Kennaraverkfallið

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 13:53:02 (5136)


[13:53]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er þannig að í hvert skipti sem stétt sem hefur umönnun eða eftirlit með öðrum þegnum samfélagsins, einkum og sér í lagi þeim sem eru yngri eða minna mega sín á einhvern hátt, neyðist til að fara í verkfall þá brennur það alltaf fyrst og fremst á þeim sem eiga að njóta þjónustunnar. Þetta er staðreynd sem við rekum okkur alltaf á og er sorgleg og þýðir þar af leiðandi að það brennur á öllum þeim sem að samningamálum koma að leysa málin alltaf sem fyrst og til heilla þeim sem eiga að fá úrlausn sinna mála, þ.e. þeirra sem eru í það og það sinnið að sækja rétt sinn.
    Þegar kennarar fara í verkfall er það láglaunastétt sem fer í verkfall. Þetta er láglaunastétt vegna þess að hún hefur alltaf haft viss gylliboð um framtíð sína. Hún á að eiga örugga vinnu og örugga elli. En núna stendur kennarastéttin frammi fyrir því að sennilega er hvorugt öruggt meðan grunnskólamálin eru á svo öryggislausum og óefndum grunni sem hann er í dag. Þess vegna standa málin afskaplega tæpt. Við erum að fara heim og við getum ekki farið heim, við verðum að vera hérna þangað til búið er að leysa þetta mál. Við getum ekki farið.
    Þegar ég hætti sem kennari á vegum ríkisins þá fluttist ég til Reykjavíkurborgar og ég þekki þetta mál þar af leiðandi vel. Ég fékk að vita að ég gæti ekki flutt lífeyrissjóðinn minn með mér, ég yrði að eiga hann inni. Nú stend ég t.d. og spyr: Hvað verður um minn lífeyrissjóðsrétt? Og allir standa og spyrja um það sama: Hvað verður um okkar framtíð? Hvaða rétt eigum við núna? Það verður að leysast, hæstv. ríkisstjórn, áður en þessi sólarhringur er runninn.