Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 18:26:50 (5208)


[18:26]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka virðulegum forseta fyrir þennan úrskurð. Ég tel miklu betra að reyna að ljúka þessu máli svo að störfin geti haldið eðlilega áfram.
    Ég hafði ekki hugsað mér að lengja þessa umræðu neitt mikið en ég hef ekki enn þá tekið til máls

í umræðu um vegáætlun og það hefur mjög margt verið að gerast í þessum málum. Það sem mér finnst fyrst og fremst þurfa að koma hér fram er það að við í minni hluta samgn. og mjög margir hv. þm. hér inni höfum mótmælt þeirri reglu sem tekin var upp af tveimur hæstv. ráðherrum, þ.e. þeirri höfðatölureglu sem við köllum svo, þ.e. að skipta vegafé eftir höfðatölureglu.
    Við ræddum þetta við 1. umr. málsins og þá var því vísað frá að búið væri að ákveða neitt í þeim efnum. Það yrði auðvitað skoðað, það væri ekkert búið að ákveða, þessu yrði bara skipt þegar búið væri að ræða málið í þinginu og í samgn. Ég vil benda á að það hefur verið til regla sem menn hafa verið ásáttir um. Hún hefur verið í gildi undanfarin ár. Hún hefur ekki valdið ágreiningi. Í þeirri reglu er tekið mið af því hvernig kostnaður vegakerfisis mundi vera, hver kostnaður er við það sem eftir er að gera, hvernig ástandið er og hver umferðin er. Það segir sig auðvitað sjálft að þegar verið er að reikna með umferð, þá hlýtur sú tala að vera hærri eftir því sem fleiri búa á svæðinu. Þar af leiðandi hefði það alveg eins komið þeim kjördæmum til góða sem hér er verið að hygla með því að hafa höfðatölureglu og með meiri sanngirni hefði átt að nota hina fyrri reglu sem ég er að nefna.
    Ég tel því að engin rök hafi verið fyrir því að breyta þessari reglu á þessu stigi. Það hefði átt að hafa þetta eins og rætt var um í upphafi og allir þingmenn voru mér sammála um að það væri mjög eðlilegt að gera sérstakt átak í framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu og skipta síðan, þegar búið væri að taka til þess sérstaka verkefnis, öðru fjármagni sem eftir væri með venjulegri skiptireglu á milli annarra kjördæma. Og í samræmi við það höfum við í minni hluta samgn. lagt fram brtt. sem gerðu það að verkum að ekkert kjördæmi fengi minna af framkvæmdaátaksvegafé en hefði verið ef hin eldri skiptiregla hefði verið notuð.
    Ég vil einnig gagnrýna það hvernig farið er með tölur í þessari vegáætlun því að það er alveg forkastanlegt hvernig hún er sett upp. Það er verið að setja upphæðir til framkvæmdaátaks inn oftar en einu sinni eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson rakti áðan. Það er verið að lána fé úr ríkissjóði og það er verið að taka í ríkissjóð aftur líka úr vegáætlun. Það er því verið að hringla með upphæðir fram og aftur til að slá ryki í augu fólks.
    Í öðru lagi vil ég einnig nefna það að mér finnst vanta í þessa áætlun að taka meira tillit til ástands landsvega og safnvega og einnig að taka með í reikninginn meiri framkvæmdir á reiðvegum. Um það hefur einmitt mikið verið rætt við undirbúning þessarar vegáætlunar að taka þyrfti mið af því hversu mikil umferð hesta er orðin um landið og þar á ferðaþjónustan stóran hlut að einnig og hefði þurft að gera því hærra undir höfði og auðvitað jafnframt afla fjár til þess. Það er alveg hægt því að oft hefur verið um það rætt og tillögur lagðar fram um það hér að leggja ákveðinn skatt á t.d. hóffjaðrir eða einhverjar vörur sem reiðmenn nota. Slíkar tillögur hafa komið fram og mér er kunnugt um að mjög margir hestamenn eru því sammála að til þess að gera átak í reiðvegagerð verði farið út í einhverja sérstaka tekjuöflun til þess. Það hefur hins vegar ekki fengist rætt í sambandi við þessa áætlun.
    Að lokum get ég ekki látið hjá líða, virðulegi forseti, að nefna aðeins framkvæmdir sem eiga að vera í mínu kjördæmi. Það hefur verið ákveðið að fara út í að skilgreina Djúpveginn sem stórverkefni og það eru menn mjög sáttir við, bæði innan míns kjördæmis og annarra. Það sem ég er mjög ósátt við í þeim málum er, eins og segir í áliti minni hluta samgn., að vera að blanda þeim tveimur málum saman, að fara í stórframkvæmdir á Djúpveg og að hætta rekstri Djúpferju á þeirri sömu stund sem það er ákveðið. Við vitum það og ég hef rakið það áður og ætla ekkert að eyða löngu máli í það að það er nauðsynlegt að hafa þennan möguleika vegna öryggissjónarmiða. Ekki hvað síst nú í vetur hefur það sannast að að reka þurfi þarna ferju þegar veðurfar hefur verið eins og það er nú. Og mönnum til upplýsingar get ég sagt frá því hér að það er ekki einu sinni hægt í dag að moka Breiðadalsheiði á Vestfjörðum heldur verður að semja við Fagranesi um að það sinni þeim byggðum sem vegurinn um Breiðdalsheiði á að þjóna. Nú segja menn kannski: Þetta verður allt í lagi þegar jarðgöngin eru komin. Að sumu leyti verður það það en þó ekki að öllu leyti því að eftir sem áður þarf yfir snjóflóðahættusvæði að fara þó að jarðgöngin séu komin því að Hvilftarströnd, sem leiðin liggur um út til Flateyrar, er mjög hættulegt snjóflóðasvæði. Ég sé því ekki fram á að það sé kominn tími til þess í dag að segja: Það þarf ekki lengur að reka ferju við Ísafjarðardjúp.
    Virðulegi forseti. Það sem ég ætla að segja að lokum er að ég tel að það hefði átt að gera langtímaáætlun og raunar eru ákvæði um það í vegalögum að það skuli gert og ég vænti þess að farið verði í þá vinnu mjög fljótlega. Ég tel að það hefði þurft að gerast og einnig að unnið hefði verið að þessari áætlun, sem við erum að ræða, á annan hátt, ekki að framkvæmdir séu fyrst ákveðnar af einum manni eða tveimur og síðan séu alls konar hrossakaup við það að koma málunum svo saman að hægt sé að leggja fram vegáætlun. Og ég vænti þess að betur verði unnið að vegáætlunarmálum í framtíðinni.