Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 18:52:56 (5211)


[18:52]
     Kristín Einarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð við þessa umræðu en vil þó nefna aðeins örlítið. Ég verð að lýsa ánægju minni með það að menn sem hér hafa talað í dag virðast vera sammála um að það þurfi að gera sérstakt átak í vegamálum á höfuðborgarsvæðinu og um það snýst ekki deilan. Deilan snýst fyrst og fremst um það hvaða aðferð er notuð til að komast að því hvernig skipta á fénu og ég skil það mjög vel og tek undir það sem hér hefur verið sagt varðandi það hvernig staðið var að þessum málum.
    Ég hefði miklu frekar viljað að það væri reynt að standa að þessu með þeim hætti sem hæstv. forsrh. nefndi fyrst, þ.e. að það yrði ákveðinn hluti til höfuðborgarsvæðisins og síðan yrði því sem eftir yrði dreift eftir þeim reglum sem hafa verið í gildi og ég held að flestir séu sammála því sem hér hafa gagnrýnt þessa ákvörðun og vil ég taka undir það. Mér þykir gott að heyra að menn eru almennt ekki ósammála því að aukið fé fari til höfuðborgarsvæðisins.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það í heildina. Við nokkrir þingmenn Reykjavíkur tókum þátt í fyrir hönd okkar þingflokka að reyna að skipta þessu ásamt Vegagerðinni niður á ákveðin svæði og í þeim efnum var tekið tillit til samkomulags sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. þeirrar forgangsröðunar sem þau höfðu þá gert.
    Ég vil hins vegar gera litla athugasemd við nöfn á þeim vegum sem verið er að nota í vegáætluninni. Þegar ég fór að fletta tók ég eftir því að það er til Nesbraut í Reykjavík og ég fór að velta því fyrir mér hvar hún væri. Ég hélt mig þekkja sæmilega vel til Reykjavíkur en fór svo að lesa betur og þá tók ég eftir því að þarna er verið að tala um ákveðna leið í Reykjavík. Þetta sama gildir um Reykjanesbraut. Það er allt í einu orðið allt annað en ég lít á sem Reykjanesbraut í Reykjavík. Mér þykir mjög slæmt að nöfn eins og þessi, sem eru okkur alls ekki kunnug, skuli tekin upp. Ég tel miklu eðlilegra þegar verið er að finna út einhverjar leiðir eins og þetta séu það jafnvel kallaðar leiðir eða eitthvað annað en ekki braut vegna þess að við erum t.d. vön að kalla Miklubraut Miklubraut þannig að þegar talað er um Nesbraut þá heldur maður að um venjulega götu sé að ræða. Ég vil aðallega gera athugasemdir við þetta og tel að það eigi í samráði við yfirvöld í Reykjavík eða eftir atvikum þingmenn Reykjavíkur að finna önnur nöfn á þessar leiðir sem þarna er verið að reyna að skilgreina í vegáætlun.
    Annað ætlaði ég ekki að segja að svo komnu máli við þessa umræðu, hæstv. forseti. Ég vona að það verði tekið tillit til þessara athugasemda og að Vegagerðin sé ekki að nefna götur og leiðir innan Reykjavíkur án samráðs við Reykvíkinga.