Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 00:29:57 (5053)


[00:29]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Hæstv. forseti. Í tilefni af orðum hv. þm. Guðrúnar J. Halldórsdóttur um það að ég hafi ákveðið í lok umræðunnar í hv. heilbr.- og trn. um frv. til laga um sjúkraliða að taka málið ekki út þá lýsti ég þeirri afstöðu minni strax í upphafi fundarins um að það væri ósk mín að frv. yrði tekið út úr nefndinni, samþykkt í nefndinni óbreytt, að leggja til við þingið að það yrði samþykkt óbreytt. Síðan óskaði ég eftir því að hv. nefndarmenn mundu lýsa afstöðu sinni til frv. Það tók einn hv. þm. undir þessa afstöðu mína og tillögu, einn hv. þm. Aðrir hv. þm. tóku allir til máls og lýstu ýmsum hugmyndum sínum til málsins, en ekki um það að taka undir það að afgreiða málið með þeim hætti sem ég óskaði eftir. Hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir lýsti því yfir á fundinum að hv. þm. treysti sér ekki til að standa að afgreiðslu frv. óbreyttu. Í lok fundarins harmaði ég það að ekki hefði verið hægt að taka frv. út úr nefndinni, lýsti því að aðeins einn hv. þm. hefði tekið undir afstöðu mína og að mitt mat væri að það væri ekki samstaða um málið og um það urðu umræður og niðurstaða að það var ekkert samkomulag og það harma ég því mér þótti brýn ástæða til að þetta mál kæmi til afgreiðslu hér á þinginu og yrði afgreitt óbreytt eins og það yrði lagt fyrir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.