Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 18:56:32 (5212)


[18:56]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég skal virða aðstæður og hafa það í heiðri að hafa ekki langt mál þó að margt mætti um þetta mál segja og það er afar óheppilegt að standa frammi fyrir því að málið sé til afgreiðslu á elleftu stundu og rúmlega það og geta í raun og veru ekki haft hér eðlileg skoðanaskipti um jafnmikilvægan málaflokk og þetta er.
    Ég vil í fyrsta lagi fagna því að það hefur náðst nokkur árangur í því að brjóta á bak aftur þau áform sem meiri hlutinn hafði uppi varðandi það að keyra málið í gegn í ágreiningi við stjórnarandstöðuna og þingmannahópa einstakra kjördæma. Sú brtt., sem er nú flutt af meiri hluta samgn., sem meiri hluti samgn. hefur í raun verið þvingaður til að flytja, er til bóta og það er réttlætismál að reyna að hafa í heiðri ákveðna skiptingu milli kjördæmanna. En það, hæstv. forseti, er eiginlega það eina sem ég get fagnað í þessu máli. Það er þó sá sigur sem hefur unnist hér í dag og endurspeglast í þessari tillögu. Að öðru leyti hlýt ég þvert á móti að harma það hvernig þessi málaflokkur er orðinn útleikinn eftir fjögurra ára valdatíma núv. hæstv. samgrh. Allt sem áður hét samstaða í þessum efnum er gersamlega fyrir bí og nú logar þessi málaflokkur orðið í ágreiningi og illdeilum meira en eiginlega nokkur annar sem til umfjöllunar er hér á þinginu. Það er mikil afturför og sorgleg því að lengi var það svo að um vegáætlanir ríkti hvað mest samstaða af flestum málum sem hér voru til umfjöllunar. Það er sorglegt að horfa upp á það hvernig þessi mikilvægi málaflokkur hefur á einu kjörtímabili orðið fórnarlamb þessara vinnubragða.
    Hér er til að mynda uppsetningin á málum þannig að ég efast um að margir eigi auðvelt með að átta sig á því hvað hér er á seyði. Hafa menn prófað að fletta þessu skjali, þessari vegáætlun og reyna að fá botn í það hvað þarna er að gerast, þar sem verkefnin eru sett upp á mörgum síðum og fer það eftir því hvað hæstv. ráðherra hefur kosið að skíra hin einstöku átök sín og verkefni?
    Ég verð að segja alveg eins og er líka, hæstv. forseti, að mér er til efs að annað eins endemis þingskjal hafi birst eins og forsíðan á þessari vegáætlun, þar sem annars vegar er fært í ríkissjóð á hverju ári nokkur hundruð millj. kr. en þrem línum neðar á sama blaði er framlag úr ríkissjóði, nokkur hundruð millj. kr. á hverju ári. Hvað á svona lagað að þýða? Hvers konar skollaleikur er hér á ferðinni? ( ÓÞÞ: Það er atvinnuleysi í landinu.) Staðreyndin er auðvitað sú að með þessum æfingum er hæstv. ráðherra að ná fé út úr almennu vegaframkvæmdunum, koma því inn í þennan gæluverkefnaflokk sinn og koma því þannig fram hjá hefðbundinni skiptireglu milli kjördæma. Til þess er leikurinn gerður. Og það væri gaman að vita hvað þeir hjá Ríkisendurskoðun, þeir heilögu menn, segja um svona bókhaldskúnstir.
    Ég vil segja, hæstv. forseti, örstutt um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, af því að þær tengjast þessu máli, að mér finnst dálítið merkilegt að menn fjalli um það eins og þetta sé í fyrsta sinn sem eigi að ráðast í einhverjar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Svo er ekki. Og þetta er ekki einu sinni í fyrsta sinn sem verkefnin hér eru skilgreind sérstaklega. Það er búið að vera í vegáætlun síðan 1989. Þá var tekinn upp í vegáætlun verkefnaflokkurinn höfuðborgarsvæðið, sem var einn af þremur verkefnaflokkum í stórverkefnum til viðbótar við jarðgöng og brýr. Á sama kjörtímabili var gerð upp skuld Vegasjóðs eða ríkisins við borgina upp á rúmlega einn milljarð kr. sem fyrri ríkisstjórnir höfðu skilið eftir. Þannig að á þeim tíma var tekið mjög á þessum málum. Það hefur auðvitað öllum verið ljóst, sem einhverja nasasjón hafa haft af vegamálum, að það hlaut að bíða mikið verkefni hér og miklar framkvæmdir á þessu svæði og um það hefði að mínu mati aldrei þurft að verða neinn ágreiningur ef eðlilega hefði verið að því unnið, því

það eru auðvitað allir réttsýnir menn sammála um að það verður að ráðast í miklar framkvæmdir hér m.a. til þess að útrýma ýmsum slysagildrum o.s.frv. En það eru þessar æfingar þar sem hæstv. ráðherra hefur á kjörtímabilinu ráðskast með þessi mál, í raun og veru ómerkt vegáætlun aftur og aftur, sest með blöð á hnjákollunum og farið að skipta vegafé sem á að vera verkefni Alþingis og síðan er mönnum stillt upp við vegg hér og standa frammi fyrir gerðum hlut og meiri hlutinn lætur handjárna sig trekk í trekk hér á þinginu. Þetta eru auðvitað alveg ömurleg vinnubrögð, hæstv. forseti.
    Það var þess vegna mjög dæmigert þegar hæstv. ráðherra kom hér í stólinn áðan, beljandi um fund sem hann hefði átt með tveimur stjórnarþingmönnum í dag til að ganga frá tilteknum hlutum þessa máls. Það er mjög lýsandi og dæmigert fyrir vinnubrögðin eins og þau hafa verið þó að í lögum standi að slíkt sé verkefni Alþingis, að skipta vegafé niður á einstakar framkvæmdir og reyna að ná um það einhverri samstöðu. Þannig að þetta er, hæstv. forseti, auðvitað stórkostlega ámælisvert og ég harma það, ég endurtek það, ég harma það hvernig er búið að leika þennan málaflokk því að það var mikil gæfa á meðan svo var að um hann var hér mikil þverpólitísk samstaða og vegáætlanir voru aftur og aftur afgreiddar einróma eftir mikla og faglega vinnu í þingmannahópunum og í samstarfi við Vegagerðina.
    Að lokum vil ég taka það fram, hæstv. forseti, að ég hef tekið þátt í því ásamt öðrum þingmönnum Norðurl. e. að skipta því vegafé sem þar er til skiptanna til einstakra framkvæmda og til þess að það sé alveg á hreinu þá er ég aðili að þeirri skiptingu og ber á henni pólitíska ábyrgð þó að ég sé ákaflega ósáttur við margt annað sem í málinu liggur. En ég vil hafa þá hluti á hreinu og samkomulag er samkomulag og að því leyti til stend ég að þessu plaggi að ég hef tekið þátt í þessari skiptingu. Ég er að sjálfsögðu ekki ánægður með ýmislegt sem þar er á ferðinni frekar en eins og gengur, en þarna hefur náðst málamiðlun sem ég stend að og ætla ekki að hlaupa frá. En að öðru leyti, hæstv. forseti, eins og mér hefur vonandi tekist að gera hér grein fyrir, er óánægja mín slík með þetta plagg að ég treysti mér ekki til að bera á því ábyrgð og mun sitja hjá við vegáætlun í heild sinni.