Afgreiðsla frv. um tóbaksvarnir

108. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 20:21:08 (5228)


[20:21]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég sakna þess að þetta mál, tóbaksvarnalög, skuli ekki vera á dagskrá þingsins. Hv. heilbr.- og trn. afgreiddi þetta mál samhljóða út úr nefndinni eftir töluvert mikla vinnu. Ég lagði þá vinnu á mig að hlusta á hv. þm. Inga Björn Albertsson flytja sína ræðu í nótt til klukkan að verða fimm. Á þessum 40 mínútum var hann ekki kominn með neinar tillögur um efnislegar breytingar. Það mundi því trúlega taka hann alllangan tíma að ná því. Það var enginn annar á mælendaskrá. Ég hefði talið rétt að leyfa honum að klára sitt mál og ég var alveg tilbúin að hlusta á hann þó að það væru margar klukkustundir en því miður var þessu máli frestað í nótt. En ég spyr hv. þm.: Er hv. þm. ekki tilbúinn til að gera grein fyrir sínum brtt. í stuttu máli? Ég er alveg viss um að þingmenn eru tilbúnir að hlýða á mál hans og taka til greina hans brtt. Ég efast ekki um það. Hér er um mikið þjóðþrifamál að ræða, hér er um forvarnamál og heilbrigðismál að ræða. Hér er verið að tala um að banna innflutning á fínkorna neftóbaki sem hefur valdið miklum skaða. Ég spyr hv. þm. Inga Björn Albertsson: Er hann tilbúinn til þess að ræða þetta í þinginu í stuttu máli?