Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 23:53:00 (5047)


[23:53]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð að þakka nefndinni fyrir vinnu við þetta frv. Ég vil jafnframt taka undir orð hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, bæði í ræðu hans hér og margt af því sem hann orðaði í málflutningi sínum við fyrri umræðu þessa máls. Þá kom fram að þingmaðurinn hefur, reyndar frá fyrri tíma, aflað sér mjög mikillar þekkingar á ýmsu sem lýtur að öryggismálum vegna skriðufalla og ofanflóða og gat miðlað okkur af ýmsu því sem hann hafði viðað að sér um þessi mál. Ég tek undir það að það er bæði erfitt að fá fullkomið öryggi með varnarvirkjum og einnig hitt, að við megum ekki vera of upptekin af því miðað við í hvernig landi við búum og býst við að við séum bæði mótuð af okkar heimabyggðum í því efni.
    Ég kem hérna upp fyrst og fremst til að árétta það að lögð er áhersla á það í frv. og reyndar í brtt. nefndar að reyna að hafa nokkuð hreinar línur fyrir sveitarfélög að styðjast við, en jafnframt að tryggja það að ákvörðun sem tekin er, er tekin í heimabyggð og þó sé með traustum stuðningi ríkisvalds, þá er ákvörðunin heima og þetta ræddum við líka reyndar við fyrri umræðu málsins.
    En varðandi það að taka raunsætt á skipulagsmálum til framtíðar sem er mjög mikilvægt og tengja þessi mál skipulagsákvörðun, þá lít ég svo á að þar eigum við að gera það sem skynsamlegt er, fara í skoðun á þessum hlutum, athuga hvar þessum málum er best fyrir komið og hvort það hafi e.t.v., eins og hefur verið vikið að, hreinlega farist fyrir að flytja ofanflóðasjóð og ofanflóðavarnir með til umhvrn. Ég hef ekki kynnt mér hvort það var rætt á sínum tíma, en óháð því þá er mjög mikivægt að skoða það núna. Það var ekki nauðsynlegt að mínu mati að skoða það samhliða þessu frv., en ég hef rætt það við umhvrh. að það sé mál sem við í ríkisstjórn eigum að ræða og skoða með hvaða hætti eigi að taka á og það verður gert í framhaldi af þessu máli.