreiðar. Þar er m.a. lögð til lækkun á vörugjaldi á hópferðabíla og að mati nefndarinnar er algerlega nauðsynlegt að sú breyting nái einnig fram að ganga í tengslum við þetta til þess m.a. að mæta því ef þetta íþyngir þeim bílum eitthvað sem það raunar á ekki að gera og einnig að mæta því að það var farið nokkuð illa með þessa aðila fyrir rúmu ári síðan þegar ákveðið var á síðustu stundu að 14% virðisaukaskattur færi ekki á hópferðabílana en menn í þeirri grein voru búnir að fara í fjárfestingar haldandi það að þeir fengju virðisaukaskattinn endurgreiddan.
    Virðulegur forseti. Undir þetta nál. skrifar sá sem hér stendur, form. og frsm., hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, Guðjón Guðmundsson, Steingrímur J. Sigfússon, Finnur Ingólfsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Ingi Björn Albertsson með fyrirvara. Kristín Ástgeirsdóttir og Sólveig Pétursdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.