Grunnskóli

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 19:19:55 (5215)


[19:19]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Þar sem mig vanhagar ekki um þau skjöl sem ég geri ráð fyrir að hér sé verið að bíða eftir þá vil ég endilega nýta þann tíma og koma þeim örfáu atriðum sem ég hafði beðið um orðið út af á framfæri.
    Varðandi þetta frv. eða þá kerfisbreytingu sem hér er verið að gera þá er ýmislegt sem er út af fyrir sig alveg ljómandi gott í þessu frv. en flest af því er einnig í núgildandi lögum og gallinn hefur verið sá að þeim hefur ekki verið framfylgt. Nú er ætlast til þess að sveitarfélögin geri það og það er að sjálfsögðu mjög erfitt mál. Og þó að ég sé í sjálfu sé sammála þeirri grundvallarhugsun að sveitarfélögin taki við þessum málaflokki þá þýðir ekki að kasta honum til sveitarfélaganna fyrr en búið er að sjá við því að það sé búið að búa þeim það umhverfi að þau séu í stakk búin til að taka við þessum málaflokki og þar eru of margir lausir endar.
    Það sem ég hef við þetta frv. að athuga er ekki aðallega það sem stendur í því heldur aðallega það sem vantar í það, það sem skortir á til þess að þetta sé fullburða. Í fyrsta lagi er ekki tekið á því hvernig hlutverk fræðsluskrifstofu verður leyst af hólmi. Það er mjög mikilvægt hlutverk sem fræðsluskrifstofum er nú ætlað og því miður er þetta í lausu lofti enn þá. Það er ekki tryggt fjármagn til þessa mikilvæga hlutverks og það er rétt að benda á það að fræðsluskrifstofur hafa verið í alvarlegu fjársvelti að undanförnu. Þessum málaflokki er nú hent yfir á sveitarfélögin og miðað við að þetta sé það allt og sumt sem þarf á að halda. Ég held að það dugi að nefna sérkennslu, sálfræðiþjónustu og aðra þjónustu sem fræðsluskrifstofu er sérstaklega ætlað og einnig vil ég nefna alla þá aðila sem standa að þjónustu við fatlaða, því þar vantar því miður töluvert mikið upp á að útfærsla sé í lagi. Það er ekki tryggð þjónusta fyrir fatlaða sem búa úti á landi og á stundum er vísað til sérskóla sem aðeins er að finna á höfuðborgarsvæðinu. Hér er því ekki tekið á vandanum.
    Sú grein sem ég vil líta á sem besta við þetta frv. er 36. gr. frv. en þar er tekið á því sem sem betur fer hefur verið sýnt í framkvæmd nú þegar og það er kennsla nýbúa. Þetta er ljómandi gott. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að það eru fleiri en nýbúar sem þurfa að fá sérstaka þjónustu vegna þess að þeirra móðurmál er ekki viðurkennt í núverandi skólakerfi alveg eins og þarf að vera og í þeirra hópi eru heyrnleysingjar. En það er mjög mikilvægt og það er ekki bara í 36. gr. heldur víðar sem þarf að huga betur að því að fá þeirra sérstöku stöðu innan skólakerfisins viðurkennda. Ég sakna líka sérstaklega ákvæðis um hámarksfjölda nemenda í bekki.
    En þessar athugasemdir eru aðeins það sem mér finnst bráðnauðsynlegt að komi fram. Við kvennalistakonur höfum hins vegar ákveðið eins og áreiðanlega fleiri hér að greiða fyrir þessu máli með því að lengja ekki umræðuna vegna þess mikilvæga samkomulags sem orðið hefur við kennara nú í dag og verður vonandi til þess að greiða fyrir samningum við þá því það er alveg ljóst að hluti af þeim vanda sem hefur verið við að glíma í samningaviðræðum við kennara hefur verið vegna þeirra óvissustöðu. Þar af leiðandi fagna ég því út af fyrir sig að höggvið skuli hafa verið á þennan hnút og þeir ekki skildir eftir í þessari óvissu sem þetta frv. bauð upp á óbreytt og ég held að það hljóti að geta orðið til góðs núna. Hitt er annað mál líka að ef það er eitthvað sem getur orðið til þess að létta róðurinn í þessari erfiðu vinnudeilu sem núna er og kemur við flestar fjölskyldur þar sem börn og unglingar eru nú án kennslu og án þeirrar mikilvægu þjónustu sem þessi kennsla er þá er það að sjálfsögðu af hinu góða.
    Ég hef ekki fleira um þetta mál að segja í bili þótt full ástæða væri til þess að fara ítarlegar út í þetta og ég vonast til þess að það verði hægt með tíð og tíma að leysa úr þeim augsýnilegu ágöllum sem eru á þeirri tilhögun sem núna er verið að færa yfir okkur án þess að leyst hafi verið þau vandamál sem fylgja. En ég geri ráð fyrir því að stjórnarmeirihlutinn hafi tryggt þessu máli brautargengi og þar af leiðandi geri ég ráð fyrir að þessi kerfisbreyting verði. Það verður þá stjórnmálamanna framtíðarinnar að taka

á þeim vanda sem upp kemur.