Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 00:56:29 (5064)


[00:56]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Vissulegi forseti. Hér hefur orðið mikil umræða um þetta sjúkraliðafrv. og það er mjög eðlilegt. Hæstv. forsrh. og hæstv. heilbrrh. lýstu best þeim ágreiningi sem er í málinu. Hæstv. umhvrh. spurði sérstaklega um afstöðu þess sem hér stendur og ég þakka honum sérstaklega fyrir það að veita mér þann heiður að ég fái sérstaklega að tala frá eigin brjósti um það, nú tala ég ekki fyrir hönd alls Framsfl. heldur frá mínu eigin brjósti. Það kom ávallt fram í nefndinni, ég kom alltaf hreint fram með það, að ég ætlaði ekki að stöðva þetta mál. Það mátti renna í gegnum nefndina mín vegna, en ég mundi koma með brtt. við 5. gr. frv. Það var alla tíð ljóst. Og það er ekki í fyrsta skipti sem ég hef haft það í huga að koma með brtt. en því miður hefur stjórnin fellt þær brtt. oftar en ekki. Það er því orðið sérstakt núna ef tekið er tillit til þeirra tillagna sem ég legg fram. Ég vildi að þetta kæmi hér fram vegna þess að ég var sérstaklega spurð.
    Mér fannst dálítið sérstakt það sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði um þetta mál. Hann kom á fund í nefndinni í fyrsta skipti, við erum búin að ræða þetta á þrem fundum, hann ræddi ekkert efnislega um málið. Hann taldi bara eðlilegt að það rynni út úr nefndinni og það var hans álit og allt í lagi með það. En mér hefði þótt eðlilegra að hann færi efnislega yfir það. Hæstv. umhvrh. talaði um að það hefðu verið loðin svör sem við gáfum hér þrjú, Finnur Ingólfsson, ég sem hér stend og Guðrún J. Halldórsdóttir. Ég ætla að endurtaka það sem við sögðum í okkar bókun:
    ,,Stjórnarandstaðan hefur jafnan talið það skyldu sína að stuðla að því að stjórnarfrumvörp sem tengjast gerð kjarasamninga næðu fram að ganga.``
    Nú hefur það komið fram hjá hæstv. heilbrrh. að þetta hafi ekki tengst kjarasamningum og það var sú yfirlýsing sem hann gaf í hv. heilbr.- og trn. ( ÓRG: Ekki tengst kjarasamningum?) ( Gripið fram í: Nei.) Þannig að ef það tengist kjarasamningum þá hlýtur ríkisstjórnin að vera bundin við að standa við það ( Gripið fram í: Og Framsfl. . . .  ) og þá hlýtur ríkisstjórnin að vera bundin við að standa við gefin loforð. ( KE: Hefur hún ekki meiri hluta, ríkisstjórnin?)